Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2016 Utanríkisráðuneytið

Samráð vegna ákvörðunar Breta forgangsmál EFTA- formennsku Íslands

Í dag tók Ísland við formennsku í EFTA og jafnframt í tveimur lykilstofnunum EES-samstarfsins í Brussel og mun stýra þeirra starfi til ársloka. Í EFTA leggur Ísland höfuðáherslu á samband aðildarríkjanna við Bretland en EFTA ríkin munu eiga með sér náið samráð til að viðhalda efnahags- og viðskiptatengslum við Breta. Þá verður stefnt að því að ljúka fríverslunarviðræðum við Indverja og setja jafnréttisstefnu fyrir EFTA.

Í Brussel tekur Ísland við formennsku í fastanefnd EFTA en meginhlutverk nefndarinnar er að samræma afstöðu EFTA-ríkjanna innan EES gagnvart Evrópusambandinu fyrir fundi í sameiginlegu EES-nefndinni, sem Ísland mun einnig stýra. Lögð verður m.a. áhersla á að fylgjast náið með viðræðum um fyrirhugaða útgöngu Breta úr ESB með það að markmiði að tryggja viðskiptahagsmuni EES EFTA ríkjanna.

Einnig verður, í samræmi við Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar, lögð áhersla á að fylgjast vel með málum sem eru í lagasetningarferli hjá ESB og eru metin sem forgangsmál út frá íslenskum hagsmunum. Þá verður, eins og ávallt í EES-samstarfinu, áfram unnið að því að lausn náist um einstakar útistandandir gerðir sem varða EES-samninginn en hafa ekki enn verið teknar upp í samninginn, þ.e. að minnka s.k. upptökuhalla.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum