Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2016 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Mikil umræða um umhverfismál á Alþingi

Umhverfismál voru mikið til umræðu á Alþingi í liðinni viku. Góðar og málefnalegar umræður voru meðal annars um loftslagsmál og ekki síst um Parísarsamkomulagið og sögðust þingmenn vonast eftir fleiri gagnlegum samræðum um þennan yfirgripsmikla málaflokk sem umhverfismálin eru.

Vikan byrjaði á því að Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra svaraði munnlegri fyrirspurn um framkvæmd þingsályktunartillögu um að draga úr plastpokanotkun og gerði grein fyrir starfshópi sem er ætlað að koma með tillögur um hvernig draga megi úr notkun plastpoka.

Á þriðjudeginum flutti ráðherra skýrslu um loftslagsfundinn í París og samkomulagið sem þar náðist. Ráðherra kom inn á að það hafi verið ógleymanlegt að skynja andrúmsloftið á Parísarfundinum og þá hugarfarsbreytingu sem orðið hefur hjá stjórnvöldum, atvinnulífi og einstaklingum. Í ræðum þingmanna kom meðal annars fram að viðbrögð við loftslagsvánni og umhverfismál almennt væru nauðsynlegur grunnur fyrir góðan efnahag. Æskilegt væri að Íslendingar settu sér það markmið að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og að við byðum fram þekkingu okkar og reynslu til annara ríkja. Ekki væri varajörð til staðar og því brýnt að ganga óhikað til verka.

Þá var sérstök umræða um loftslagsbreytingar og landbúnað. Almennt var umræðan þar á þá leið að möguleikar væru til sveita að fara í orkuskipti og mikilvægt væri að Ísland sé sem sjálfbærast í matvælaframleiðslu.

Að lokum var óundirbúinn fyrirspurnartími þar sem ráðherra svaraði til um mögulegar úrbætur vegna myglu.

Það kom fram í mörgum ágætum ræðum að upplýsing og fræðsla væru lykill að árangri á sviði umhverfismála, eins og víðast hvar annars staðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira