Hoppa yfir valmynd
15. júní 2010 Innviðaráðuneytið

Fyrsti fundur nýs sveitarfélags við Eyjafjörð á föstudag

Fyrsti fundur nýrrar sveitarstjórnar hins sameinaða Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar verður föstudaginn 18. júní og hefur Kristjáni L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, verið boðið að sitja fundinn.

Sveitarfélagið varð formlega til laugardaginn 12. júní síðastliðinn en kosið var um sameiningu sveitarfélaganna 20. mars. Var hún samþykkt með 57% greiddra atkvæða í Arnarneshreppi en 92% í Hörgárbyggð. Sameinað sveitarfélag Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar er 894 ferkílómetrar að stærð. Þar bjuggu alls 606 manns þann 1. desember 2009. Í því eru tvö þéttbýli, Hjalteyri með 44 íbúa og Lónsbakki með 92 íbúa.

Á vef Hörgárbyggðar segir meðal annars um gömlu sveitarfélögin:

Arnarneshreppur varð til árið 1824, en náði þá yfir nokkru stærra svæði en seinna varð. Það heiti leysti af hólmi sveitarfélagsheitið Hvammshreppur, sem náði nokkurn veginn yfir það svæði sem Arnarneshreppur náði yfir síðustu áratugina.

Hörgárbyggð varð til 1. janúar 2001 með sameiningu Glæsibæjarhrepps, Skriðuhrepps og Öxnadalshrepps.

Um leið og kosið var til sveitarstjórnar var viðhorf kjósenda kannað til fimm möguleika á nafni á hið nýja sveitarfélag. Sveitarstjórnin nýja ákveður síðan hið nýja nafn og í framhaldi af því þarf að leita staðfestingar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Niðurstöður könnunarinnar voru þessar:

Hörgárbyggð fékk 185 atkvæði.

Hörgársveit fékk 87 atkvæði.

Möðruvallasveit fékk 35 atkvæði.

Hörgárhreppur fékk 9 atkvæði.

Möðruvallahreppur fékk 5 atkvæði.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum