Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2000 Heilbrigðisráðuneytið

15. - 21. apríl

Fréttapistill vikunnar
15. - 21. apríl


Möguleikar á jöfnun lyfjakostnaðar kannaðir:
Í tengslum við gerð kjarasamninga Verkamannasambandsins, iðnverkafólks og Samtaka atvinnulífsins hefur ríkisstjórnin gefið út yfirlýsingu þess efnis, að kannaðir verði möguleikar á að jafna lyfjakostnað í landinu milli staða þannig að verð verði almennt svipað því sem gerist þar sem samkeppni ríkir í lyfsölu. Þá felst í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að komið verði á fót starfshópi með fulltrúum VMSÍ sem gera á tillögur um það hvernig komið verði betur á móts við tekjulága sem bera umtalsverðan kostnað vegna lyfjakaupa.

Sjúkraflug boðið út:
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að sjúkraflug verði boðið út og hefur hún falið Ríkiskaupum að sjá um útboðið. Ákvörðunin er tekin í samráði við samgönguráðuneytið, en sjúkraflugið verður boðið út í tengslum við áætlunarflug til afskekktari byggða. Miðstöð sjúkraflugsins verður á Akureyri. Þessi ákvörðun ráðherra byggist á niðurstöðum úr umfangsmikilli skýrslu sem unnin var fyrir heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytið um þá kosti sem voru taldir vera í sjúkraflugi. Titill skýrslunnar er: Úttekt á sjúkraflugi á Íslandi.

Ný heilsugæslustöð byggð í Grafarvogi:
Heilsugæslan í Reykjavík og fyrirtækið Þyrping hafa undirritað samning um byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar í Spönginni í Grafarvogi. Á að taka nýju stöðina í notkun vorið 2001. Þyrping sér um framkvæmdir en Heilsugæslan í Reykjavík leigir húsnæðið til 25 ára. Er hér um að ræða einkaframkvæmd. Nýja stöðin verður um 1500 fermetrar að stærð og er búist við að heilsugæslulæknum í Grafarvogi fjölgi um tvo til þrjá þegar flutt verður í nýja húsnæðið. Nú eru starfandi fimm læknar á heilsugæslustöðinni í Grafarvogi. Í hverfinu búa rétt innan við 17 þúsund manns og hátt hlutfall barna undir fimm ára býr í Grafarvogi. Guðmundur Einarsson, forstjóri Heilsugæslunnar í Reykjavík, og Sigurður Gísli Pálmason, Þyrpingu, undirrituðu samninginn um heilsugæslustöðina í Spönginni.

Lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði í samræmi við samkeppnisreglur EES:
Lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði eru í samræmi við samkeppnisreglur Samningsins um evrópska efnahagssvæðið. Þetta er niðurstaða Samkeppnis- og ríkisaðstoðardeildar Eftirlitsstofnunar EFTA, en samtökin Mannvernd vísuðu málinu til Eftirlitsstofnunar EFTA. Í áliti Samkeppnis- og ríkisaðstoðardeildar Eftirlitsstofnunar EFTA segir meðal annars: "...að áliti Samkeppnis- og ríkisaðstoðardeildar er ástæðulaust að aðhafast frekar í þessu máli á grundvelli samkeppnisreglna EES samningsins."
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
21. apríl 2000

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum