Hoppa yfir valmynd
9. júní 2000 Heilbrigðisráðuneytið

3. - 9. júní

Fréttapistill vikunnar
3.- 9. júní

Sjö umsóknir um stöðu framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar á Siglufirði: Sjö sóttu um stöðu framkvæmdastjóra heilbrigðisstofnunarinnar á Siglufirði, en umsóknarfrestur rann út 26. maí sl. Umsækjendur voru þessir: Jónas Baldursson, Ólafur Als, Sigurður H. Engilbertsson, Sigurður Fanndal, Skarphéðinn Guðmundsson, Þorsteinn Baldur Bjarnason og Þórarinn Gunnarsson. Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu var sérstakri nefnd falið að meta hæfni umsækjenda og hefur hún komið saman. Þá hefur ráðuneytið óskað umsagnar stjórnar heilbrigðisstofnunarinnar á Siglufirði um umsækjendur og verður ákvörðun tekin að henni fenginni.

Þjónustusamningur um endurhæfingu á Landspítala - háskólasjúkrahúsi: Undirritaður hefur verið þjónustusamningur um endurhæfingu á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Samningurinn er innanhússsamningur til tveggja ára milli framkvæmdastjórnar og rekstrarstjórnar endurhæfingarþjónustunnar. Með samningnum eru stigin ný skref í átt að breyttri fjármögnun endurhæfingarstarfsemi sjúkrahússins. Settur er rammi utan um núverandi rekstur en jafnframt gert ráð fyrir aukinni starfsemi. Rekstrarlegt sjálfstæði verður meira en áður hefur þekkst. Stjórnunarleg samskipti við framkvæmdastjórn verða þó óbreytt og með sama hætti og hjá öðrum sviðum sjúkrahússins.
Sjá nánar á heimasíðu sjúkrahússins>

Innkaup allra heilbrigðisstofnana landsins verða samræmd: Ákveðið hefur verið að samræma innkaup allra heilbrigðisstofnana landsins á næstunni. Heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytið og Landspítali - háskólasjúkrahús annars vegar og Ríkiskaup hins vegar hafa þegar undirritað samkomulag þessa efnis. Markmiðið er að skipuleggja betur innkaup og innkaupaferli allra heilbrigðisstofnana landsins, koma á rafrænu innkaupakerfi og vinna saman að útboðs- og innkaupamálum. Rafrænn innkaupavefur hefur verið í þróun undanfarna mánuði og er gert ráð fyrir að hann verði tilbúinn til notkunar í lok nóvember.
Sjá fréttatilkynningu >

Upplýsingabæklingur um varnir gegn matarsýkingum og matareitrun inn á hvert heimili: Tilvik kampýlóbaktersýkinga í mönnum fyrstu fimm mánuði þessa árs eru færri miðað við árið í fyrra, samkvæmt upplýsingum sem landlæknisembættið hefur tekið saman. Sóttvarnarlæknir varar hins vegar við því að yfir sumarmánuðina fjölgar bakteríunni í umhverfinu og hætta á sýkingum eykst. Því er minnt á vandaða meðferð kjötmetis, einkum fuglakjöts sem nauðsynlegt er að steikja eða sjóða á fullnægjandi hátt. Á næstu dögum verður dreift til landsmanna bæklingnum; Varnir gegn matarsýkingum og matareitrunum – gerðu þér mat úr þeim og beinir Sóttvarnarlæknir því til fólks að kynna sér vel efni hans.
Nánar á vef landlæknisembættisins>

Kvennadeild Landspítalans - þjónusta við fæðandi konur hefur orðið markvissari og valkostum fjölgað undanfarin átta ár: Miklar breytingar hafa orðið á þjónustu Kvennadeildar Landspítalans á liðnum árum, einkum frá því að s.k. stefnusýn deildarinnar var samþykkt árið 1996. Markvisst hefur verið unnið að því að gera þjónustu við konur samfelldari, fjölga valkostum og bæta þjónustuna við konurnar og fjölskyldur þeirra. Þetta kemur fram í samantekt Guðrúnar Bjargar Sigurbjörnsdóttur, yfirljósmóður og sviðsstjóra Kvennadeildar Landspítalans fyrir heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis. Í samantektinni er gerð grein fyrir helstu breytingum sem orðið hafa og sagt frá ýmsum nýjungum sem nú eru í undirbúningi.
Skoða samantekt >

Tilraunaverkefni Akureyrarbæjar um nýjan þátt í þjónustu við aldraða: Akureyringum sem eru 75 ára og eldri stendur nú til boða nýr þáttur í þjónustu við aldraða samkvæmt tilraunaverkefni sem verið er að hrinda í framkvæmd. Fólki á þessum aldri sem býr í eigin húsnæði og nýtur ekki heimahjúkrunar verður boðin persónuleg ráðgjöf og þjónusta á vegum öldrunarþjónustu bæjarins þar sem leitast verður við að veita þeim upplýsingar um rétt sinn varðandi heilsugæslu, heimaþjónustu, tryggingar og ellilífeyri, ýmsa félagslega þætti, tómstundaiðju og fleira. Einnig verður lögð áhersla á að meta heilsufar og greina áhættuþætti og veita ráðleggingar um fyrirbyggjandi aðgerðir, t.d. um skipulag húsnæðis, mataræði eða hreyfingu. Markmiðið er að viðhalda heilbrigði fólks sem lengst og gera því unnt að búa lengur á eigin heimili en ella. Til að sinna þessu starfi hafa verið ráðnir tveir starfsmenn; hjúkrunarfræðingur og iðjuþjálfi sem munu heimsækja aldraða sem vilja nýta sér þessa þjónustu. Þjónusta af þessum toga er þekkt í nágrannalöndunum og hefur t.d. verið lögleidd í Danmörku. Tilraunaverkefni Akureyrarbæjar er styrkt af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og er áætlaður reynslutími eitt og hálft ár.

Fjórtánda þing Félags íslenskra lyflækna á Egilsstöðum: Félaga íslenskra lyflækna þingar á Egilsstöðum 9. – 11. júní. Á þinginu verða kynntar niðurstöður vísindarannsókna á flestum sviðum lyflæknisfræða. Einnig verður haldið málþing um notkun rafrænnar sjúkraskrár í heilbrigðiskerfinu, en þess má geta að rafræn skráning gagna hófst fyrst á Egilsstöðum á áttunda áratugnum í svokallaðri Egilsstaðarannsókn. Stjórnandi málþingsins verður Sigurður Árnason, læknir, en meðal þátttakenda verða Stefán Þórarinsson, heilsugæslulæknir á Egilsstöðum og sérfræðingar frá Íslenskri erfðagreiningu.

Stefnt að auknu samstarfi svæðafélaga Krabbameinsfélagsins: Samþykkt var á aðalfundi Krabbameinsfélags Íslands, sem haldinn var nýlega, að fela nýrri stjórn félagsins að ráðast í aðgerðir til að auka samstarf svæðafélaga og styrkja yfirstjórn félagsins. Krabbameinsfélagið verður 50 ára á næsta ári og er nú í undirbúningi þjóðarátak það ár til að efla starf félagsins í þágu landsmanna. Í nýrri stjórn Krabbameinsfélagsins sitja: Sigurður Björnsson formaður, Jóhannes Tómasson varaformaður, Þórður S. Óskarsson gjaldkeri og Guðrún Jónsdóttir ritari.

Öldrunarmál í brennidepli - Norðurlandaráð styrkir samstarfshóp um RAI-mælingar á Norðurlöndum: Á áttunda hundrað manns sótti Norræna öldrunarfræðaþingið sem haldið var í Reykjavík 4. – 7. júní síðast liðinn. Segja má að allir þættir í þjónustu við aldraða hafi fengið rými á ráðstefnunni, jafnt félagsleg þjónusta og heilbrigðisþjónusta, en yfir fimmhundruð erindi voru flutt á ráðstefnunni. Svokallaður Nord-RAI-hópur kom saman í lok þingsins, en hópurinn fæst við þróun RAI-mælitækisins sem er alþjóðlegt mælitæki notað til að meta aðbúnað og hjúkrunarþörf aldraðra á stofnunum. Hópurinn fékk á þessu ári styrk frá Norðurlandaráði til áframhaldandi samstarfs a.m.k. næstu tvö ár og er það mikilvægur hlekkur í því að treysta framgang RAI-mælinga á Norðurlöndum.
Sjá nánar um RAI-mælingar á heimasíðu ráðuneytisins>


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
9. júní 2000


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum