Hoppa yfir valmynd
27. október 1994 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 2/1994

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 2/1994

A
gegn
Strætisvögnum Reykjavíkur hf.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála fimmtudaginn 27. október 1994 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með bréfi dags. 2. febrúar 1994 óskaði A, fyrrverandi vagnstjóri hjá Strætisvögnum Kópavogs eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning í störf strætisvagnabílstjóra hjá Strætisvögnum Reykjavikur hf. (SVR hf.) síðla árs 1993 bryti gegn ákvæðum jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Umsókn A um starf vagnstjóra var hafnað.

Kærunefnd óskaði eftir upplýsingum frá SVR hf. m.a. um fjölda þeirra vagnstjóra sem ráðnir voru við stofnun fyrirtækisins síðla árs 1993, menntun þeirra og starfsreynslu, hvað ráðið hefði vali á umsækjendum, skipurit fyrirtækisins, skiptingu starfa eftir kyni og staðfestingu forsvarsmanna fyrirtækisins á þeim reglum sem giltu við val á umsækjendum. Óskað var eftir umsögn Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar um þær reglur sem gilda við val á umsækjendum í störf vagnstjóra hjá SVR hf. Svarbréf starfsmannafélagsins er dags. 10. október 1994. Á fund nefndarinnar mættu A og B, forstöðumaður umferðardeildar SVR hf.

A starfaði sem vagnstjóri hjá Strætisvögnum Kópavogs frá 1. júní 1975 þar til fyrirtækið var lagt niður 15. ágúst 1992. Hún fékk biðlaun frá Kópavogsbæ í eitt ár eða til 15. ágúst 1993. Í byrjun ársins 1993 lagði hún inn umsókn um starf vagnstjóra hjá SVR. Henni var þá sagt að ekkert starf væri laust en að umsókn hennar myndi liggja inni.

Vorið 1993 var A boðið starf við sumarafleysingar hjá SVR sem hún afþakkaði en ítrekaði að hún óskaði eftir því að umsókn hennar lægi áfram hjá fyrirtækinu. Um haustið hafði A samband við forsvarsmenn SVR. Var henni þá tjáð að ekkert starf væri laust. Vegna fyrirhugaðra breytinga á rekstrarfyrirkomulagi fyrirtækisins úr borgarfyrirtæki í hlutafélag og deilna um stéttarfélagsaðild hefði verið ákveðið að bíða með allar fastráðningar fram til 1. desember þegar SVR hf. tæki til starfa. Fram að þeim tíma yrðu starfsmenn einungis ráðnir tímabundið. Þeir einir yrðu ráðnir tímabundið þetta tímabil og fengju fastráðningu eftir 1. desember sem hefðu verið fastráðnir hjá fyrirtækinu áður svo og þeir sem hefðu starfað við sumarafleysingar hjá SVR. Þar sem hún hefði aldrei starfað við sumarafleysingar hjá fyrirtækinu, kæmi umsókn hennar ekki til álita.

A bendir á að haustið 1993 og aftur með tilkomu SVR hf. í lok ársins hafi verið ráðnir í störf vagnstjóra karlar með nokkurra mánaða starfsreynslu við afleysingar á sumrin. Hún hafi hins vegar 17 ára starfsreynslu og þar með reynslu af akstri í öllum veðrum og við margskonar aðstæður og færð. A kveðst sammála því að þeir sem voru fastir starfsmenn hjá SVR áður en það var gert að hlutafélagi, hafi átt forgang að störfum hjá nýja félaginu. Hún geti hins vegar ekki fallist á að heimilt hafi verið að taka fram fyrir hana karla með mun styttri starfsreynslu í þau störf sem þá voru laus.

A bendir á að í starfi sínu hjá SVK hafi hún aldrei valdið tjóni í akstri. Hún hafi sótt öll námskeið sem forsvarsmenn SVR hf. krefjast af starfsmönnum sínum. Henni sé ekki kunnugt um að forsvarsmenn SVR hf. hafi dregið í efa hæfni hennar sem bílstjóra, einungis borið því við að hún hafi ekki unnið við sumarafleysingar. Það skilyrði hljóti að víkja fyrir almennum hæfniskröfum. Þá skipti máli að konur séu mun færri í störfum vagnstjóra en karlar og hún viti ekki til þess að kona hafi fengið fastráðningu frá áramótum 1992/1993.

A upplýsir að ósk hennar um sumarafleysingar vorið 1994 hafi verið hafnað á þeirri forsendu að hún hafi kært fyrirtækið til kærunefndar jafnréttismála. B staðfesti það í samtali við kærunefnd og sagði að forsvarsmenn fyrirtækisins hefðu talið rétt að málinu lyki áður.

Forsvarsmenn SVR hf. mótmæla því að kynferði hafi ráðið við val á vagnstjórum haustið 1993. Til SVR hf. hafi verið ráðnir allir þeir vagnstjórar sem voru í föstu starfi hjá SVR. Að auki hafi 18 menn verið ráðnir í full störf til 1. september 1994 og 2 í hlutastörf. Um þá segir svo í bréfi B, forstöðumanns umferðardeildar til forstjóra fyrirtækisins dags. 22. febrúar 1994:

„Þessir vagnstjórar eiga það sammerkt að hafa starfað hjá SVR áður. Það er áhersluatriði hjá okkur og nánast skilyrði að menn hafi starfað hjá okkur við afleysingar áður en til ráðningar kemur. Þar kemur tvennt til, annars vegar erum við með þjálfun í akstri strætisvagna og námskeið í brunavörnum, skyndihjálp, mannlegum samskiptum (framkv. af sérfr.) svo og fyrirlestur frá lögreglu og umferðar- og tæknideild SVR hf. fyrir þá afleysara sem hefja störf hjá okkur. Hins vegar hafa þau kynni sem við fáum af starfi sumarafleysara reynst okkur betur heldur en meðmæli frá öðrum aðilum.“

Í bréfinu er tekið fram að konur sem starfað hafi við sumarafleysingar eigi sama rétt og karlar til áframhaldandi starfa hjá fyrirtækinu. Samkvæmt upplýsingum frá forsvarsmönnum SVR hf. eru vagnstjórar 136, þar af 8 konur.

B upplýsir að öllum umsóknum sé raðað í tímaröð. Fyrri störf eða sambærileg starfsreynsla hjá öðru fyrirtæki skipti engu við val á starfsmönnum. Þegar að umsókn komi sé umsækjanda fyrst boðin sumarafleysing. Við fastráðningu sé síðan lagt til grundvallar hve mörg sumur hann hafi starfað hjá fyrirtækinu.

Kærunefnd óskaði eftir staðfestingu yfirmanna SVR hf. á þessum starfsvenjum. Í bréfi C, aðstoðarforstjóra SVR hf. til kærunefndar jafnréttismála dags. 6. október 1994, kemur fram að engar skráðar reglur séu til um ráðningar vagnstjóra. Að jafnaði séu aðeins þeir fastráðnir sem gegnt hafi sumarafleysingastarfi 2-3 sumur eða eldri starfsmenn sem hafi reynst traustsins verðir.

B staðfestir að A hafi hvorki verið kynnt framangreind starfsvenja né henni gerð grein fyrir hvaða afleiðingar það hefði fyrir hana að hafna sumarafleysingastarfi vorið 1993.

NIÐURSTAÐA

Eitt af meginmarkmiðum jafnréttislaga, 1. 28/1991, er að tryggja konum jafnstöðu á við karla á vinnumarkaði. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur til þess að þeim tilgangi verði náð. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skuli atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu þeirra innan fyrirtækis síns eða stofnunar og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Skv. 6. gr. er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu eða skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Skv. 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hefur til að bera sem ráðinn var í starfið.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar er hæfni A sem vagnstjóra ekki dregin í efa. Ágreiningslaust er einnig að haustið 1993 voru ráðnir karlar með mun styttri feril sem vagnstjórar en hún. Þeir uppfylltu hins vegar það skilyrði SVR hf. að hafa starfað um lengri eða skemmri tíma við sumarafleysingar hjá fyrirtækinu.

Sú starfsvenja sem vísað er til virðist hvorki þekkt meðal starfsmanna SVR hf. né hjá stéttarfélagi þeirra og forsvarsmönnum fyrirtækisins ber ekki saman um hversu fortakslaus hún sé. A var hvorki skýrt frá þessari ráðningarreglu né henni gert ljóst að með því að hafna sumarafleysingastarfi vorið 1993 væri hún að útiloka sig frá því að fá starf hjá fyrirtækinu um haustið. Kærunefnd fellst ekki á að óskráð venja innan fyrirtækisins um að menn verði fyrst að starfa við sumarafleysingar áður en þeir komi til álita sem fastráðnir starfsmenn, víki til hliðar almennum sjónarmiðum um mat á hæfni og þeim skyldum atvinnurekanda skv. jafnréttislögum að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis eða stofnunar.

Fram hefur komið að A var synjað um sumarafleysingarstarf vorið 1994 vegna þess að hún vísaði máli sínu til kærunefndar jafnréttismála. Forstöðumaður umferðardeildar segir að það hafi verið gert að fyrirmælum C, aðstoðarforstjóra. Í jafnréttislögum er ekki ákvæði til verndar einstaklingum sem leita til kærunefndar jafnréttismála. Skv. tilskipun Evrópusambandsins frá 9. febrúar 1976 um framkvæmd meginreglunnar um jafnrétti kvenna og karla varðandi aðgang að störfum, starfsþjálfun og stöðuhækkun, sem og varðandi starfskjör, skuldbinda aðildarríkin sig til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til verndar launþegum gegn uppsögn úr starfi vegna kvörtunar innan fyrirtækis um misrétti vegna kynferðis eða málareksturs af sömu sökum, sbr. 7. gr. tilskipunarinnar. Hún er hluti af samningnum um hið evrópska efnahagssvæði sem tók gildi 1. janúar 1994 með lögum nr. 2/1993.

Kærunefnd telur þá ákvörðun forsvarsmanna SVR hf. að ráða ekki A í sumarafleysingastarf vegna þess að hún hafði vísað ágreiningi sínum við fyrirtækið til kærunefndar jafnréttismála ámælisverða og brot á 6. gr. og 1. mgr. 7. gr. jafnréttislaga, sbr. til hliðsjónar framangreint ákvæði 7. gr. jafnréttistilskipunar Evrópusambandsins frá 1976 og 1. gr. jafnréttislaga nr. 28/1991.

Samkvæmt framansögðu telur kærunefnd jafnréttismála að með því að ráða ekki A í starf vagnstjóra haustið 1993 og vorið 1994 hafi forsvarsmenn SVR hf. brotið gegn ákvæðum 6. gr. jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. 1. gr., 5. gr. og 1. mgr. 7. gr. sömu laga.

Þeim tilmælum er því beint til forsvarsmanna SVR hf. að fundin verði viðunandi lausn á málinu sem kærandi getur sætt sig við.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira