Hoppa yfir valmynd
12. maí 2000 Heilbrigðisráðuneytið

6. - 12. maí

Fréttapistill vikunnar
06. maí – 12. maí

Samræmdar aðgerðir við hættu á útbreiðslu smitnæmra sjúkdóma sem ógnað geta heilsu fólks tryggðar með breytingu á sóttvarnalögum.
Lög um breytingu á sóttvarnalögum hafa verið samþykkt á Alþingi. Tilgangur breytinganna var einkum að bregðast við tillögum nefndar um framkvæmd mála vegna útbreiðslu campylobacter. Lögin kveða á um að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipi sérstaka samstarfsnefnd, þegar þörf skapast, til að afla gagna og hafa yfirumsjón með aðgerðum til að meta og uppræta smithættu. Þar er einnig heimild til að setja reglugerð um að þeir sem koma til landsins sæti læknisrannsókn, berist um það tilmæli frá sóttvarnalækni. Ennfremur eru ákvæði um kostnað við framkvæmd sóttvarnarlaga og greiðsluhlutdeild sjúklinga gerð skýrari. Lögin öðlast gildi 1. september 2000 og nema úr gildi lög nr. 38/1978 um ónæmisaðgerðir.
Tenging við lagafrumvarpið á vef Alþingis >

Bætt staða langveikra barna og foreldra þeirra.
Staða langveikra barna og foreldra þeirra verður bætt, með gildistöku laga um breytingar á lögum um almannatryggingar sem samþykkt hefur verið á Alþingi. Breytingin felst í því að Tryggingastofnun ríkisins verður heimilað að greiða hluta af óhjákvæmilegum dvalarkostnaði annars foreldris vegna sjúkrahúsinnlagnar barns fjarri heimili sem er yngra en 18 ára. Ef um er að ræða erfiða sjúkdómsmeðferð vegna lífshættulegs sjúkdóms er heimilt að slík greiðsla nái til beggja foreldra barns að 18 ára aldri. Með þessu er komið til móts við foreldra veikra og langveikra barna um greiðslu dvalarkostnaðar hér innan lands fjarri heimili þegar barn þarf að leggjast inn á sjúkrahús.
Tenging við frumvarpið á vef Alþingis >

Einnig hafa verið gerðar þær breytingar á reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna að almenn aldursviðmið umönnunargreiðslna hafa verið hækkuð úr 16 í 18 ár og heimilaðar umönnunargreiðslur að 20 ára aldri vegna barna með lífshættulega sjúkdóma eða alvarlega fjölfötlun. Þá er heimilt er að greiða umönnunarbætur í allt að 6 mánuði eftir andlát langveiks barns.

Verkáætlun um uppbyggingu heilbrigðisnets á Íslandi.
Heilbrigðis og tryggingamálaráðuneytið hefur í samvinnu við ICEPRO tekið saman verkáætlun um uppbyggingu heilbrigðisnets á Íslandi. Í áætluninni er lýst umfangi heilbrigðisnetsins, hverjir eiga aðild að því, notkunarsviðum þess, fjarskiptum og fjarlækningum og samskiptum almennings við starfsmenn og stofnanir heilbrigðisþjónustunnar.

Íslendingar eru of feitir og offita er vaxandi vandamál hjá þjóðinni, samkvæmt nýrri úttekt á holdafari barna og fullorðinna hér á landi.
Offita er orðin eitt af megin heilbrigðisvandamálum vestrænna þjóða og er vaxandi vandamál bæði hérlendis og erlendis. Rannsóknir sem gerðar hafa verið hér á landi sýna að offita færist í vöxt bæði meðal barna og fullorðinna. Nauðsynlegt er að taka á þessu vandamáli þar sem offita er áhættuþáttur ýmissa alvarlegra sjúkdóma og getur leitt til félagslegra vandamála. Líkamsþyngd er sérstakt þema maímánaðar hjá landlæknisembættinu sem hvetur fólk til að njóta hreyfingar, góðs matar og félagsskapar til að létta líf og lund.
Sjá nánari umfjöllun á vef landlæknisembættisins >

Velunnari gefur Sjónstöð Íslands fullkomin augnskoðunartæki fyrir 2 m.kr.
Mótordrifinn skoðunarstóll, sjálfvirkur sjónlagsmælir, sjálfvirkur gleraugnamælir, leslampi, og snúningsborð fyrir þessi tæki hefur bæst við tækjakost Sjónstöðvar Íslands. Það var níræð kona í Gnúpverjahreppi, Sigríður Jóhannsdóttir í Víðihlíð sem færði stöðinni tækin að gjöf. Nýju tækin eru nákvæm og hraðvirk og henta sérlega vel við sjónlagsmælingar á öldruðum. Þess má jafnframt geta að fyrir tveimur árum gaf Sigríður Sjónstöðinni augnskoðunartæki sem hafa nýst vel við skoðanir sjónskertra barna og verið notuð á Sjónstöðinni, augndeild Landspítalans og víðar. Sigríður er fyrrverandi skólastjóri og hefur verið sjónskert alla tíð.

Árs- og stofnfundur Landspítala - háskólasjúkrahúss verður haldinn þriðjudaginn 16. maí.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Landspítali – háskólasjúkrahús standa sameiginlega að fundinum. Ávörp flytja Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðisráðherra, Guðný Sverrisdóttir formaður stjórnarnefndar spítalans, Magnús Pétursson forstjóri Landspítala og Einar Oddsson formaður sameiginlegs starfsmannaráðs spítalans. Fundurinn verður haldinn í Borgarleikhúsinu og hefst kl. 16:00.
Sjá nánar á vef sjúkrahússins >

Kostnaður samfélagsins vegna slysa á börnum er talinn nema 200 – 275 milljónum króna á ári.
Árlega slasast um 30 – 35 þúsund börn á landinu öllu og íslensk börn slasast að jafnaði einu sinni á ári. Þetta kemur fram í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir slysavarnaráð. Af þeim börnum sem komu til slysadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur á árunum 1991 – 1996 voru um 88% þeirra lítið slösuð, 11% nokkuð slösuð, 0,8% alvarlega slösuð og 1,3% mjög alvarlega eða lífshættulega slösuð. Algengust eru slys í heimahúsum en eftir því sem börnin eldast fjölgar íþrótta og umferðarslysum.
Hægt er að lesa skýrsluna á vef landlæknisembættisins >


Norrænt efni

Svíar skera upp herör gegn mikilli notkun fúkkalyfja.
Sænsk heilbrigðisyfirvöld ætla að hefja aðgerðir til þess að draga úr notkun fúkkalyfja. Með vaxandi notkun fúkkalyfja hefur fjölgað bakteríutegundum sem eru ónæmar fyrir þeim og það torveldar meðferð við bakteríusjúkdómum. Til að takast á við vandann telja heilbrigðisyfirvöld m.a. nauðsynlegt að herða eftirlit með notkun fúkkalyfja, bæta sjúkdómsgreiningar, efla sóttvarnir og auka fræðslu. Um þetta og margt fleira má lesa í tímaritinu Social- och hälsovårdsnytt i Norden



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
12. maí 2000

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum