Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Aðgerðarteymi gegn ofbeldi leggur til aðgerðir vegna ofbeldis gegn fólki með fötlun

Aðgerðateymi gegn ofbeldi, sem skipað var í maí af Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, hefur skilað ráðherrunum tillögum um aðgerðir vegna ofbeldis gegn fólki með fötlun, en teymið skipa Eygló Harðardóttir og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. Í skýrslu greiningardeildar Ríkislögreglustjóra, Ofbeldi gegn fötluðu fólki á Íslandi, sem gefin var nýlega kom fram að ætla megi að fjöldi fatlaðs fólks verði fyrir ofbeldi á Íslandi og að í einhverjum tilvikum verði þolendur ítrekað - og jafnvel reglulega - fyrir ofbeldi. Er aðgerðunum ætlað að bregðast við þeirri stöðu.

Tillögurnar eru eftirfarandi:

  • Greining á umfangi ofbeldis gegn fólki með fötlun. Skoðað verður hvernig megi skrá ofbeldi gegn fólki með fötlun við skráningu mála í lögreglukerfinu (LÖKE) án þess að brjóta gegn persónuvernd viðkomandi til að vinna megi greiningar á tilkynningum um ofbeldi gegn fólki með fötlun.
  • Fagleg ráðgjöf til þjónustuaðila. Veita faglega ráðgjöf til frjálsra félagasamtaka bæði innan hagsmunasamtaka fólks með fötlun og þeirra sem sinna þjónustu vegna ofbeldisí formi yfirlesturs gagna, samráðs við fagfólk og ráðgjöf varðandi stefnumótun vegna ofbeldis gegn fólki með fötlun til að stuðla að því að fólk með fötlun sé upplýst um núverandi þjónustuúrræði og að þjónustuúrræðin vegna ofbeldis verði aðgengilegri fólki með fötlun.
  • Jafningjafræðsla. Jafningjanámskeið fyrir fatlað fólk. Markmið námskeiðanna verður að auka réttarvitund, sjálfsskilning og líkamsvirðingu.Áhersla lögð á að fjalla um misrétti og ólíkar birtingarmyndir ofbeldis og hvernig sé hægt að leita sér aðstoðar telji þátttakendur sig hafa orðið fyrir ofbeldi eða að á rétti sínum hafi verið brotið.
  • Námskeið fyrir fagfólk innan löggæslu og dómskerfis.Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar standi að námskeiðum fyrir starfandi lögreglumenn um birtingarmyndir ofbeldis í lífi fólks með fötlun. Markmið námskeiða er að fagfólk á sviði löggæslu öðlist dýpri skilning á sögu fatlaðs fólks og hvernig ofbeldi í lífi fatlaðs fólks birtist á stundum með öðrum hætti en hjá ófötluðu fólki.
  • Námskeiðið Allt um ástina. Boðið upp á námskeiðið Allt um ástina fyrir ungmenni með frávik í taugaþroska á aldrinum 15-20 ára.Námskeiðið er forvarnarnámskeið gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni.
  • Meðferðarrúrræði Keep safe. Styrkur til að undirbúa námskeiðahald og kynningu á úrræðinu Keep Safe fyrir barnaverndarnefndum, en það er þróað fyrir drengi á aldrinum 12-17 ára sem eru með frávik í þroska.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Fatlað fólk er í sérstökum áhættuhópi sem þolendur ofbeldis. Börn með fötlun eru einnig líklegri til að vera fyrir bæði líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi en börn án fötlunar. Það er því gríðarlega mikilvægt að við bjóðum upp á úrræði fyrir þessa hópa sem bæði miða að því að tryggja að fatlað fólk sem verður fyrir ofbeldi fái þá þjónustu og stuðning sem það þarf, en einnig þurfum við að sinna forvörnum og fræðslu og þannig draga úr tíðni brota.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra: „Sú áhersla sem löggæslan leggur á baráttu gegn ofbeldi skilar sér í betri þekkingu á eðli og umfangi ofbeldis. Skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um ofbeldi gegn fötluðu fólki er liður í að skilja og greina vandann og umfang hans, þannig að við getum sem best brugðist við honum og varið hópa í veikri stöðu fyrir ógn ofbeldis.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum