Hoppa yfir valmynd
27. október 1994 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 4/1994

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 4/1994

A
gegn
Strætisvögnum Reykjavíkur hf.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála fimmtudaginn 27. október 1994 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með bréfi dags. 24. febrúar 1994 óskaði A, vagnstjóri hjá Strætisvögnum Reykjavíkur hf. (hér eftir nefnt SVR h.f.) eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort synjun fyrirtækisins um að færa hana á nýja akstursleið bryti gegn ákvæðum jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd óskaði eftir afstöðu SVR hf til erindisins. Einnig var óskað upplýsinga um reglur um val á starfsmönnum þegar fleiri en einn starfsmaður sækir um breytingar á starfi svo og hvers vegna A var synjað um breytingu á akstursleið. Svarbréf fyrirtækisins er dags. 10. mars 1994. Lögð var fram yfirlýsing dags. 13. apríl 1994 frá núverandi og fyrrverandi trúnaðarmönnum um þær reglur sem gilt hafa við úthlutun leiða. Einnig voru lagðar fram tvær yfirlýsingar frá konum sem starfa eða starfað hafa sem vagnstjórar þar sem gagnrýnd er framkoma forsvarsmanna fyrirtækisins við konur, einkum á barneignaaldri. Í framhaldi af því lagði fyrirtækið fram yfirlýsingu frá vagnstjóra, konu, sem gengur í gagnstæða átt. Á fund kærunefndar mættu A og B, forstöðumaður umferðardeildar SVR hf.

Í nóvember 1993 voru auglýstar meðal starfsmanna lausar leiðir hjá SVR hf. þ. á. m. ný leið nr. 14. Leiðunum var úthlutað frá 1. desember s.á. Tveir fastir starfsmenn sóttu um og fengu leið 14. Að öðru leyti voru stöðurnar mannaðar nýráðnum starfsmönnum. A sótti ekki um. Í byrjun febrúar 1994 ræddi A þá ósk sína við B, forstöðumann umferðardeildar, að færast á leið 14. Hann óskaði eftir skriflegri umsókn og er hún dags. 14. febrúar 1994. Tveimur dögum síðar tilkynnti hann henni að umsókninni hefði verið hafnað. Hún óskaði eftir að fá þá niðurstöðu skriflega. Í bréfi forstöðumannsins sem dagsett er 23. febrúar segir:

„Beiðni þinni um flutning á leið 14. er hafnað. Þessi ákvörðun er tekin í samráði við varðstjóra A. vaktar.“

A segir það viðtekna venju innan fyrirtækisins að við úthlutun leiða til vagnstjóra sé starfsaldur látinn ráða þegar tveir eða fleiri starfsmenn sækjast eftir sömu leið. Því til stuðnings vísar hún til fyrrgreindrar yfirlýsingar núverandi og fyrrverandi trúnaðarmanna. Einnig sé það venja, þegar vagnstjóri óski eftir leiðarbreytingu, að sá sem hafi styttri starfsaldur víki og færist á aðra leið. Þessu hafi hún og aðrir vagnstjórar þurft að sæta. Hún sé með mun lengri starfsaldur en flestir þeirra vagnstjóra sem starfi á leið 14. Með því að óska eftir skriflegri umsókn og með því að hafna henni með vísun í samráð við varðstjóra en ekki á þeirri forsendu að ekkert starf hafi verið laust á þessari leið, hafi forstöðumaður umferðardeildar viðurkennt að leiðin væri opin. Hann hafi fullyrt við sig að henni hafi verið hafnað af því að hún væri ekki nógu harður bílstjóri og neitaði að taka aukavaktir. Sú afstaða sé í fullu samræmi við framkomu hans gagnvart konum sem þarna starfi en hún telji þær eiga erfitt uppdráttar innan fyrirtækisins. Því til stuðnings bendir hún á yfirlýsingar tveggja kvenna sem starfi eða hafa starfað sem vagnstjórar hjá SVR hf.

B mótmælir því að A hafi verið beitt misrétti vegna kynferðis. Jafnframt er mótmælt öllum fullyrðingum um lítilsvirðandi viðhorf til kvenna. Staðið hafi verið að ráðningum manna á leið 14 á fyllilega eðlilegan hátt. Þær venjur hafi myndast innan fyrirtækisins að þegar nýjar leiðir verði til og þegar fleiri en eitt starf losni á einhverri leið, séu þau störf auglýst meðal vagnstjóra. Þetta hafi verið gert í nóvember 1993. Algengast sé að starfsaldur sé lagður til grundvallar. Þegar einungis eitt starf losni sé venjan að auglýsa það ekki. Þess séu dæmi þegar svo standi á að vagnstjóri með mun lengri starfsaldur óski eftir færslu og við þeirri beiðni sé orðið. Þetta eigi þó einungis við sé beiðnin sett fram innan eins eða tveggja mánaða frá því að starfsmaður hóf starf á tiltekinni leið. Eftir það verði starfsmaðurinn að geta treyst því að á þeirri leið muni hann starfa. Í því tilviki sem hér sé til umfjöllunar hafi störfin verið auglýst og í þau ráðið í samræmi við það. A hafi ekki verið á meðal umsækjenda og því ekki komið til álita. Hann hafi beðið um skriflega umsókn frá henni þar sem hann vilji hafa reglu á hlutunum en það hafi ekki falið í sér vilyrði fyrir tilfærslu í starfi.

Í september sl. sendi kærunefnd forsvarmönnum SVR hf. til umsagnar fyrrgreinda yfirlýsingu núverandi og fyrrverandi trúnaðarmanna, dags. 13. apríl 1994. Eftir það lét B festa upp á öllum endastöðvum SVR hf. tilkynningu til vagnstjóra. Yfirlýsing trúnaðarmanna var hengd upp samhliða. Í tilkynningunni til vagnstjóra segir:

„Ástæða þessa bréfs til ykkar er afrit af bréfi sem mér barst frá kærunefnd jafnréttismála 12.09/94 þar sem fulltrúar skrifa fyrir hönd vagnstjóra undir yfirlýsingu þar sem þeir telja að brotið sé á viðkomandi vagnstjóra (sjá meðf. bréf).

Ef vagnstjórar eru sammála yfirlýsingu fulltrúanna fæ ég ekki séð að ástæða sé til auglýsa leiðir sem losna þar sem menn hafa þá ekki lengur tryggingu fyrir því að orð skuli standa heldur muni geðþóttaákvarðanir hverju sinni ráða þar um.“

A fullyrðir að tilkynningin hafi verið birt til þess eins að egna samstarfsmenn upp á móti henni og hegna henni fyrir að hafa leitað til kærunefndar jafnréttismála. Einnig fullyrðir hún að B hafi lagt hana í einelti á undanförnum mánuðum og hefur tilgreint nokkur dæmi því til stuðnings.

NIÐURSTAÐA

Samkvæmt 1. gr. jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991, er tilgangur þeirra að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Lögin leggja sérstaka áherslu á stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Ýmsar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur í því skyni.

Sem dæmi má nefna 5. gr. laganna sem kveður á um að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skuli atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.

Samkvæmt 6. gr. er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um stöðubreytingar. Telji einhver rétt á sér brotinn samkvæmt ákvæðum 6. gr. og vísar máli sínu til kærunefndar jafnréttismála, skal atvinnurekandi sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

Það er mat kærunefndar að fella megi breytingar í starfi á borð við úthlutun leiða eða færslu starfsmanna á aðrar leiðir undir ákvæði framangreindrar 6. gr. jafnréttislaga. Því verði að telja að skráðar og óskráðar starfsreglur fyrirtækja eigi að tryggja starfsfólki af báðum kynjum jafnan rétt og jafna möguleika. Deilt er um hversu víðtæk sú regla SVR hf. er að starfsmenn með lengri starfsaldur geti á fyrstu mánuðum eftir að leið hefur verið úthlutuð starfsmanni með styttri starfsaldur hjá fyrirtækinu, gert kröfu til þess að viðkomandi starfsmaður víki Telur A að reglan taki til leiðabreytinga hvort sem störfin eru auglýst eða ekki. B segir þess dæmi að starfsmenn með styttri starfsaldur hafi vikið fyrir starfsmönnum með lengri starfsaldur en einungis í þeim tilvikum þar sem laus störf á leið voru ekki auglýst Bæði eru sammála um að beiðni starfsmannsins verði að koma fram fljótlega eftir að starfsmaður var settur á umrædda leið.

Hér er um að ræða óskráða reglu innan fyrirtækisins. Þegar A óskaði eftir tilfærslu, var henni hvorki skýrt frá því hversu víðtæk reglan væri né að ósk hennar ætti ekki við fordæmi að styðjast Beiðni B um skriflega umsókn og svarbréf hans við henni var hins vegar til þess fallin að styðja túlkun A á hinni óskráðu reglu.

Yfirlýsing núverandi og fyrrverandi trúnaðarmanna frá 13. apríl sl. styður þá fullyrðingu A að vinnureglur séu fyrir hendi Hins vegar kemur þar fram að venjan eða starfsreglan feli í sér að starfsaldur ráði við úthlutun leiða þegar fleiri en einn starfsmaður sækir um leið sem auglýst hefur verið. Í yfirlýsingunni er ekki tekin afstaða til úthlutunar leiða sem ekki hafa verið auglýstar. Sú fullyrðing A að starfsreglan taki til leiðaúthlutunar hvort heldur leið hefur verið auglýst laus eða ekki, styðst því ekki við gögn málsins. Þessi misskilningur og það ósamræmi sem er á milli yfirmanns og starfsmanns skýrist af því að starfsreglur SVR hf. eru óskráðar óljósar og því til þess fallnar að valda misskilningi hjá starfsmönnum. Nauðsynlegt er að starfsmenn þekki þær reglur sem unnið er eftir innan fyrirtækja og varða þá. Skýrar og sýnilegar reglur eru forsenda þess að starfsmenn geti tryggt réttarstöðu sína og leitað réttar síns, telji þeir á sér brotið. Forstöðumanni umferðardeildar bar að útskýra fyrir A þessar reglur þegar hún óskaði flutnings. Ósk yfirmanns um skriflega umsókn án frekari skýringa var til þess fallin að vekja honum óraunhæfar væntingar. Nauðsynlegt er að stjórn SVR hf. móti skírar reglur fyrir starfsmannahald fyrirtækisins og þær taki m.a. til mannaráðninga og rétt manna til að færast til í starfi.

Af því sem fram er komið í málinu verður þó ekki ráðið að A hafi verið beitt misrétti vegna kynferðis þegar henni var synjað um breytingu á akstursleið. Niðurstaða kærunefndar jafnréttismála er því að forsvarsmenn SVR hf. hafi í þessu tilviki ekki brotið gegn lögum nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira