Hoppa yfir valmynd
22. desember 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Úthlutun ársins 2004

Uppbygging gagnabanka fyrir gjóskulög í jarðvegssniðum sunnan Vatnajökuls

Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Hornafirði, kr. 440.000,-
Þétt net vel greindra gjóskulagasniða er lykilatriði að aukinni þekkingu á sögu landmótunar. Markmið þessa verkefnis er að byggja upp gagnabanka fyrir gjóskulög í jarðvegssniðum fyrir Austur-Skaftafellssýslu. Stefnt er að því að setja allar upplýsingar inn í landfræðilegan gagnagrunn og kortleggja gjóskulögin bæði í tíma og rúmi. Verkefnið er unnið í samstarfi nokkurra aðila m.a. við Þórbergssetur í Suðursveit.

Búsvæðaval og afkoma óðinshana og þórshana í Öræfum

Líffræðistofnun Háskólans, kr. 360.000,-
Þórshana og óðinshana virðist hafa fækkað hér við land síðari ár. Varpstofn þórshana er mjög lítill, en eitt helsta varpsvæði þórshanans hefur á síðustu árum verið í Austur-Skaftafellssýslu. Markmið rannsóknarinnar er að lýsa búsvæðavali og afkomu óðinshana og þórshana innan sama svæðis í Öræfum. Stefnt er að því að niðurstöðurnar auðveldi það að hægt verði að fylgjast með stofnbreytingum þessara tegunda í framtíðinni.

Rannsóknir á eyðibýlinu undir Salthöfða

Fornleifafélag Öræfa, kr.240.000,-
Unnið hefur verið að fornleifagreftri við Salthöfða í Öræfum undanfarin tvö sumur. Grunur manna um bæjarrústir undir þykku gjóskulagi úr Öræfajökulsgosinu 1362 var stafestur árið 2002 og á síðasta ári var unnið við að grafa ofan af rústunum. Markmið rannsóknarinnar í ár er að rannsaka tóftina við Salthöfða og bera saman við Gröf, en á þessu ári eru 50 ár liðin frá því að Sigurður Björnsson á Kvískerjum fann eyðibýlið Gröf.

Erfðabreytileiki hrafnaklukku á Íslandi með sérstöku tilliti til stofna er bera hvít blóm og hafa frábrugðið blaðform

Bjarni Diðrik Sigurðsson vistfræðingur og Starri Heiðmarsson, grasafræðingur, kr.200.000,-
Markmið verkefnisins er að kanna stöðu hvítblóma hrafnaklukka innan tegundarinnar. Hálfdán Björnsson á Kvískerjum tók fyrstur eftir því sem honum þótti afbrigðilegar hrafnaklukkur í ferðum sínum á Kristínartinda í Skaftafelli. Síðan þá hafa þessar afbrigðilegu hrafnaklukkur fundist víðar í fjalllendi Austur-Skaftafellssýslu. Hálfdán hefur sett fram þá kenningu að um undirtegund hrafnaklukku sé að ræða sem hafi þraukað af a.m.k. síðasta kuldaskeið ísaldar á hálendari svæðum.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum