Hoppa yfir valmynd
4. júní 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 78/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 78/2021

Föstudaginn 4. júní 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. febrúar 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. janúar 2021, um að kærandi eigi ekki rétt á framlengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta samkvæmt bráðabirgðaákvæði XVIII. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 15. júlí 2020 og var umsóknin samþykkt. Með tölvupósti, dags. 20. janúar 2021, óskaði kærandi eftir upplýsingum um framlengingu á tekjutengdum atvinnuleysisbótum með vísan til lagabreytingar þar um. Erindi kæranda var svarað samdægurs þar sem fram kom að einungis þeir sem áttu ólokið tekjutengingartímabil í júní, júlí eða ágúst 2020 ættu rétt á tekjutengingu í sex mánuði í stað þriggja. Kærandi óskaði eftir frekari skýringu frá Vinnumálastofnun og var hún veitt með erindi stofnunarinnar, dags. 20. janúar 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. febrúar 2021. Með bréfi, dags. 16. mars 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 31. mars 2021, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. apríl 2021, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún kæri ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja henni um framlengingu á tekjutengingartímabili sem hafi verið lengt úr þremur mánuðum í sex mánuði. Kærandi hafi komið inn á bætur eftir að breytingin hafi tekið gildi en hafi aðeins fengið grunnbætur vegna þess að hún hafi áður verið búin með þrjá mánuði á 36 mánaða tímabili.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir.

Í VI. kafla laganna sé kveðið á um það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar. Í 29. gr. laganna sé kveðið á um lengd tímabils sem atvinnuleysistryggingar séu greiddar. Þar segi að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Í 30. gr. og 31. gr. laganna sé kveðið á um þau tilvik sem leiði til þess að bótatímabil samkvæmt 29. gr. laganna endurnýist. Í 30. gr. sé kveðið á um endurnýjun á tímabili eftir að atvinnuleitandi hafi fullnýtt bótarétt sinn. Í 31. gr. sé kveðið á um aðstæður sem leiði til þess að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist áður en fyrra tímabili ljúki að fullu.

Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laga nr. 54/2006 skuli sá sem teljist tryggður samkvæmt III. eða IV. kafla laganna öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur samkvæmt 33. gr. hafi verið greiddar í samtals hálfan mánuð, nema annað leiði af lögunum. Í 8. mgr. 32. gr. komi fram að þegar tímabil samkvæmt 29. gr. haldi áfram að líða er hinn tryggði sæki að nýju um atvinnuleysisbætur eigi hann ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum, enda hafi hann áður fullnýtt rétt sinn til þeirra.

Bótatímabil kæranda samkvæmt 29. gr. laga nr. 54/2006 hafi hafist með umsókn um atvinnuleysistryggingar til Vinnumálastofnunar, dags. 20. febrúar 2018. Kærandi hafi fengið greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur á tímabilinu mars 2018 til júní 2018, þ.e. í þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur samkvæmt 33. gr. hafi verið greiddar til kæranda í samtals hálfan mánuð. Að því tímabili liðnu hafði kærandi því fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta samkvæmt 32. gr. laganna. Þegar kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 15. júlí 2020, hafi kærandi hvorki áunnið sér rétt til nýs tímabils samkvæmt 30. gr. né samkvæmt 31. gr. laganna. Kærandi hafi því ekki átt rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta.

Þann 4. september 2020 hafi verið samþykktar á Alþingi breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Með umræddum breytingum hafi komið inn bráðabirgðaákvæði XVIII., en með ákvæðinu hafi tekjutengdar atvinnuleysisbætur verið lengdar tímabundið, þ.e. úr þremur mánuðum í sex mánuði. Ákvæðið, með síðari breytingum, hafi átt við um alla þá sem ekki höfðu fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta samkvæmt 32. gr. fyrir 1. júní 2020. Ákvæðið gildi til og með 30. september 2021. Það sé svohljóðandi:

„Þrátt fyrir 1. mgr. 32. gr. skal sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að sex mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. hafa verið greiddar í samtals hálfan mánuð enda hafi hann ekki fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta skv. 32. gr. fyrir 1. júní 2020. Hafi hinn tryggði ekki fullnýtt rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta umfram þrjá mánuði fyrir 1. október 2021 fellur niður ónýttur réttur viðkomandi til slíkra bóta samkvæmt ákvæði þessu.“

Kærandi hafi fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta á tímabilinu mars 2018 til júní 2018. Af þeim ástæðum geti kærandi ekki átt rétt á framlengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta samkvæmt bráðabirgðaákvæði XVIII., enda sé áskilið að réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta hafi ekki verið fullnýttur fyrir 1. júní 2020.

Með vísan til ofangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á framlengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta samkvæmt bráðabirgðaákvæði XVIII. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að kærandi eigi ekki rétt á framlengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta samkvæmt bráðabirgðaákvæði XVIII. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um að sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum getur átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Í 31. gr. laganna kemur fram að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sæki að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Í 1. mgr. 32. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt III. eða IV. kafla öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur samkvæmt 33. gr. hafi verið greiddar í samtals hálfan mánuð, nema annað leiði af lögunum. Í 8. mgr. 32. gr. segir að þegar tímabil samkvæmt 29. gr. haldi áfram að líða er hinn tryggði sæki að nýju um atvinnuleysisbætur eigi hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðinu, enda hafi hann áður fullnýtt rétt sinn samkvæmt 1. mgr.

Í bráðabirgðaákvæði XVIII. kafla laga nr. 54/2006 kemur meðal annars fram að þrátt fyrir 1. mgr. 32. gr. skuli sá sem teljist tryggður samkvæmt III. eða IV. kafla öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að sex mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur samkvæmt 33. gr. hafi verið greiddar í samtals hálfan mánuð, enda hafi hann ekki fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta samkvæmt 32. gr. fyrir 1. júní 2020.

Samkvæmt gögnum málsins hófst bótatímabil kæranda samkvæmt 29. gr. laga nr. 54/2006 þann 20. febrúar 2018. Kærandi fékk greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur í þrjá mánuði á tímabilinu mars til júní 2018 og fullnýtti þar með rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laganna. Þegar kærandi sótti á ný um atvinnuleysisbætur þann 15. júlí 2020 hafði hún ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils samkvæmt 31. gr. laganna. Þar sem kærandi fullnýtti rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta fyrir 1. júní 2020 átti hún ekki rétt á framlengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta samkvæmt bráðabirgðaákvæði XVIII. kafla laga nr. 54/2006.

Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

 

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. janúar 2021, um að A, eigi ekki rétt á framlengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta samkvæmt bráðabirgðaákvæði XVIII. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum