Hoppa yfir valmynd
26. maí 2000 Heilbrigðisráðuneytið

20. - 26. maí

Fréttapistill vikunnar
20. – 26. maí.

53. þing Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) haldið í Genf í Sviss:
Fulltrúar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og landlæknisembættisins sátu 53. þing WHO sem haldið var í Genf dagana 15. – 20. maí. Í fréttapistli vikunnar er sagt frá nokkrum þeirra málefna sem fjallað var um á þinginu og ályktunum sem samþykktar voru.
sjá nánar um WHO-þingið >

Fulltrúar 28 þjóðlanda sitja ráðstefnu hjúkrunarrannsakenda sem haldin er í Reykjavík:
480 fulltrúar frá 28 þjóðlöndum sitja ráðstefnu WENR (vinnuhóps hjúkrunarrannsakenda í Evrópu) sem hófst í Háskólabíói í gær, fimmtudaginn 25. maí. Á ráðstefnunni eru kynntar niðurstöður rannsókna á sviði hjúkrunar. Þetta er í tíunda sinn sem WENR stendur fyrir ráðstefnu af þessu tagi, en þær eru haldnar annað hvert ár og í þetta sinn var umsjón ráðstefnunnar í höndum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Ráðstefnunni lýkur á morgun og mun Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra ávarpa ráðstefnugesti við slit hennar.

Dönskum eftirlaunaþegum tryggður eftirlaunaréttur í öllum löndum evrópska efnahagssvæðisins:
Danska þjóðþingið hefur samþykkt lög sem fela í sér að danskir eftirlaunaþegar búsettir í Danmörku geta nú sest að annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu án þess að missa réttinn til eftirlauna. Skilyrði hefur verið í dönskum eftirlaunareglum um að menn séu heimilisfastir í Danmörku til að fá eftirlaun sín greidd. Framkvæmdastjórn ESB gerði athugasemd við þessi skilyrði og hafa þau nú verið numin úr gildi. Breytingin tekur gildi 1. júlí og hefur í för með sér að hagur þeirra íbúa Evrópska efnahagssvæðisins sem hér búa og eiga eftirlaunarétt í Danmörku vænkast.

Samanburður á heilbrigðisþjónustu innan ESB:
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur ákveðið að íbúar sambandsins skuli eiga þess kost að bera saman biðlista, lyfjaverð og meðferð í heilbrigðisþjónustunni í aðildarlöndunum. Framkvæmdastjórn ESB hyggst verja um 20 milljörðum króna til þess að efla samstarf landanna á þessu sviði næstu sex árin.

Málþing um matarfíkn, offitu og holla hreyfingu:
Landlæknisembættið hugar sérstaklega að líkamsþyngd landsmanna nú í maí, en offita er orðin eitt af megin heilbrigðisvandamálum vestrænna þjóða og er vaxandi vandamál bæði hérlendis og erlendis. Sunnudaginn 28. maí heldur Landlæknisembættið og Félagasamtök feitra málþing um offitu, orsakir og afleiðingar á Hótel Loftleiðum, kl. 13:00 – 15:00. Þess má jafnframt geta að laugardaginn 27. maí eru landsmenn hvattir til að stíga fyrstu skrefin í átt að heilbrigði og hreysti í Laugardalnum í Reykjavík, en þar verður efnt til heilsusamlegrar dagskrár sem ber heitið Skref 2000 og hefst kl. 13:00.
Nánar á vef landlæknisembættisins >



53. Alþjóðaheilbrigðisþingið 15. - 20. maí:

Aðgerðir til að stöðva útbreiðslu berkla: Eftir að hafa verið á undanhaldi í áratugi breiðast berklar aftur út með ógnvænlegum hætti í mörgum löndum. Tegundum berkla þar sem lyfjagjöf kemur ekki að gagni fer einnig fjölgandi. Rússland, Eistland og Litháen eru dæmi um lönd þar sem berklatilfellum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Samþykkt var ályktun um víðtækar aðgerðir til þess að stöðva útbreiðslu berkla sem aðallega felur í sér faglegan stuðning við þau lönd sem verst eru sett (WHA53.1).

Næring ungbarna og ungra barna: Vanæring barna undir fimm ára aldri er eitt stærsta heilbrigðisvandamálið í heiminum og er gert ráð fyrir að 1/3 barna á þessum aldri sé vannærður í dag. Samkvæmt upplýsingum úr gagnagrunni WHO varðandi brjóstagjöf, sem nær til 94 landa og 65% allra ungbarna í heiminum, fá aðeins 35% ungbarna eingöngu brjóstagjöf á aldrinum 0 - 4 mánaða. Talið var að þörf væri á að skjóta styrkari vísindalegri stoðum undir stefnu WHO á þessu sviði. Að tillögu Íslands og annarra Norðurlandaþjóða, Hollands og fleiri landa var samþykkt að vísa málinu til framkvæmdastjórnar og óskað eftir tillögu að ályktun fyrir næsta alþjóðaheilbrigðisþing.

Rammi WHO að sáttmála í tóbaksmálum: Um 4 milljónir jarðarbúa deyja árlega af völdum reykinga. Ef heldur fram sem horfir mun þessi tala verða komin upp í 10 milljónir árið 2030 og um 70% þeirra verða íbúar þróunarlandanna. Á alþjóðaheilbrigðisþinginu 1999 var ákveðið að koma á fót samstarfsvettvangi til þess að vinna drög að ramma um alþjóðlegan sáttmála í tóbaksmálum. Drög að slíkum sáttmála voru lögð fram á þinginu og ályktun um frekari framgang málsins (WHA53.16). Í haust, 12. - 13. október, verður haldið málþing um tóbaksmál á vegum WHO. Í því munu taka þátt fulltrúar félagsamtaka heilbrigðisstétta og heilbrigðisstofnana, frjálsra félagasamtaka, tóbaksbænda og verkamanna, auk tóbaksiðnaðarins.

HIV-veiran og alnæmi: Um 34 milljónir manna í heiminum í dag eru smitaðir af HIV-veirunni eða alnæmi og eru um 95% þeirra búsettir í þróunarríkjunum. Í mörgum löndum Afríku hefur sá árangur sem náðist á sl. 50 árum í heilbrigðismálum víða orðið að engu. Þetta sést e.t.v. best á því að barnadauði fer vaxandi og meðalaldur íbúa er sums staðar jafnvel lægri en hann var um miðja síðustu öld. Samkvæmt upplýsingum WHO hafa fram til þessa alls látist um 16.3 milljónir manna úr HIV/AIDS í öllum heiminum. Samþykkt var ályktun um margþættar aðgerðir og samstarf fjölmargra aðila til þess að draga úr þessari alvarlegu heilsuvá (WHA53.14).

Kröfur um öryggi í framleiðslu og dreifingu matvæla: Sjúkdómar sem rekja má ákveðinna örvera, lífrænna eiturefna og mengunarefna í fæðu eru stór heilbrigðishætta fyrir milljónir jarðarbúa í dag. Það er því mikilvægt að tryggja hollustu fæðunnar og gera kröfur um öryggi í framleiðslu og dreifingu matvæla. Samþykkt var ályktun þess efnis á þinginu (WHA53.15).

Alheimsbandalag um bóluefni og ónæmisaðgerðir: Um 6.8 milljónir barna undir 5 ára aldri deyja árlega úr smitsjúkdómum. Þar af er talið að 2 milljónir barna deyji á ári hverju úr sjúkdómum sem unnt hefði verið að fyrirbyggja með ónæmisaðgerðum. Alheimsbandalagið um bóluefni og ónæmisaðgerðir (GAVI), sem er samstarfsvettvangur fjölmargra aðila, vinnur að því að bæta aðgengi að bóluefni og efla ónæmisaðgerðir. Alþjóðaheilbrigðisþingið samþykkti ályktun þar sem m.a. er lýst yfir stuðningi við starfsemi GAVI og skorað á þjóðarleiðtoga að efla ónæmisaðgerðir í löndum sínum (WHA53.12).

Einræktun og heilsa: Nú á dögum sjáum við upphaf byltingar í erfðavísindum sem á sér enga hliðstæðu í mannkynssögunni. Þessi bylting mun sennilega hafa gífurleg áhrif á þekkingu okkar á læknisfræði og heilsu fólks og skapa um leið ný tækifæri til forvarna, sjúkdómsgreiningar og meðferðar. Mat á siðrænum og félagslegum þáttum í tengslum við þróun í líftækni og efðafræði og áhrif þeirra á heilsufar fólks hafa verið til umfjöllunnar hjá WHO. Umræður um þessi mál munu halda áfram á næsta aþjóðaheilbrigðisþingi.

Heilsuefling: Skýrsla um heilsueflingu var lögð fram til umræðu á þinginu og er í henni lögð áhersla á að aðildarlöndin líti á heilsueflingu í ríkara mæli sem hluta af því að framfylgja heildarstefnumörkun sinni í heilbrigðismálum. Til þess að auka heilsueflingu þarf nauðsynlega að tryggja víðtækt samstarf fjölmargra aðila. Fimmta alþjóðlega ráðstefnan um heilsueflingu á vegum WHO verður haldin í Mexíkóborg í júní á þessu ári.

Endurskoðuð lyfjastefna: Svonefnd endurskoðuð lyfjastefna WHO er árlegt umræðuefni á alþjóðaheilbrigðisþinginu en hún felur í sér skipulegar aðgerðir til þess að auðvelda öllum ríkjum aðgengi að nauðsynlegum lyfjum. Á vegum WHO hefur verið gerður listi yfir slík lyf sem endurskoðaður er reglulega. Að þessu sinni snérust umræðurnar einkum um gæði, öryggi og framboð lyfja. Þátttakendur bentu á þörf fyrir upplýsingar um verð á nauðsynlegum lyfjum, stuðning við fjármögnun kaupa á þessum lyfjum og vaxandi hættu á sölu lyfja um internetið án eftirlits.

Útrýming lömunarveiki: WHO hefur sett sér það markmið að búið verði að útrýma lömunarveiki í heiminum árið 2005 og á þinginu var lögð áhersla á að þörf væri á að hraða aðgerðum á þessu sviði. Enn væri lömunarveiki að finna í 30 löndum og mikla vinnu þyrfti svo takast mætti að uppræta hana á næstu árum. Talið er að útrýming lömunarveikinnar myndi hafa í för með sér árlegan sparnað sem gæti numið allt að 1.5 billjón dollara.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
26. maí 2000

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum