Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 400/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 400/2019

Miðvikudaginn 22. janúar 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 24. september 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. júlí 2019 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2018.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur þegið ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjuársins 2018, dags. 22. maí 2019, var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 634.098 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með beiðni, dags. 5. júní 2019, fór kærandi fram á dreifingu fjármagnstekna sem til féllu á árinu 2018. Beiðnin var samþykkt og í kjölfarið var framkvæmdur nýr endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2018, dags. 4. júlí 2019, og var niðurstaðan sú kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 91.412 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfi, dags. 16. júlí 2019, var óskað eftir frekari skýringum á dreifingu fjármagnstekna og voru skýringar veittar með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. júlí 2019.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. september 2019. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 31. október 2019, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 5. nóvember 2019 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. nóvember 2019. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfur um að við útreikning greiðslna frá Tryggingastofnun verði tekið tillit til 22% fjármagnstekjuskatts sem greiddur er af fjármagnstekjum.

Í kæru segir að kærður sé úrskurður um dreifingu fjármagnstekna. Endanleg skýring á því hvernig fjármagnstekjum maka kæranda hafi verið skipt á árin 201[8] til 202[7] hafi borist með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 29. ágúst 2019. Þeim sé ætlað að lækka lífeyri kæranda frá Tryggingastofnun á fyrrgreindu tímabili. Þá sé vakin athygli á því að maki kæranda sé ekki lífeyrisþegi frá Tryggingastofnun.

Kæran sé einföld. Allar fjármagnstekjur fyrir skatt séu reiknaðar til frádráttar en þau 22% sem hafi dregist af þessum tekjum við skattlagningu hafi aldrei nýst þeim hjónum. Það sé því órökrétt að nýta til frádráttar upphæð sem aldrei hafi nýst þeim eða komi til með að nýtast þeim hjónum.

Umræddar fjármagnstekjur hafi verið uppsafnaðir vextir og verðbætur á ríkiskuldabréfi 2009 til 2018, alls 3.518.579 kr. Af þessari upphæð hafi verið tekinn 22% skattur, eða 774.087 kr. Mismunurinn, sem þau hafi fengið og sem sé að mati kæranda aðeins réttlætanlegt að nýta til reikninga í bótafrádrætti, sé 2.744.492 kr., eða 274.449 kr. dreift á hvert tíunda ár 201[8]-202[7]. Helmingur reiknist á kæranda.

Farið sé fram á að þessi útreikningur verði samþykktur, enda sé að mati kæranda réttara að byggja á raunverulegum tölum.

Í athugasemdum kæranda frá 5. nóvember 2019 segir að kjarni málsins sé umfjöllun kæranda um 22% skatt sem dreginn hafi verið af umræddum fjármagnstekjum. Í greinargerð Tryggingastofnunar hafi engum rökum verið beitt, aðeins skírskotað til hefðar í starfi og að lokum bent á úrskurð úrskurðarnefndar í máli nr. 293/2017. Það sé sem sagt meining opinberra aðila að ekki skuli líta til raunverulegra tekna einstaklinga við ákvörðun og endurreikning bóta heldur tilbúna upphæð tekna. Ljóst sé að þessi aðferð stangast á við ýmislegt og skynseminnar vegna verði ekki fallist á slíka málsmeðferð.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé dreifing fjármagnstekna sem leystar hafi verið út á árinu 2018.

Í 11. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, komi fram að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt, að ósk lífeyrisþega, að dreifa eigin tekjum lífeyrisþegans sem stafi af fjármagnstekjum sem leystar hafi verið út í einu lagi á allt að 10 ár. Ekki sé heimilt að dreifa slíkum tekjum oftar en einu sinni á hverju tímabili.

Í 18. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags sé fjallað um dreifingu fjármagnstekna. Þar segi:

„Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að ósk elli- eða örorkulífeyrisþega að dreifa eigin tekjum lífeyrisþegans sem stafa af fjármagnstekjum á allt að 10 ár. Skilyrði er að tekjurnar hafi verið leystar út í einu lagi.

Heimilt er að dreifa tekjum skv. 1. mgr. einu sinni á hverju tímabili og skal dreifing teknanna vera jöfn fyrir öll þau ár sem dreift er á. Þó getur lífeyrisþegi ákveðið að einungis hluta teknanna verði dreift, t.d. að helmingur verði á því ári sem tekjurnar tilheyra og afgangi síðan dreift á tiltekinn árafjölda, allt að níu ár.

Lífeyrisþega er heimilt að breyta árafjölda sem dreift er á eftir að dreifing er hafin. Þá er heimilt að láta allar eftirstöðvar tekna sem dreift hefur verið falla á yfirstandandi ár og ljúka þar með dreifingunni á því ári. Ekki er heimilt að ákveða afturvirkt að ljúka dreifingu á síðasta ári svo hægt verði að hefja nýja dreifingu vegna yfirstandandi árs.

Ef um hjón er að ræða sem bæði eru lífeyrisþegar verða bæði að óska eftir dreifingu fjármagnstekna og dreifast tekjurnar eins hjá báðum. Ef um örorkulífeyrisþega er að ræða er einungis heimilt að dreifa tekjum á það tímabil sem örorkumat hans varir.

Þegar lífeyrisgreiðslur falla niður vegna dvalar á sjúkrahúsi eða vistunar á dvalar- eða hjúkrunarheimili fellur dreifingin niður og jafnframt myndast ekki heimild hjá Tryggingastofnun ríkisins til endurkröfu. Hið sama gildir ef lífeyrisþegi andast.

Tekjur sem dreift er samkvæmt grein þessari skulu taka breytingum árlega samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Í 16. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað teljist ekki til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Málavextir séu þeir að við bótauppgjör ársins 2018 hafi komi í ljós að kærandi hafi verið með 3.084.447 kr. í lífeyrissjóðstekjur og sameiginlegar tekjur þeirra hjóna hafi verið 4.010.341 kr. í vexti og verðbætur. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2018 hafi verið að kærandi hafi verið ofgreidd í bótaflokkunum ellilífeyrir og orlofs- og desemberuppbætur.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2018 hafi verið sú að kærandi hafði fengið greitt á árinu 1.842.571 kr. en hefði átt að fá greitt 837.024 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 634.098 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Tryggingastofnun hafi borist beiðni kæranda, dags. 5. júní 2019, um dreifingu fjármagnstekna sem hafi fallið til á árinu 2018. Tryggingastofnun hafi orðið við þeirri beiðni og endurreiknað að nýju réttindi kæranda. Sá endurreikningur hafi leitt til skuldar að fjárhæð 91.412 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Þann 4. júlí 2019 hafi Tryggingastofnun einnig sent kæranda bréf um breytingu á tekjuáætlun ársins 2019 þar sem gert hafi verið ráð fyrir umræddri dreifingu fjármagnstekna og hafi í þeirri tekjuáætlun verið gert ráð fyrir 1.034.355 kr. í vexti og verðbætur og 4.644 kr. í arð.

Tryggingastofnun hafi borist tvö bréf frá kæranda vegna þessara breytinga, dags. 8. og 16. júlí 2019, þar sem óskað hafi verið eftir skýringum á dreifingu fjármagnstekna. Kæranda hafi verið svarað með bréfi, dags. 30. júlí 2019.

Eins og fram hafi komið hafi Tryggingastofnun samþykkt að dreifa fjármagnstekjum kæranda, sem leystar hafi verið út í einu lagi á árinu 2018, á 10 ár, þ.e. á árin 2018 til og með 2027. Um hafi verið að ræða sameiginlegar fjármagnstekjur þeirra hjóna að fjárhæð 3.518.579 kr. sem verði 351.857 kr. fyrir hvert ár eða 175.928 kr. hjá kæranda.

Í kæru komi fram að kærandi telji að frádreginn 22% tekjuskattur af ofangreindum fjármagnstekjum eigi ekki að nota til skerðingar á bótum hennar.

Samkvæmt 7. gr. laga um tekjuskatt sé meginregla II. kafla laganna að skattskyldar tekjur teljist vera hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skipti ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær séu. Síðan sé talið upp í A, B og C-liðum margvíslegar tekjur sem séu skattskyldar. Í 3. tölul. C-liðar 7. gr. sé kveðið á um það að vextir, verðbætur, afföll og gengishagnaður teljist til skattskyldra tekna.

Í 2. mgr. 16. gr. laga almannatryggingar séu tilgreind sérstaklega þau ákvæði tekjuskattslaga sem taka skuli tillit til varðandi hvað ekki teljist til tekna og koma skuli til frádráttar tekjum. Líta verði svo á að þar sé um tæmandi talningu að ræða, enda sé ekki vísað til ákvæða laga um tekjuskatt til frádráttar frá tekjum í heild sinni. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljast tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað teljist ekki til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga sé lagður á samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt. Þar sem ekki sé tilgreint í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar að líta skuli til 66. gr. laga um tekjuskatt telji Tryggingastofnun ljóst að miða skuli við fjármagnstekjur fyrir skatt við ákvörðun bóta og endurreikning þeirra og uppgjör. Þessi framkvæmd Tryggingastofnunar hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd í úrskurði í máli nr. 293/2017.

Kærð ákvörðun sé í samræmi við lög og reglur sem gildi um uppgjör og endurreikning tekjutengdra bóta og dreifingu fjármagnstekna. Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2018.

Kærandi fékk greiddan ellilífeyri allt árið 2018 frá Tryggingastofnun ríkisins. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og fleirum, sbr. 40. gr. laga um almannatryggingar.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Fjármagnstekjur eru tekjustofn sem hefur áhrif við útreikning Tryggingastofnunar ríkisins á bótafjárhæð, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og einnig C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Samkvæmt 2. málsl. a-liðar 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skulu fjármagnstekjur skiptast til helminga á milli hjóna við útreikning bóta. Í 23. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um útreikning ellilífeyris en þar segir að ellilífeyrir skuli lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr. laganna, uns lífeyririnn fellur niður. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Í 11. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, segir að Tryggingastofnun ríkisins er heimilt, að ósk lífeyrisþega, að dreifa eigin tekjum lífeyrisþegans sem stafa af fjármagnstekjum sem leystar hafa verið út í einu lagi á allt að 10 ár.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 17. janúar 2018, var kæranda send tekjuáætlun vegna ársins 2018 þar sem gert var ráð fyrir 2.972.849 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 525.970 kr. í vexti og verðbætur og 11.352 kr. í arð. Kærandi gerði engar athugasemdir við þá tekjuáætlun og voru bótaréttindi því reiknuð og bætur greiddar út miðað við þessar tekjuforsendur. Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2018 reyndust lífeyrissjóðstekjur kæranda vera 3.084.447 kr. og sameiginlegar fjármagnstekjur með maka vera 4.010.341 kr. Niðurstaða endurreiknings Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins var sú að kærandi hafi átt rétt á 837.024 kr. á árinu en heildargreiðslur ársins hafi verið 1.842.571 kr. Samtals væri ofgreiðsla því 634.098 kr. á árinu 2018 að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Í kjölfarið lagði kærandi fram beiðni, dags. 5. júní 2019, um dreifingu fjármagnstekna að fjárhæð 3.518.579 kr. sem féllu til á árinu 2018 á grundvelli 11. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Tryggingastofnun samþykkti beiðni kæranda og dreifði umræddum tekjum á árin 2018 til 2027 og framkvæmdi nýjan endurreikning og uppgjör vegna bóta ársins 2018, dags. 4. júlí 2019. Var þar gert ráð fyrir að fjármagnstekjur ársins skiptust á þá leið að kærandi hafi verið með 491.762 kr. í vexti og verðbætur, auk 351.857 kr. í söluhagnað. Niðurstaða þessa nýja endurreiknings og uppgjörs var sú að kærandi hafi fengið ofgreiðslu að fjárhæð 91.412 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur. Að framangreindu virtu liggur fyrir að fjármagnstekjur hafa áhrif á bótarétt samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þegar um hjón eða sambýlisfólk er að ræða skiptast fjármagnstekjurnar til helminga á milli hjóna við útreikning bótanna, sbr. a-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Ástæðu þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er að rekja til þess að umræddur tekjustofn var vanáætlaður í tekjuáætlun.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort að við útreikning tekjutengdra bóta hafi átt að miða við fjármagnstekjur kæranda að frádregnum fjármagnstekjuskatti eða ekki. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar eru tilgreind sérstaklega þau ákvæði laga nr. 90/2003 um tekjuskatt sem taka skuli tillit til varðandi hvað ekki teljist til tekna og koma skuli til frádráttar tekjum. Í 1. málsl. 2. mgr. 16. gr. laganna segir svo:

„Til tekna skv. III. kafla laga þessara teljast tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.“

Tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga er lagður á samkvæmt 3. mgr. 66. gr. tekjuskattslaga. Þar sem ekki er tilgreint í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar að líta skuli til 66. gr. tekjuskattslaga er það mat úrskurðarnefndarinnar að miða skuli við fjármagnstekjur fyrir skatt við endurreikning og uppgjör bóta.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. júlí 2019, um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum ársins 2018.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, vegna ársins 2018 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum