Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2013

Minnkandi verðbólga  – meiri hagvöxtur þegar fram í sækir

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands

Fjárfesting í hlutfalli af VLF 2008-2015Í nýjasta hefti Peningamála, sem Seðlabanki Íslands gefur út, er staðfest að efnahagsleg framtíð Íslands er tiltölulega björt. Þótt horfur séu nú verri en fyrir aðeins nokkrum mánuðum , m.a. vegna erfiðleika í Evrópu, eru meginlínurnar jákvæðar.

Meiri hagvöxtur á næsta ári

Hagvöxtur á síðasta ári var 2,2% sem er sami hagvöxtur og var í Bandaríkjunum en talsvert meiri en helstu samanburðarlönd okkar geta státað sig af. Samdráttur varð í Danmörku, Bretlandi og Finnlandi. Hagvaxtarspáin fyrir árið 2013 er 2,1% en það er helmingi meiri hagvöxtur en spáð er í helstu viðskiptalöndum Íslands.  Á næsta ári er gert ráð fyrir að hann aukist til muna og verði 3,5% og 3,9% árið 2015.

Minni verðbólga

Verðbólgan er nú einungis þriðjungur af því sem hún var eftir hrun. Hún var 5,2%  á síðasta ári en spáð er 3,8% verðbólgu á þessu ári.  Gert er ráð fyrir að hún lækki nokkuð á næsta ári og verði um 2,8%  og  2,5% árið 2015. Verðbólgan hjaðnar því umtalsvert sem er mikið fagnaðarefni.

Minna atvinnuleysi

Atvinnuleysi á síðasta ári var 5,8% sem er helmingi minna en það var eftir hrun. Horfurnar eru jákvæðar en spáð er 4,8% atvinnuleysi á þessu ári en síðan 4,3% árið 2014 og 4,2% atvinnuleysi árið 2015. Atvinnuleysi fer því einnig minnkandi og er talsvert minna atvinnuleysi hér á landi en það sem helstu samanburðarlönd okkar glíma við. Starfandi fólki hélt áfram að fjölga en fjölgunin á síðasta ársfjórðungi er sú mesta frá því á sama fjórðungi árið 2007.

Jákvæðar vísbendingar

Skuldatryggingarálag á ríkissjóð hefur ekki verið jafn lágt frá miðju ári 2008. Bjartsýni heimila hefur verið að aukast. Heimild til úttektar á viðbótarlífeyrissparnað til næstu áramóta er jákvætt fyrir einkaneysluna. Fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar eykur fjárfestingu samkvæmt spá Seðlabankans nú.

Neikvæðar vísbendingar

Spárnar um hagvöxt voru jákvæðari í nóvember síðastliðnum. Þá gerði Seðlabankinn ráð fyrir 2,9% hagvexti á þessu ári en spáir nú 2,1% hagvexti.  Mörg viðskiptalönd glíma við mikinn skuldavanda og aðra efnahagslega erfiðleika eins og fram hefur komið. Sömuleiðis er þess ekki að vænta að verð sjávarafurða hækki á næstunni á erlendum mörkuðum. Loks gætir þrýstings á gengi krónunnar af ýmsum ástæðum sem kunna að vera tímabundnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum