Hoppa yfir valmynd
21. október 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 21. október 2022

Heil og sæl.

Við heilsum héðan af Rauðarárstígnum og færum ykkur það helsta sem hefur átt sér stað í utanríkisþjónustunni síðustu daga.

Af nógu er að taka en við hefjum leik á fréttatilkynningu ráðuneytisins um þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins sem Ísland framfylgir einnig en ákveðið var að grípa til aðgerða gagnvart Íran vegna aðildar þarlendra stjórnvalda að dauða Mahsa Amini og ofsóknum gegn friðsömum mótmælendum. Ráðherraráð Evrópusambandsins bætti á mánudag ellefu einstaklingum og fjórum lögaðilum á lista yfir þá sem sæta þvingunaraðgerðum skv. gildandi regluverki sambandsins. Um er að ræða einstaklinga og stofnanir, þar á meðal siðferðislögreglu og almenna lögreglu, sem ýmist eru talin bera ábyrgð á dauða ungrar konu sem sat í varðhaldi fyrir að bera ekki höfuðslæðu í samræmi við reglur, eða ofbeldisfullum aðgerðum gegn friðsömum mótmælendum í landinu.

Staðan í Íran hefur verið til umræðu á ýmsum stöðum í vikunni en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra tók þátt í fjarfundi kvenkyns utanríkisráðherra í vikunni sem haldinn var að frumkvæði Mélanie Joly, utanríkisráðherra Kanada. Alvarleg mannréttindabrot í Íran, ekki síst gegn konum og börnum, voru í brennidepli

Þá fundaði ráðherra með Maroš Šefčovič varaforseta framkvæmdastjórnar ESB í utanríkisráðuneytinu í gærmorgun. Samstaðan með Úkraínu, EES-samstarfið og samstarf Íslands og Evrópusambandsins voru helstu umfjöllunarefni fundarins. Þórdís Kolbrún tók einnig þátt í málstofu sem helguð var EES-samstarfinu ásamt Šefčovič.

„Það er mikilvægt að eiga gott samstarf og samráð við okkar helstu vinaþjóðir í Evrópu og sameiginlegar stofnanir þeirra, ekki síst á þeim umbrotatímum sem við lifum nú. Heimsóknin er gott tækifæri til að kynna áherslur okkar og mál. Við vorum sammála um mikilvægi EES-samstarfsins og að samningsaðilar leggi rækt við samstarfið svo það þjóni áfram sameiginlegum hagsmunum okkar,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Ráðherra fundaði sömuleiðis með David Beasley, framkvæmdastjóra Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP), í ráðuneytinu í morgun. Alvarleg staða mannúðarmála í heiminum og stuðningur Íslands við WFP voru á meðal umræðuefna fundarins en íslensk stjórnvöld tilkynntu í vikunni að þau myndu tvöfalda kjarnaframlag sitt til stofnunarinnar á þessu ári eða sem nemur hundrað milljón krónum.

En þá að sendiskrifstofunum:

Í Kaupmannahöfn tók Helga Hauksdóttir sendiherra á móti Pernille Fenger, yfirmanni Norðurlandaskrifstofu mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna, UNFPA, sem hefur aðsetur í Kaupmannahöfn.

Sendiráð okkar í Osló hélt kynningarviðburð um myndlistarverkefnið Økofilosofiske dialoger í samstarfi við myndlistarkonurnar Hildi Björnsdóttur og Cathrine Finsrud og norska menningarráðið.

Auðunn Atlason, sendiherra og alþjóðafulltrúi forsætisráðuneytisins, stýrði umræðum forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessonar og forseta Finnlands, Sauli Niinistö, sem er hér á landi í opinberri heimsókn.

Í London fékk sendiráðið heimsókn frá Churchill klúbbnum á Íslandi á dögunum sem kominn var til London til þess að fræðast um Winston Churchill og skoða heimaslóðir hans. Heimsótti klúbburinn meðal annars breska þinghúsið og Cabinet War Rooms, Blenheim-höllina þar sem Churchill fæddist og Chartwell, sveitasetur Churchill í Kent.

Þá var salurinn í sendiráðinu nýttur til æfinga fyrir óperuna Music and the Brain eftir Helga R. Ingvarsson.

Í Genf fór fram fjórða umræða um fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna og Moldóvu.

Fundi framkvæmdastjórnar UNESCO lauk á miðvikudag. Ísland leiddi vinnu 50 ríkja vegna ályktunar um verkefni UNESCO í Afganistan þar sem m.a. var samþykkt að fela stofnunni að gera úttekt á stöðu menntamála í landinu.

Í Strassborg var Róbert Spanó kvaddur en hann lýkur störfum sem forseti mannréttindadómstólsins 1. nóvember næstkomandi.

Okkar fólk í Washington tók á móti þingnefnd frá Alþingi í vikunni og hafði í nógu öðru að snúast - þar á meðal var móttaka í tengslum í tengslum við fund styrktaraðila og meðlima í mannréttindasjóði Alþjóðabankans. 

Nikulás Hannigan aðalræðismaður Íslands í New York heimsótti OTC Markets Group kauphöllina.

Jörundur Valtýsson fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum átti gott samtal við forseta 77. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.

Þá hélt Ísland ræðu sínu í 3. nefnd um stöðu mannréttinda og hefur þá lokið almennum málatilbúnaði í öllum helstu nefndum þingsins.

Elín Rósa Sigurðardóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu, og Steingrímur Sigurgeirsson, sérfræðingur á þróunarsamvinnuskrifstofu, sóttu ársfund Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington í síðustu viku. Heimsfaraldur COVID-19 og innrás Rússa í Úkraínu settu mark sitt á fundinn. Báðir atburðir hafa víðtækar afleiðingar sem magna upp þær krísur sem voru fyrir hendi og snerta fæðuöryggi, orku og loftslagsbreytingar. Lene Lind stjórnarmaður í kjördæmi Íslands í bankanum tísti frá fundinum.

Á dögunum fór svo fram fyrsta pólitíska samráð íslenskra og kanadískra stjórnvalda í utanríkisráðuneytinu.

Þórir Ibsen sendiherra Íslands í Kína veitti Mark Viravan ræðismanni Íslands í Bangkok fálkaorðuna.

Þá tók hann þátt í blaðamannafundi í tengslum við norrænu kvikmyndahátíðinna sem fram fer í bakgarði danska sendiráðsins í Taílandi.

Okkar fólk á Indlandi fagnaði svo Diwali-hátíðinni.

Þá var það ekki fleira í bili.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum