Hoppa yfir valmynd
31. október 2001 Utanríkisráðuneytið

Fundur utanríkisráðherra Norðurlanda á þingi Norðurlandaráðs.

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 104


Utanríkisráðherrar Norðurlanda héldu fund í Kaupmannahöfn í dag í tengslum við 53. þing Norðurlandaráðs. Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra sat fundinn í fjarveru Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra.

Ráðherrarnir fordæmdu hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september sl. og ræddu viðbrögð alþjóðasamfélagsins við þeim. Þeir fögnuðu þeirri samstöðu þjóða sem skapast hefur í baráttunni gegn hverskyns hryðjuverkum.

Ráðherrarnir ræddu ennfremur stækkun Evrópusambandsins. Af hálfu Íslands var lögð sérstök áhersla á mikilvægi þess að Ísland og Noregur fengju greiðan aðgang að upplýsingum varðandi framgang samningaviðræðna við umsóknarríkin vegna þeirra áhrifa sem stækkun Evrópusambandsins mun hafa á EES.

Ráðherrarnir lýstu yfir sérstökum áhyggjum sínum af ástandinu í Mið-Austurlöndum og gáfu út sérstaka yfirlýsingu þar að lútandi. Ráðherrarnir fordæmdu áframhaldandi ofbeldi og ógn á svæðinu um leið og þeir lýstu andúð sinni á því að gerðir samningar væru ekki haldnir, sem styrkti aðeins þau öfl sem vinna gegn friðarumleitunum. Bæði stjórnvöld í Ísrael og Palestínumenn voru hvött til að virða vopnahléð og koma í veg fyrir frekari ofbeldi á svæðinu. Ráðherrarnir lýstu einnig sérstökum áhyggjum sínum af bæði hinni efnahagslegu og mannúðarlegu stöðu á sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna. Ennfremur hvetja ráðherrarnir báða aðila til að hefja strax, án allra skilyrða, samningaviðræður á grundvelli tilmæla Mitchell skýrslunnar frá 30. apríl 2001. Að lokum lýstu utanríkisráðherrar Norðurlandanna yfir stuðningi við stofnun lýðræðislegs ríkis Palestínumanna, sem væri besta tryggingin fyrir öryggi Ísraels, um leið og þeir staðfesta vilja sinn til að beita sér fyrir slíkri lausn á ágreiningsmálum fyrir botni Miðjarðarhafsins.

Yfirlýsingin fylgir hjálagt.






Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 31. október 2001.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum