Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 140/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 8. apríl 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 140/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19100003

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 1. október 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Srí Lanka (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. september 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 27. desember 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 6. ágúst 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 11. september 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 1. október 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 17. október 2019. Frekari gögn bárust kærunefnd þann 6. nóvember 2019, 3. janúar, 8. janúar, 4. mars og 10. mars 2020. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 27. febrúar 2020 ásamt talsmanni sínum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að kærandi sé fæddur og uppalinn í borginni Jaffna í heimaríki en hafi flutt til Colombo árið 1995 og þar sem hann hafi búið þar til hann hafi flúið land. Kærandi sé af þjóðarbroti Tamíla sem sé minnihlutahópur í Srí Lanka. Árið 2001 hafi kærandi verið handtekinn og verið í haldi yfirvalda allt til ársins 2012. Faðir kæranda hafi einnig verið handtekinn árið 2001 en hafi látist í varðhaldi árið 2003. Þá hafi móðir kæranda verið handtekin en sleppt til að hún gæti sinnt systur kæranda og vísar kærandi framangreindu til stuðnings til skjals þar sem fram komi að Human Rights Commission of Sri Lanka hafi átt þátt í því að móðir hans hafi verið látin laus. Ástæða fyrir handtökum á kæranda og föður hans hafi verið grunur yfirvalda um að þeir hafi verið meðlimir hersveitum Tamíla, LTTE samtökunum (Liberation Tigers of Tamil Eelam). Engin réttarhöld hafi farið fram í málum þeirra en kærandi telji að grunur yfirvalda hafi byggst á því að nágranni þeirra hafi verið meðlimur í LTTE samtökunum og hafi fjölskyldan veitt honum ýmsa aðstoð, svo sem að leyfa honum að nota símann þeirra. Í haldi yfirvalda hafi kærandi verið ítrekað pyntaður [...]Eftir að kærandi hafi verið látinn laus úr haldi yfirvalda hafi hann þurft að tilkynna sig reglulega hjá yfirvöldum og hafi verið bannað að yfirgefa landið. Þá hafi kærandi oft verið spurður spurninga varðandi LTTE samtökin og stundum hafi honum verið haldið í nokkrar vikur og svo látinn laus. Einnig hafi kærandi greint frá því að hermenn hafi beitt hann ofbeldi eftir að honum hafi verið sleppt. Þá hafi kæranda verið útskúfað vegna þess að fólk hafi talið hann vera með tengsl við LTTE og jafnframt hafi hann orðið fyrir ýmis konar mismunun, m.a. hvað hafi varðað aðgengi að heilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð.

Þá kemur fram í greinargerð að þann 14. janúar 2019 hafi leigusali kæranda, maður að nafni [...], sent móður og systur kæranda sem hafi dvalarleyfi í [...], tölvupóst þar sem hann greini frá því að lögreglan hafi komið að heimili hans að leita að kæranda þar sem hann hafi ekki tilkynnt sig til lögreglu í nokkra mánuði á árinu 2018. Hafi lögreglan tjáð leigusalanum að ef kærandi tilkynnti sig ekki til þeirra þá myndi leigusalinn lenda í vandamálum. Þá hafi kærandi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að leigusalinn hafi verið handtekinn.

Þá hafi kærandi greint frá því að í heimaríki stafi honum einnig hætta af hálfu fjölskyldu stúlku sem hann hafi átt í sambandi við. Fjölskyldan sem einnig séu Tamílar hafi sakað hann um að afla upplýsinga um sig fyrir yfirvöld og hafi hópur að nafninu Aya, sem faðir stúlkunnar hafi ráðið, reynt að drepa kæranda en hann hafi komist undan.

Fram kemur í greinargerð að þeir atburðir sem kærandi hafi lýst hafi haft skaðleg áhrif á heilsu hans en hann hafi lagt fram læknisfræðileg gögn sem styðja það. Þá hafi kærandi verið í meðferð hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingi.

Í greinargerð kæranda er saga Srí Lanka stuttlega rakin en hún hafi m.a. einkennst af langvinnri og flókinni spennu á milli ólíkra þjóðarbrota, einkum milli Sinhala sem séu í meirihluta og Tamíla sem séu minnihlutahópur í landinu. Árið 1983 hafi brotist út borgarastyrjöld í Srí Lanka milli framangreindra hópa þar sem hersveitir Tamíla, LTTE-samtökin, hafi sóst eftir stofnun sjálfstæðs ríkis Tamíla í norðurhluta landsins. Hafi átökin staðið yfir í 25 ár og lokið í maí 2009. Enn ríki mikil spenna milli framangreindra þjóðarbrota og byggist samfélagið á djúpri misskiptingu. Þá er í greinargerð kæranda ítarleg umfjöllun um Tamíla og er vísað í ýmsar skýrslur alþjóðlegra stofnana. Fram komi m.a. í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2018 að Tamílar greini enn frá mismunun sem þeir sæti er varði m.a. aðgang að menntun á háskólastigi, atvinnu hjá hinu opinbera, húsnæði, heilbrigðisþjónustu og notkun á eigin tungumáli. Þá komi fram í skýrslu Amnesty International frá árinu 2018 að löggæsluyfirvöld hafi beitt tamílska minnihlutann í landinu, einkum fyrrum meðlimi LTTE-samtakanna, áframhaldandi mismunun og áreitni. Þá er vísað til þess að fram komi í skýrslu Freedom House frá árinu 2019 að lögregluyfirvöld og öryggissveitir landsins hafi árið 2017 m.a. átt þátt í handahófskenndum handtökum, aftökum án dóms og laga, nauðgunum á einstaklingum í varðhaldi og haldið fólki í varðhaldi óhóflega lengi án réttarhalda og hafi framangreind mannréttindabrot beinst einkum að Tamílum. Þá sé yfirgnæfandi hluti ríkishersveita enn staðsettur í norður- og austurhluta landsins þar sem stærstur hlutur Tamíla búi. Jafnframt er í greinargerð ítarleg umfjöllun um pyndingar, mannshvörf og spillingu sem eigi sér stað í landinu. Fram komi í ársskýrslu Amnesty International frá árinu 2018 að mannshvörf, aftökur án aðkomu dómsstóla, pyndingar og önnur alvarleg mannréttindabrot viðgangist í landinu í skjóli refsileysis.

Í greinargerð gerir kærandi ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli sínu. Meðal annars er gerð athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi gert það að aðalatriði við ákvörðunartöku sína að kærandi hafi sagst í raun og veru ekki hafa verið meðlimur LTTE-samtakanna eða haft náin tengsl við samtökin. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi horft framhjá því að hann hafi verið talinn meðlimur LTTE-samtakanna eða talinn hafi náin tengsl við þau og hafi verið setið í fangelsi í mörg ár vegna þeirrar trúar yfirvalda og hafi verið bundinn tilkynningarskyldu frá stjónvöldum um að láta vita af sér frá því að hann hafi verið leystur úr haldi. Einnig er gerð athugasemd við túlkun og mat Útlendingastofnunar á upplýsingum í heimildum um aðstæður í Srí Lanka.

Kærandi byggir kröfu sína um alþjóðlega vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á því að hann óttist ofsóknir í heimaríki vegna ætlaðra stjórnmálaskoðana sinna, n.t.t. vegna ætlaðra tengsla hans við LTTE-samtökin, og þjóðernis hans og aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi. Kærandi vísar til þess að vegna framangreinds hafi hann þurft að þola langvarandi kerfisbundna mismunun af hálfu stjórnvalda og ofsóknir í formi frelsissviptingar, pyndinga, ofbeldis og þurft að sæta eftirliti. Kærandi tilheyri minnihlutaþjóðarbroti Tamíla í heimaríki og uppfylli því skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga um ofsóknir vegna þjóðernis, sbr. c-lið 3. mgr. 38. gr. sömu laga. Þá uppfylli kærandi einnig skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga um ofsóknir vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. sömu laga, þar sem að stjórnvöld í heimaríki telji hann vera fyrrum meðlim LTTE-samtakanna. Jafnframt telur kærandi að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga um ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana, sbr. e-lið 3. mgr. 38. gr. sömu laga. Kærandi telur að ljóst sé af því sem rakið hafi verið í greinargerð að stjórnvöld í heimaríki telji að hann hafi verið í LTTE-samtökunum og hafi þannig skoðanir sem feli í sér gagnrýni á stefnu og aðferðir stjórnvalda, og séu stjórnvöldum þar í landi ekki þóknanlegar.

Kærandi telur að með endursendingu hans til Srí Lanka yrði brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Kærandi krefst þess til vara að honum verði veitt viðbótarvernd skv. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í greinargerð er vísað til lögskýringargagna að baki ákvæðinu og komi þar m.a. fram að við túlkun á ákvæðinu skuli taka tillit til þeirra alþjóðlegu mannréttindasamninga og annarra alþjóðareglna sem Ísland sé skuldbundið af. Sé þar einkum að ræða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi í mál JK o.fl. gegn Svíþjóð frá 23. ágúst 2016 (mál nr. 59166/12) fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Kærandi telur að ekki sé raunhæft að hann geti leitað nokkurrar verndar hjá yfirvöldum í heimaríki þar sem hann sé að flýja ofsóknir þeirra. Þá vísar kærandi til þess sem fram hafi komið í greinargerð um að spilling þrífist í stjórnkerfi landsins og að heimildir séu um að herinn og löggæsluyfirvild stundi handahófskenndar handtökur og pyndingar á borgurum, einkum Tamílum og einstaklingum með einhvers konar tengsl við LTTE-samtökin. Með vísan til framangreinds telur kærandi að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu dauðarefsingu, pyndingar eða aðra ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í heimaríki.

Hvað varðar flutning innanlands vísar kærandi til þess að við mat á því hvort einstaklingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta upprunalands þurfi að fara fram einstaklingsbundið mat á persónulegum aðstæðum hans og þeim aðstæðum sem séu í landinu. Við mat á því hvort hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að viðkomandi setjist að á því svæði sem talið sé öruggt skuli m.a. höfð hliðsjón af leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna en í þeim komi fram að flutningur innanlands komi ekki til greina ef einstaklingurinn er ennþá berskjaldaður fyrir ofsóknum á hinum nýja stað. Þá vísar kærandi til þess sem fram komi í athugasemdum með 4. mgr. 37. gr. í frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um útlendinga. Með hliðsjón af atvikum máls og því sem rakið hafi verið í greinargerð sé krafa um innri flutning hvorki raunhæf né sanngjörn en bæði skilyrðin þurfi að uppfylla til að slík ráðstöfun komi til greina.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt ákvæðinu megi veita útlendingi slíkt dvalarleyfi á grundvelli ríkra mannúðarsjónarmiða, m.a. í þeim tilvikum er útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða annarra erfiðra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar til athugasemda við 74. gr. í greinargerð með frumvarpi til laga um útlendinga þar sem fram komi að m.a. skuli líta til þess hvort grundvallarmannréttindi séu tryggð í ríkinu sem senda eigi útlending til. Með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og sem dæmi séu nefnd viðvarandi mannréttindabrot og sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærandi telur að með vísan til þess sem fram hafi komið í greinargerð um þá meðferð sem hann hafi orðið fyrir í heimaríki sé víst að um sé að ræða viðvarandi mannréttindabrot þar í landi sem yfirvöld veiti honum ekki vernd gegn. Þá eigi kærandi ekkert félagslegt bakland í heimaríki sínu þar sem faðir hans sé látinn og móðir hans og systir hafi flúið land. Jafnframt hafi þeir atburðir sem kærandi hafi lýst haft skaðleg áhrif á andlega heilsu hans en hann glími við ótta, streitu, svefntruflanir og þunglyndi. Í ljósi alls framangreinds telur kærandi að 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt og veita beri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi ef hvorki aðalkrafa né varakrafa hans verði tekin til greina.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.AuðkenniÍ ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn til að sanna á sér deili. Kærandi hafi við komu til landsins framvísað vegabréfi sem væri grunnfalsað og hafi ekki lagt fram önnur gögn til að sýna fram á auðkenni sitt. Útlendingastofnun taldi á hinn bóginn enga ástæðu til að draga í að hann væri frá Srí Lanka og væri srílankískur ríkisborgari. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að draga í efa það mat og verður því lagt til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi sé srílankískur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Srí Lanka m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/2018: Sri Lanka (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Country programme document: Sri Lanka (United Nations Economic and Social Council, 10. ágúst 2017);
  • Democratic Socialist Republic of Sri Lanka - Human Rights Priority Country Report 2016 (For-eign & Commonwealth Office, 21. júlí 2017);
  • DFAT Country Information Report Sri Lanka (Australian Government, Department of For-eign Affairs and Trade, 23. maí 2018);
  • Freedom in the World 2018 – Sri Lanka (Freedom House, 16. janúar 2018);
  • Freedom in the World 2019 – Sri Lanka (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • Human Rights in Asia-Pacific; Review of 2019 – Sri Lanka (Amnesty International, 30. janúar 2020);
  • National Health Strategic Master Plan 2016-2025 Vol. III – Rehabilitative Services (Ministry of Health – Sri Lanka, 2016);
  • Report of the Special Rapporteur on the promotion and protection of human rights while countering terrorism (Human Rights Council, 25. janúar 2018);
  • Rule of Law Index 2020 (World Justice Project, 11. mars 2020);
  • Sri Lanka Country Profile (vefsíða BBC News, https://www.bbc.co.uk/news/world-south-asia-11999611, 26. febrúar 2018);
  • Sri Lanka Country Reports on Human Rights Practices – 2019 (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Sri Lanka - Country Reports on Human Rights Practices - 2018 (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
  • Sri Lanka: COI Compilation (Austrian Centre for Country of Origin and Asylum Research and Documentation (ACOORD), 31. desember 2016);
  • Sri Lanka: entry and exit procedures at international airports, including security screening and documents required for citizens to enter and leave the country; treatment of returnees upon arrival at international airports, including failed asylum seekers and people who exit-ed the country illegally; factors affecting the treatment, including ethnicity and religion (2015-November 2017) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 10. nóvember 2017);
  • Sri Lanka: Treatment of Tamils in society and by authorities; the Eelam People's Democratic Party (EPDP), including relationship with the Tamil population (2014-February 2017) (Immi-gration and Refugee Board of Canada, 1. mars 2017);
  • Sri Lanka: Helserelaterte forhold (Landinfo, 7. janúar 2016);
  • Sri Lanka: Rehabilitering og reintegrering av tidligere LTTE-kadre (Landinfo, 23. ágúst 2016);
  • Sri Lanka: ”White van”-bortføringer (Landinfo, 9. febrúar 2016);
  • Sri Lanka 2016 International religious freedom report (U.S. Department of State, 15. ágúst 2017);
  • Upplýsingar af vef mannréttindanefndar Srí Lanka - Human Rights Commission of Sri Lanka – vefsíða: http://www.hrcsl.lk/ (sóttar þann 1. ágúst 2018);
  • Upplýsingar af vef mannréttindasamtaka Srí Lanka - Human Rights Organization of Sri Lanka – vefsíða: http://slhro.org/ (sóttar þann 1. ágúst 2018);
  • Upplýsingar af vef skrifstofu þjóðarsameiningar og sáttar - Office for National Unity and Reconciliation – vefsíða: http://onur.gov.lk/ (sóttar þann 1. ágúst 2018) og
  • World Report 2020 – Sri Lanka (Human Rights Watch, 14. janúar 2020).

Srí Lanka er stjórnarskrárbundið, fjölflokka lýðveldi með ríkisstjórn sem kosin er í frjálsri kosningu. Landið hlaut sjálfstæði frá Bretum árið 1948 en er í dag eitt af 53 fullvalda ríkjum breska samveldisins. Íbúar Srí Lanka eru u.þ.b. 21 milljón manna. Srí Lanka gerðist aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þann 11. júní 1980, alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi þann 11. júní 1980, alþjóðasamningi um afnám alls kynþáttamisréttis þann 18. febrúar 1982 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 3. janúar 1994. Srí Lanka, sem er aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, hefur ekki enn staðfest flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna frá 1951, sbr. einnig bókun við samninginn frá 31. janúar 1967.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að Sameinuðu þjóðirnar áætli að 69% þjóðarinnar séu búddistar, 15% hindúar, 8% múslímar og 8% kristnir. Meirihluti múslima séu súnní múslímar en minnihlutinn sjítar. Trú og þjóðerni séu mjög samofin í Srí Lanka. Þannig séu flestir búddistar Singalesar en hindúar að mestu Tamílar. Það að vera múslimi, gefi til kynna bæði þjóðerni og trú og kristnir séu hvort heldur Singalesar eða Tamílar. Trúfrelsi sé varið í stjórnarskrá landsins en búddisma sé þó gert hærra undir höfði en öðrum trúarbrögðum. Mismunun á grundvelli trúarbragða beinist fyrst og fremst að múslimum og kristnum. Hreyfingar þjóðernissinnaðra búddista, líkt og hreyfingin Budda Bala Sena (BSS), hafi farið þar fremst í flokki með skemmdarverkum, árásum og hatursorðræðu gegn múslimum og kristnum.

Frá árinu 1983 til 2009 geisaði borgarastríð í Srí Lanka þar sem svonefndir Tamíl tígrar (e. Liberation Tigers of Tamil Eelam (LTTE-samtökin)) börðust fyrir stofnun sjálfstæðs ríkis Tamíla í norður- og austurhluta landsins. Vopnahléi hafi verið komið á með aðstoð alþjóðasamfélagsins árið 2002 en því hafi verið rift árið 2006. Stjórnarherinn í landinu braut síðan uppreisn LTTE-samtakanna á bak aftur árið 2009. Á árunum eftir að borgarastríðinu lauk hafi ríkt mikil spenna og togstreita í landinu og bera heimildir með sér að lögreglan og stjórnarherinn hafi áreitt og ofsótt einstaklinga af tamílskum uppruna, einkum fyrrum meðlimi LTTE-samtakanna og þá er tengdust þeim eða hafi verið grunaðir um að tengjast samtökunum eða meðlimum þeirra. Heimildir séu um að einstaklingar hafi verið numdir á brott af hálfu stjórnvalda, þeir settir í varðhald að ástæðulausu, pyndaðir og þeim meinað að njóta aðstoðar lögfræðings eða að hafa samband við fjölskyldumeðlimi sína. Einnig kemur fram í heimildum að á meðan Mahinda Rakapakse hafi verið forseti, á árunum frá 2005 til 2015, hafi ríkisstjórn hans gert singalískum þjóðernissinnuðum búddistum hærra undir höfði á kostnað minnihlutahópa.

Ofangreindar skýrslur benda til þess að ástandið í landinu hafa batnað eftir breytingar á stjórn landsins árið 2015. Mannréttindi séu virt í meira mæli en áður og dregið hafi úr ofbeldi og refsileysi þó það sé enn til staðar að einhverju leyti. Samkvæmt skýrslu Landinfo frá febrúar 2016 hafði tilfellum mannshvarfa sem tengdust framangreindum átökum fækkað verulega. Næstum engin dæmi væru lengur um að ungir einstaklingar af tamílskum uppruna væru numdir á brott vegna afskipta öryggislögreglunnar af þeim. Gögn málsins bera þó með sér að enn sé tilkynnt um að lögreglan beiti sakborninga pyndingum og annarri ómannúðlegri meðferð til að knýja fram játningu, bæði í sakamálum og málum er varði þjóðaröryggi, þrátt fyrir að stjórnarskrá landsins banni pyndingar og ómannúðlega meðferð. Flestir þeirra sem tilkynnt hafi pyndingar séu karlmenn af tamílskum uppruna.

Samkvæmt ofangreindum gögnum voru lög um varnir gegn hryðjuverkum (e. Prevention against Terrorism Act (PTA)) sett árið 1979. Hafi upphaflega verið lagt upp með að gildistími laganna yrði tímabundinn en árið 1982 var ákveðið að þau skyldu gilda til frambúðar. Hafa alþjóðlegar stofnanir og mannréttindasamtök undanfarin ár gagnrýnt tilvist laganna og hvatt til þess að þau verði felld úr gildi m.a. þar sem þau veiti stjórnvöldum í Srí Lanka víðtæka heimild til að skerða mannréttindi þegna landsins án dóms og laga. Árið 2017 hafi drög að arftaka laganna verið samþykkt en þann 4. janúar 2020 hafi ráðuneyti nýkjörins forseta Srí Lanka, Gotabaya Rajapaksa, hins vegar lýst því yfir að það hygðist draga drögin til baka, sbr. fréttatilkynningu á vefsíðu Human Rights Watch þann 10. janúar 2020. Gagnrýni á lögin hefur m.a. falist í því að skilgreining á hryðjuverkum samkvæmt þeim sé mjög rúm og óljós en athafnir séu felldar undir skilgreininguna sem samkvæmt hefðbundnum skilgreiningum teldust ekki hryðjuverk. Þá veiti lögin stjórnvöldum heimild til að handtaka grunaða einstaklinga á grundvelli þeirra og halda í allt að 18 mánuði án þess að ákæra þá og séu heimildir um það að í framkvæmd sé einstaklingum í mörgum tilvikum haldið lengur en 18 mánuði án þess að ákært sé eða réttað í málum þeirra.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir kröfu sína um alþjóðlega vernd á því að hann óttist ofsóknir í heimaríki vegna ætlaðra stjórnmálaskoðana sinna, n.t.t. vegna ætlaðra tengsla hans við LTTE-samtökin, og þjóðernis síns sem Tamíli.

Kærandi lagði fram ýmis gögn til stuðnings frásögn sinni, svo sem afrit af fæðingarvottorði sínu, sálfræðivottorð, ljósmyndir af örum á líkama sínum, bréf frá móður hans og skriflega frásögn hans af fangelsisvist sinni. Kærandi kvaðst aðspurður ekki geta lagt fram gögn um fangelsisvist sína og tilkynningaskyldu þar sem stjórnvöld hafi ekki viljað láta honum slík gögn í té. Af því tilefni taldi kærunefnd m.a. ástæðu til að bjóða kæranda í viðtal hjá nefndinni.

Kærandi hefur lýst ástæðum flótta síns í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd. Kærandi kvaðst hafa verið handtekinn og fangelsaður árið 2001 ásamt föður sínum vegna gruns stjórnvalda um að þeir væru meðlimir LTTE-samtakanna. Kærandi kvaðst telja grunsemdir stjórnvalda komnar til af þeirri ástæðu að nágranni kæranda og fjölskyldu hans hafi verið meðlimur LTTE-samtakanna og hafi fjölskyldan aðstoðað hann með ýmislegt. Engin réttarhöld hafi farið fram í máli kæranda og föður hans. Kærandi kvaðst hafa verið færður á milli fangelsa með reglulegu millibili og hafi hann jafnframt ítrekað verið [...]. Kærandi hafi ekki verið látinn laus úr haldi fyrr en árið 2012. Kvað kærandi að frá því að hann hafi verið látinn laus hafi honum borið að tilkynna sig reglulega til yfirvalda. Þá hafi kærandi verið hnepptur handahófskennt í varðhald og hann yfirheyrður. Einnig hafi lögreglan komið handahófskennt á heimili kæranda, yfirheyrt hann og framkvæmt húsleit. Kærandi óttist yfirvöld og að verða hnepptur aftur í fangelsi án dóms og laga vegna meintra tengsla sinna við LTTE-samtökin. Þá óttist kærandi föður fyrrum kærustu sinnar en hann hafi verið á móti sambandi þeirra og ráðið glæpahóp að nafni Aya í þeim tilgangi að ráða kæranda af dögum.

Framangreind gögn um aðstæður í heimaríki kæranda, einkum skýrsla sérstaks skýrslugjafa Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi og varnir gegn hryðjuverkum frá janúar 2018, bera með sér að stjórnvöld nýti löggjöf um varnir gegn hryðjuverkum til að handtaka einstaklinga á grundvelli gruns um aðild að LTTE-samtökunum eða um athafnir sem falið geti í sér hryðjuverk í skilningi stjórnvalda og halda þeim í varðhaldi til lengri tíma án þess að leiða þá fyrir dómara og ákæra. Jafnframt hafi þessir einstaklingar verulega takmarkað aðgengi að réttaraðstoð. Þá beri heimildir með sér að einstaklingar af Tamíla uppruna sem hafi, eða séu taldir hafa, tengsl við LTTE-samtökin séu undir sérstöku eftirliti stjórnvalda og séu áreittir af hálfu aðila á þeirra vegum, svo sem lögreglu og hers.

Í umfjöllun í handbók flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna um stjórnmálaskoðanir í skilningi alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 1951 kemur fram að gert sé ráð fyrir því að stjórnvöldum sé kunnugt um skoðanir sem feli í sér gagnrýni á stefnu eða aðferðir stjórnvalda, sem séu stjórnvöldum ekki þóknanlegar, eða að stjórnvöld ætli að umsækjandi hafi slíkar skoðanir. Við mat á því hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir á grundvelli stjórnmálaskoðana í skilningi samningsins er þannig ekki skilyrði að viðkomandi hafi skoðanir sem feli í sér gagnrýni á stjórnvöld, heldur aðeins að stjórnvöld ætli að umsækjandi hafi slíkar skoðanir. Samkvæmt e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga vísa stjórnmálaskoðanir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laganna einkum til skoðana á stefnumótun og aðferðum stjórnvalda sem kunna að beita ofsóknum án tillits til þess hvort viðkomandi hefur aðhafst eitthvað til að tjá skoðanir sínar. Með vísan til þess sem fram kemur í umfjöllun í handbók flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna verður þó lagt til grundvallar að ætlaðar stjórnamálaskoðanir geti einnig fallið undir e-lið 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Það er mat kærunefndar að frásögn kæranda í viðtali hjá kærunefnd hafi verið stöðug og í samræmi við það sem fram kom í viðtölum hjá Útlendingastofnun og í greinargerð sem lögð var fram til kærunefndar. Þá er frásögn kæranda samrýmanleg heimildum í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um heimaríki hans hvað varðar meðferð stjórnvalda á einstaklingum af Tamíl uppruna sem hafi eða taldir séu hafa tengsl við LTTE-samtökin. Það er jafnframt mat kærunefndar að frásögn kæranda um athafnir stjórnvalda í garð hans, einkum frá því að hann var látinn laus árið 2012, beri með sér að um endurteknar athafnir hafi verið að ræða sem falið hafi í sér alvarleg brot á grundvallar mannréttindum hans þar sem um ómannúðlega og vanvirðandi meðferð aðila á vegum stjórnvalda hafi verið að ræða, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Það er því mat kærunefndar að athafnir stjórnvalda í Srí Lanka í garð kæranda hafi verið ofsóknir í skilningi 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd telur að kærandi hafi með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við að verða ofsóttur í heimaríki sínu af hálfu stjórnvalda, sbr. 1. mgr. 37. gr., sbr. 1. og c- og e-lið 3. mgr. og a-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Þar sem ótti kæranda við ofsóknir stafar frá stjórnvöldum er það mat kærunefndar að kærandi geti ekki leitað verndar hjá stjórnvöldum í heimaríki og geti ekki flutt sig um set innanlands og fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta í heimaríki, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því ljóst að að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi og að hann hafi því rétt til alþjóðlegrar verndar hér á landi, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita kæranda alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðsamnings um stöðu flóttamanna.

Í ljósi þess að kærunefnd útlendingamála hefur fallist á aðalkröfu kæranda verða varakrafa og þrautavarakrafa kæranda ekki teknar til umfjöllunar í máli þessu. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on For-eigners. The Directorate is instructed to issue him residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

Áslaug Magnúsdóttir

Árni Helgason                                                                                        Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum