Hoppa yfir valmynd
18. mars 2021 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra á 65. fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra - mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti í dag ávarp á árlegum fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW65), sem stendur yfir dagana 15. til 26. mars. Fundurinn og viðburðir honum tengdir fara fram með rafrænum hætti.

Forsætisráðherra talaði um mikilvægi þess að konur taki þátt í stefnumótun, bæði í stjórnkerfinu og viðskiptalífinu, og þegar kemur að uppbyggingu hagkerfa heimsins eftir heimsfaraldur COVID-19. Þá talaði hún einnig fyrir mikilvægi pólitískrar stefnumótunar og lagasetningar þegar tekist er á við kerfisbundið misrétti, og nefndi sem dæmi fæðingarorlof beggja foreldra, gott leikskólakerfi og bann við kynbundnum launamun. Allt væru þetta málefni sem komust á dagskrá þegar konur fóru að taka þátt í stjórnmálum. 

Forsætisráðherra tekur þátt í fleiri viðburðum í tengslum við fund CSW65. Meðal annars átti hún fund með Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastýru UN Women og jafnréttisráðherrum annarra Norðurlanda fyrr í vikunni um mikilvægi þess að ungt fólk taki þátt í stefnumótun í jafnréttismálum.

Þemu 65. fundar kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna eru full þátttaka og ákvarðanataka kvenna á opinberum vettvangi, valdefling kvenna og stúlkna um heim allan og útrýming kynbundins ofbeldis. Einnig verður fjallað um hvernig baráttan fyrir jafnrétti kynjanna tengist almennri velferð og sjálfbærri þróun ríkja.

Margvísleg tækifæri fylgja rafrænni þátttöku og hefur sendinefnd Íslands á fundinum aldrei verið fjölmennari en hana skipa 65 manns. Þá er aukin áhersla lögð á svæðisbundna viðburði. Íslensk stjórnvöld standa fyrir tveimur hliðarviðburðum dagana 25. og 26. mars. Fyrri viðburðinn opnar forsætisráðherra og síðan tekur við rafrænt pallborð þar sem þátttakendur ræða um áhrif  Covid-19 á kynjajafnrétti og áherslur stjórnvalda á Íslandi í því samhengi. Síðari hliðarviðburðurinn verður líka í formi pallborðs þar sem meðal annars verður farið yfir mikilvægi kvennanefndafundarins og Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir Ísland.

Ávarp forsætisráðherra á 65. fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna

Heimasíða fundar kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum