Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Kynntu sér Oodi bókasafnið í Helsinki

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra heimsóttu Oodi, eða Óður nýlegt almenningsbókasafn í Helsinki. Heimsóknin var hluti af ferð ráðherra á 74. þing Norðurlandaráðs sem fram fór í borginni.

Oodi var opnað árið 2018 eftir umfangsmikið opið samráð um hlutverk og þjónustu safnsins en um 2300 tillögur bárust í samráðinu. Safnið gegnir hlutverki einskonar samfélagsmiðstöðvar þar sem fólk úr öllum áttum kemur  saman til að sinna ólíkum hugarefnum sínum. Fjölbreytt aðstaða er í boði fyrir gesti safnsins, en til viðbótar við um 100.000 bókatitla sem finna má í salarkynnum þess geta gestir nýtt sér upptökuherbergi, sumavélar, þrívíddarprentara, margmiðlunarherbergi, lærdóms- og fundarherbergi, fyrirlestrasali, eldhús og fleira. 

Íbúar Helskini hafa tekið safninu vel en um 6.000 gestir sækja það daglega og  nýta sér aðstöðu þess og þjónustu .

,,Almenningsbókasöfn eru undirstöðustofnanir til að einstaklingurinn geti náð sér í þekkingu og upplýsingar nauðsynlegar fyrir þroska sinn en líka nauðsynlegar stofnanir fyrir borgarana til að vera virkir þátttakendur í lýðræðissamfélagi og byggja þá þátttöku á þekkingu og upplýsingum. Þetta safn tekur þessa hugsun enn lengra í þágu lýðræðis og jöfnuðar,‘‘ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra

,,Oodi veitir manni innblástur um hvernig hægt er að hugsa starfsemi bókasafna upp á nýtt, virkja samfélagið og ná til fjölbreyttra hópa fólks. Það er einstaklega skemmtilegt að sjá allt það fólk sem nýtir sér þjónustu safnsins. Þarna var mömmuklúbbur saman komin með kornabörn sín, ungir krakkar að spila tölvuleiki og allt þar milli – sannkölluð samfélagsmiðstöð í Helsinki,‘‘ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum