Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2013

Verk ríkisstjórnarinnar - uppbygging og umbætur V

Ísland
Ísland
21. Stuðningur við skapandi greinar:

Framlög til verkefnissjóða skapandi greina hafa verið stóraukin. Þannig hafa t.d. fjárframlög til Kvikmyndasjóðs hækkað í ríflega einn milljarð króna árið 2013. Bróðurhluti hins aukna framlags er vegna fjárfestingaráætlunar ríkisstjórnarinnar þar sem gert er ráð fyrir 470 milljóna króna aukaframlagi til Kvikmyndasjóðs árlega næstu þrjú árin (2013 – 2015). Nýjir sjóðir á sviði myndlistar og hönnunar hafa verið stofnaðir.

Heimilt er að endurgreiða úr ríkissjóði 20% af framleiðslukostnaði kvikmynda eða sjónvarpsefnis hér á landi að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Þetta hefur borið ríkulegan ávöxt. Samanlagðar endurgreiðslur frá árinu 2010 nema 923 milljónum króna en áætlað er að á þessu ári nemi endurgreiðslurnar 850 milljónum króna.

Allt er þetta í anda þeirrar stefnu ríkisstjórnarinnar að efla fjölbreytni í atvinnulífi, nýsköpun og sjálfbæra nýtingu til lands og sjávar.

Áherslurnar birtast einnig í því að listamannalaunum hefu verið fjölgað úr 1.200 mánaðarlaunum í 1.600 eða um þriðjung. Bætt hefur verið við þremur launasjóðum, launasjóði hönnuða, launasjóði sviðslistafólks og launasjóði tónlistarflytjenda.
Rannsókn sem gerð hefur verið á hagrænum áhrifum skapandi greina hefur m.a. leitt í ljós að skapandi greinar veltu nærri 190 milljöðrum króna árið 2009 eða u.þ.b. jafn miklu og stóriðjan gerði á sama tíma.

22.  Sóknaráætlanir landshluta: Sóknaráætlanir landshluta er sameiginlegt þróunarverkefni ráðuneyta og sveitarfélaga. Það felst m.a. í því að ráðuneytin koma sameiginlega fram (stýrinet)  gagnvart átta landshlutum. Á móti forgangsraða fulltrúar landshlutanna verkefnum sem stuðla að byggða- og samfélagsþróun. Tilgangurinn er að ná fram betri nýtingu fjármuna og færa ákvarðanatöku nær heimamönnum sem þekkja best til aðstæðna. Ítarlegar áætlanir ásamt fylgigögnum hafa nú borist samstarfsvettvangi ráðuneytanna (stýrinetinu).
Árið 2013 er reynsluár þar sem hverjum landshluta er falið að ákveða, á grundvelli sóknaráætlana, hvernig 400 milljónum króna verður varið.  Mikið er í húfi; nú renna hátt í 6 milljarðar króna milli ríkis og landshluta (sveitarfélaga) samkvæmt rúmlega 190 samningum. Að mestu er um að ræða fé í formi styrkja og samninga um einstök verkefni.

Ríkisstjórnin tók upp þá nýbreytni á kjörtímabilinu að halda ríkisstjórnarfundi á landsbyggðinni. Hún hefur komið saman og átt fundi með sveitarstjórnarmönnum og forsvarsmönnum atvinnuþróunarmála á Akureyri, Ísafirði, Egilsstöðum, Reykjanesbæ og á Selfossi. Þetta hefur mælst vel fyrir og orðið til þess að efla tengsl stjórnsýslustiganna tveggja, m.a. um gerð þróun sóknaráætlana landshlutanna.

23. Jarðgöng: Samningur við verktaka um gerð Vaðlaheiðarganga hefur verið undirritaður. Verklok eru áætluð 2016.  Göngin verða 7,5 kílómetra löng  með vegskálum og heildarkostnaður er áætlaður liðlega 11 milljarðar króna. Gangagerð hefst í vor Eyjafjarðarmegin en sprengingar Fnjóskadalsmegin hefjast á næsta ári. Með gerð Vaðlaheiðarganga styttist hringvegurinn um 16 kílómetra og jafnframt verður Eyjafjörður og Þingeyjasýslur að einu atvinnusvæði með tilkomu þeirra.

Forval meðal verktaka hefur farið fram vegna gerðar Norðfjarðarganga og verður verkið senn boðið út. Göngin verða rúmlega 7,5 kílómetrar að lengd. Þá er gert ráð fyrir gerð tveggja nýrra brúa og vegarkafla að göngunum bæði Eskifjarðar- og Norðfjarðarmegin. Verklok eru áætluð 2016 til 2017 og áætlað að 10,5 milljarðar króna renni til verksins næstu 3 til 4 árin.  
Gerð Norðfjarðarganga var flýtt m.a vegna tekna ríkissjóðs af sérstöku veiðigjaldi sem lögfest var árið 2012, en sérstaka veiðigjaldið er önnur af tveimur undirstöðum fjárfestingaráætlunar ríkisstjórnarinnar.  Með sama hætti er ráðgert að flýta gerð Dýrafjarðarganga á Vestfjörðum.

„Á milli fyrstu og annarrar umræðu fjárlaga kynnti ríkisstjórnin hins vegar áætlun um aukna fjárfestingu sem sett var á fjárlög. Er tekið tillit til hennar nú. Vöxtur opinberrar fjárfestingar verður því nokkru meiri í ár en spáð var í síðustu Peningamálum.“ 
(Peningamál – Seðlabanki Íslands febrúar 2013)

24. Uppbygging ferðaþjónustunnar: Fyrsta úthlutun af þremur á árinu úr framkvæmdasjóði ferðamála fór fram fyrir skemmstu. Alls fengu 44 verkefni vítt og breitt um landið samtals um 150 milljónir króna en yfir 500 milljónir eru til ráðstöfunar í ár á grundvelli fjárfestingaáætlunar ríkisstjórnarinnar. Þar til viðbótar renna svo stórauknir fjármunir til uppbyggingar í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum gegnum umhverfis- og auðlindaráðuneytið eða 250 milljónir.

Ísland allt árið – átak til eflingar vetrarferðaþjónustu, er dæmi um vel heppnað markaðsátak.  Það er samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila sem stendu út árið 2013. Áætlaður heildarkostnaður er 1,8 milljarðar króna, þar af koma 900 milljónir úr ríkissjóði.
Ráðist var í markaðsátakið Inspired by Iceland þótti í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli ásamt tugum fyrirtækja og varið til þess 700 milljónum króna. Forystumenn í ferðaþjónustu eru þess fullvissir að markaðsátakið ásamt Ísland allt árið hafi stuðlað að mikilli aukningu erlendra ferðamanna til landsins, ekki síst utan álagstímans yfir sumarmánuðina.

25. Samráðsvettvangur um aukna hagsæld: Settur hefur verið á fót þverpólitískur og þverfaglegur samráðsvettvangur um aukna hagsæld á Íslandi. Á vettvangnum sitja formenn allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi, helstu hagsmunasamtök launþega og atvinnurekenda, fulltrúar háskólasamfélagsins, sveitarfélaga og stjórnendur fyrirtækja úr ýmsum atvinnugreinum.

Samráðsvettvanginn má rekja til óformlegra viðræðna m.a. á grundvelli skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið McKinsey & Co gaf út síðastliðið haust um möguleika Íslands til eflingar langtímahagvaxtar undir nafninu Charting a Growth Path for Iceland. Skýrslan hefur stuðlað að uppbyggilegri umræðu og hafa margir hagsmunaaðilar tekið undir mikilvægi þess að móta heildstæða hagvaxtarstefnu fyrir Ísland til að tryggja áframhaldandi mikil lífsgæði í landinu.
Í kjölfar viðræðna stjórnmálaleiðtoga og fjölmargra hagsmunaaðila hóf forsætisráðuneytið formlega uppsetningu á umræddum samráðsvettvangi. Fyrsti fundurinn var haldinn 11. febrúar 2013.

„Ég trúi því hinsvegar að þetta framtak marki hér ákveðin þáttaskil. Í ræðu minni á síðasta Viðskiptaþingi var óskað eftir betra samtali atvinnulífs og stjórnmála. Því vil ég nýta tækifærið nú og fagna þessu góða framtaki og fyrir hönd Viðskiptaráðs þakka forsætisráðuneytinu og formönnum stjórnmálaflokkanna fyrir að veita því brautargengi.[...] Ég trúi því að það verði okkur ábatasamt.“
(Úr ræðu Hreggviðs Jónssonar formanns Viðskiptaráðs Íslands á Viðskiptaþingi 2013.)

Fyrri greinar:
Verk ríkisstjórnarinnar - uppbygging og umbætur I
Verk ríkisstjórnarinnar - uppbygging og umbætur II
Verk ríkisstjórnarinnar - uppbygging og umbætur III
Verk ríkisstjórnarinnar - uppbygging og umbætur IV

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum