Hoppa yfir valmynd
30. september 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 135/2009

Miðvikudaginn 30. september 2009

135/2009

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með bréfi, dags. 7. apríl 2009, kæra B, og D, f.h. sonar síns, A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga þá ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að synja um örorkulífeyri og tengdar greiðslur að svo stöddu vegna búsetu.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn, dags. 11. desember 2008, sótti kærandi um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Örorkumat lífeyristrygginga var gert þann 3. febrúar 2009 og var niðurstaða þess sú að kærandi uppfyllti læknisfræðileg skilyrði örorku, varanlega. Með bréfi, dags. 6. mars 2009, tilkynnti umboðsskrifstofa Tryggingastofnunar ríkisins á E að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 þar sem hann hefði ekki verið búsettur hér á landi síðustu þrjú ár.

Í rökstuðningi með kæru segir m.a. svo:

„A var tæplega X ára þegar við fluttum til F til frekara náms og starfa. X árum síðar komum við til E, sumarið 2008, til reynsludvalar. Eftir nokkurn tíma var okkur orðið ljóst að skipulag og aðstæður á E voru mjög jákvæðar fyrir A. Þau viðhorf sem fulltrúar E, G og atvinnulífsins hér hafa sýnt eru einstaklega jákvæð. Við fluttum því lögheimilið hingað um áramótin 2008-2009. Við vorum upplýst um að A ætti rétt á lífeyri og vorum hvött til að senda inn umsókn, sem við gerðum. Okkur barst svar um að örorka hans væri metin 75% og hann fékk örorkuskírteini sem gildir frá 1. sept. 2008 til 31. ágúst 2057. Nokkru síðar barst úrskurður um að hann eigi ekki rétt á örorkulífeyri fyrr en eftir þriggja ára fasta búsetu hér á landi. Okkur var bent á að athuga möguleikann á lífeyrisgreiðslum frá F. Þennan úrskurð viljum við fá endurskoðaðan.

Undanfarin ár höfum við foreldrar A fengið umönnunarbætur, vegna aukins kostnaðar, frá sænsku almannatryggingunum. Enginn annar beinn fjárhagslegur stuðningur stendur eða hefur staðið til boða (hins vegar ýmiskonar félagslegur stuðningur). Umönnunarbæturnar féllu niður þegar við fluttum til Íslands. Eftir fyrirspurn okkar til F almannatrygginganna nú síðustu daga er ljóst að af því verður ekki breytt. Almannatryggingar í F og á Íslandi hafa metið fötlun A þess eðlis að fjárhagslegur stuðningur við A eða foreldra sé sjálfsagður út frá læknisfræðilegu sjónarmiði. Hins vegar vísa almannatryggingar beggja landanna okkur á dyr um leið og við flytjum á milli landanna. Við teljum óhugsandi að þetta hafi verið ætlunin við samningu og samþykkt laga um almannatryggingar. Hugsanlega var ákvæðið um búsetuskilyrði sett til að koma í veg fyrir misnotkun laganna?

A mun eftir þennan úrskurð ekki njóta sömu réttinda og aðrir landar hans með sambærilega fötlun, þ.á.m. bekkjafélagar, og er þar um augljósa mismunun að ræða. Þetta teljum við vera brot á stjórnarskrá Íslands þar sem segir m.a. í VII. kafla fyrstu grein „allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“ Og í 76. gr. „Öllum sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.“

Að lokum viljum við minna á að það var ekki A val að flytja til F á sínum tíma. Hann fygldi að sjálfsögðu með okkur foreldrum sínum þegar við héldum til náms og starfa (nokkuð sem var íslensku samfélagi að kostnaðarlausu en kemur því vonandi til góða núna) og því verður þessi mismunun ennþá óréttlátari. A verður nú algjörlega háður okkur varðandi framfærslu fram á 22. aldursár. Það mun m.a. koma í veg fyrir að hann geti flutt í þjónustuíbúð eins og hann hefur stefnt að á næstu misserum.“

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 28. apríl 2009, eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins. Greinargerðin er dagsett 29. maí 2009. Í henni segir svo:

„Heimild til greiðslu öorkulífeyris byggist á 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 (ATL). Í 1. mgr. 18. gr. segir m.a.:

Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, sbr. II. kafla, eru á aldrinum 16 til 67 ára og:

a. hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu.

b. eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilegra viðurkenndra sjúkdóma og fötlunar.

Skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris eru þannig annars vegar búsetutími á Íslandi og hins vegar að læknisfræðileg skilyrði eru fyrir 75% örorkumati séu fyrir hendi.

Kærandi sótti um örorkulífeyri með umsókn dagsettri 11. desember 2008 sem var móttekin 16. desember 2008. Við örorkumat 3. febrúar 2009 var samþykkt að læknisfræðileg skilyrði fyrir örorkulífyeri væru uppfyllt, þ.e. að skilyrði b-liðar 1. mgr. 18. gr. ATL sé fullnægt. Með bréfi umboðs almannatrygginga á E dags. 6. mars 2009 var synjað um örorkulífeyrisgreiðslur vegna búsetutíma, þ.e. að skilyrði a.-liðar 1. mgr. 18. gr. ATL um þriggja ára búsetutíma sé ekki uppfyllt.

Kærandi flutti til Íslands frá F x 2009 og hafði því ekki verið búsettur á Íslandi síðustu þrjú árin áður en umsóknin var lögð fram.

Ekki koma til álita ákvæði milliríkjasamninga um almannatryggingar sem geta ef við á leitt til styttingar á búsetu- eða tryggingatímabili sem þarf að vera lokið í viðkomandi samningsríki til þess að ávinna sér rétt til greiðslna.

Tryggingastofnun synjaði því kæranda réttilega um örorkulífeyri.

Í F mun kærandi hafa fengið umönnunargreiðslur sem voru stöðvar frá febrúar 2009 vegna flutnings hans til Íslands enda munu þær greiðslur vera bundnar við búsetu þar í landi á sama háttt og er um umönnunargreiðslur hér á landi, sbr. 1. og 4. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 og reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna nr. 504/1997, með áorðnum breytingum. Kærandi á ekki rétt á umönnunargreiðslum hér á landi vegna þess að hér á landi greiðast umönnunargreiðslur til 18 ára aldurs og hann var orðinn 18 ára þegar hann flutti hingað til lands.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 4. júní 2009, og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Með bréfi, dags. 13. júní 2009, sendu umboðsmenn kæranda frekari gögn sem þau segja að sýni fram á að kærandi fái hvorki fjárhagsaðstoð frá F né frá félagsþjónustu E. Benda umboðsmenn kæranda á það í bréfinu að ef hin kærða ákvörðun stendur óbreytt sé kæranda gróflega mismunað á grundvelli búsetu.

Bréf umboðsmanna kæranda var send Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 18. júní 2009. Viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar er dagsett 7. ágúst 2009. Í henni segir að þó kærandi fái ekki greiðslur frá F eða E hafi það engin áhrif á synjun um örorkulífeyri. Örorkulífeyrir sé eingöngu greiddur ef bæði búseta og læknisfræðileg skilyrði séu fyrir hendi. Skilyrði um búsetu hér á landi séu almenn skilyrði fyrir örorkulífeyrisgreiðslum sem allir umsækjendum um þessar greiðslur þurfi að uppfylla til þess að greiðslur geti átt sér stað og það feli því ekki í sér neina mismunun að synja um greiðslur þegar þetta skilyrði er ekki uppfyllt.

Viðbótargreinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 11. ágúst 2009.

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort Tryggingastofnun ríkisins hafi verið rétt að synja kæranda um greiðslur örorkulífeyris og tengdra greiðsla vegna þess að hann uppfyllti ekki búsetuskilyrði 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007.

Í kæru til úrskurðarnefndar segir að kærandi hafi flutt með foreldrum sínum til F þegar hann var x ára gamall. Fjölskyldan hafi búið í F í x ár og flutt lögheimili sitt hingað til lands í byrjun ársins 2009. Í F hafi foreldrar kæranda fengið greiðslur vegna umönnunar hans en þær greiðslur hafi fallið niður við flutning þeirra hingað til lands. Er á það bent í kæru til nefndarinnar að kærandi njóti ekki sömu réttinda og aðrir sem eru með sambærilega fötlun og kærandi og því sé um augljósa mismunun að ræða og sé um að ræða brot á stjórnarskránni. Þá er á það bent í kæru að það hafi ekki verið kærandi sem hafi tekið ákvörðun um að flytja til F heldur hafi hann fylgt foreldrum sínum. Loks er á það bent í kærunni að kærandi sé nú algjörlega háður foreldrum sínum varðandi framfærslu þar til hann verður kominn á 22. aldursár og það komi í veg fyrir að hann geti flutt í þjónustuíbúð eins og hann hafi stefnt að á næstu misserum.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er vísað til ákvæða a. liðar 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar og á það bent að kærandi uppfylli ekki skilyrði ákvæðisins um búsetu. Kærandi hafi flutt til Íslands frá F þann 1. janúar 2009 og hafi því ekki verið búsettur á Íslandi síðustu þrjú árin áður en umsóknin var lögð fram. Stofnunin hafi því réttilega synjað kæranda um örorkulífeyri.

Í 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 segir svo:

„Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, sbr. II. kafla, eru á aldrinum 16 til 67 ára og:

a. hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu,

b. eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.“

Til að umsækjandi eigi rétt á greiðslum örorkulífeyris á Íslandi þurfa umsækjendur að uppfylla bæði skilyrði a. og b. liða 1. mgr. 18. gr. laga um almannatrygginga. Ekki er ágreiningur um það í málinu að kærandi uppfyllir læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris en samkvæmt örorkumati lífeyristrygginga þann 3. febrúar 2009 var kærandi talinn uppfylla læknisfræðileg skilyrði b. liðar 1. mgr. nefndrar 18. gr. almannatryggingalaga. Samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu bjó kærandi í F í x ár og var lögheimili hans flutt til Íslands þann 1. janúar 2009. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði a. liðar 1. mgr. 18. gr. laganna.

Í kæru til úrskurðarnefndar er á það bent að með því að synja kæranda um örorkulífeyrisgreiðslur sé brotið gegn ákvæðum stjórnarskrár Íslands þar sem kærandi njóti ekki sömu réttinda og aðrir landar hans með sambærilega fötlun. Hvað þessa málsástæðu kæranda varðar skal tekið fram að játa verður almenna löggjafanum vald til að ákvaða hvaða atriði skuli hafa áhrif á réttindi borgara eftir málefnalegum og sanngjörnum sjónarmiðum án þess að það verði talið brjóta í bága við stjórnarskána. Hins vegar skal áréttað að úrskurðarnefnd almannatrygginga tekur aðeins afstöðu til þess hvort greiðsluskylda hafi stofnast á grundvelli almannatrygginga og þeirra stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru með stoð í þeim.

Til að eiga rétt til örorkulífeyris á Íslandi þarf umsækjandi að uppfylla skilyrði 1. mgr. 18. gr. almannatryggingalaga, þ.e. bæði læknisfræðileg skilyrði og skilyrði um þriggja ára búsetu áður en umsókn er lögð fram. Skilyrðið er fortakslaust og þar sem kærandi uppfyllir ekki skilyrði um búsetu verður ekki hjá því komist að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnun að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri að svo stöddu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. mars 2009 um að synja umsókn A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson, formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum