Hoppa yfir valmynd
7. apríl 1995 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 10/1994

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 10/1994

A
gegn
Sýslumanninum í Keflavík

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 7. apríl 1995 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTTR

Með bréfi dagsettu 21. ágúst 1994 fór A, lögreglumaður, þess á leit við kærunefnd jafnréttismála, að hún kannaði og tæki afstöðu til þess, hvort synjun Sýslumannsins í Keflavík á umsóknum hennar um fastráðningu, annars vegar í stöðu lögreglumanns og hins vegar í stöðu rannsóknarlögreglumanns við embættið, bryti í bága við 2. lið 6. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þá óskaði hún einnig eftir áliti nefndarinnar á því hvort jafnréttislög hefðu verið brotin þegar hún leitaði eftir afleysingarstöðu lögreglumanns við embættið haustið 1993 en var synjað og boðið starf við ræstingar samtímis því sem karlkyns lögreglumanni var boðin afleysingarstaða.

Sýslumanninum í Keflavík var kynnt erindið og óskaði kærunefnd upplýsinga um eftirfarandi:

  1. Fjölda umsækjenda um stöður tveggja lögreglumanna, sem í var ráðið í júní 1994, menntun og starfsreynslu þeirra sem ráðnir voru og hvaða sérstaka hæfileika umfram A þeir höfðu til að bera, sbr. 8. gr. 1. 28/1991.
  2. Fjölda umsækjenda um stöðu rannsóknarlögreglumanns sem í var ráðið í júlí 1994, menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var og hvaða sérstöku hæfileika umfram A hann hafði til að bera,
    sbr. 8. gr. l. 28/1991.
  3. Afstöðu embættisins til þeirra fullyrðinga að henni hafi boðist ræstingarstarf hjá embættinu þegar starfstíma hennar og annars lögreglumanns, karlkyns, lauk þann l. okt. 1993 en samstarfsmanninum áframhaldandi tímabundin ráðning.
  4. Fjölda lögreglumanna/rannsóknarlögreglumanna hjá embættinu og skiptingu þeirra eftir kyni.

Kærunefnd óskaði upplýsinga frá Landssambandi lögreglumanna og Dómsmálaráðuneytinu um það hvort rétt væri að hlutastörf tíðkuðust ekki hjá lögreglunni og væri svo, á hverju sú ákvörðun byggðist Einnig leitaði kærunefnd upplýsinga hjá Dómsmálaráðuneytinu um hvort óheimilt væri að senda menn í Lögregluskóla ríkisins nema laus væri staða hjá viðkomandi embætti. Svör bárust frá báðum.

Sýslumaður svaraði erindi kærunefndar með bréfi dags. 19. sept. 1994. Það var kynnt A, sem sendi greinargerð til nefndarinnar hinn 8. okt. 1994. Hinn 26. jan. 1995 mættu á fund nefndarinnar kærandi málsins, A og B, yfirlögregluþjónn hjá Sýslumanninum í Keflavík.

Kæruatriði í máli þessu eru þrjú:

  1. Ráðning í stöður tveggja lögreglumanna.
  2. Ráðning í stöðu rannsóknarlögreglumanns.
  3. Tímabundin ráðning í afleysingarstöðu lögreglumanns.

KÆRUATRIÐI 1

Hinn 10. júní 1994 voru auglýst í Lögbirtingarblaðinu störf tveggja lögreglumanna við embætti Sýslumannsins í Keflavík. Fjórir sóttu um stöðurnar, kærandi þessa máls og þrír karlkyns umsækjendur. Tveir þeirra voru ráðnir, C og D.

Málavöxtum lýsir kærandi svo: Hún kveðst hafa hafið störf hjá lögreglunni í Keflavík 1. október 1986, lokið námi frá Lögregluskóla ríkisins 12. maí 1989 og verið fastráðin 1. júlí sama ár. Þann 1. nóvember 1991 hafi hún sagt stöðu sinni lausri en eftir það hafi hún tekið einstakar vaktir eftir þörfum embættisins. Hún hafi unnið við afleysingar um þriggja mánaða skeið árið 1992, frá 15. mars 1993 til 30. september 1993 og frá 1. janúar 1994 og hafi því verið í starfi er stöðurnar voru auglýstar. A kveðst hafa verið í barnsburðarleyfi til mars 1991 en hafa sagt stöðu sinni lausri þá um haustið þar sem hún hafi ekki getað unnið fullt starf lögreglumanns með lítið barn. Hún hafi hins vegar leitað eftir hlutastarfi en verið synjað á þeirri forsendu að hlutastörf tíðkuðust ekki hjá lögreglunni. Þá hafi hún kynnt sér hvort til greina kæmi að fá leyfi frá störfum en komist að raun um að það væri mjög erfitt. A kveðst ítrekað hafa látið í ljós ósk um að fá fasta stöðu á ný, fyrst vorið 1992 munnlega, þar sem ekki hafi tíðkast að sækja skriflega um fastráðningu. Hún hafi hins vegar sótt um skriflega árið 1994 og ítrekað leitað svara við því hvers vegna hún fengi ekki fasta stöðu en ekki fengið viðunandi skýringar. Kærandi fullyrðir að ekki hafi verið fundið að störfum hennar hjá lögreglunni og sé því ekki unnt að sjá neina aðra skýringu en þá að henni hafi verið hafnað vegna kynferðis þegar haft sé í huga að karlmenn með mun skemmri starfsaldur hafi verið ráðnir í stöðurnar. Þá segir A, að óþarft hafi verið að senda þá D og C í Lögregluskóla ríkisins haustið 1992 þar sem þá hafi verið til staðar lögreglumenn sem lokið höfðu námi og vildu fastráðningu við embættið.

Í svari Sýslumannsins í Keflavík kemur fram að sumarið 1992 hafi þeir C og D verið ráðnir til reynslu við embættið en báðir hafi starfað þar við afleysingar. Í lok sumarsins 1992 hafi verið lausar tvær fastar stöður lögreglumanna. Þeir hafi því verið sendir í Lögregluskóla ríkisins haustið 1992 og stöðunum haldið opnum meðan þeir lykju skólagöngu sinni. Að henni lokinni hafi stöðurnar verið auglýstar og þeir ráðnir. Í svari sýslumanns kemur einnig fram að starfsaldur A sé tæplega 76 mánuðir, starfsaldur C 44 mánuðir og D 36 mánuðir. Þá kemur fram að A hafi verið eina lögreglukonan við embættið þegar ráðið var í stöðurnar. Í bréfi sínu svarar sýslumaður ekki spurningu kærunefndar um hvaða sérstöku hæfileika umfram A þeir hafi, sem ráðnir voru.

Á fundi með kærunefnd upplýsti B, yfirlögregluþjónn, að ekki mætti senda menn í lögregluskólann nema laus væri staða við það lögreglustjóraembætti sem greiddi laun meðan á námi stæði. Hann sagði að umræddar stöður hefðu ekki verið auglýstar sumarið 1992 þegar C og D voru sendir í lögregluskólann þar sem embættið vildi tryggja eðlilega endurnýjun á fólki. Aðspurður hvort auglýsingin í júní 1994 hefði þá verið til málamynda, játti hann því. B staðfesti jafnframt að hlutastörf fengjust ekki hjá lögreglunni. Honum væri ekki kunnugt um á hvaða heimild sú starfsregla væri byggð en teldi vinnuna þess eðlis að hlutastörf hentuðu ekki.

Í bréfi Dómsmálaráðuneytisins dags. 6. mars 1995 kemur fram að um veitingu lögreglustarfs og nám við Lögregluskóla ríkisins er mælt fyrir í lögum um lögreglumenn nr. 56/1972 með síðari breytingum og reglugerð nr. 660/1981 með síðari breytingum. Skv. 2. mgr. 5. gr. laganna má engan ráða eða skipa lögreglumann nema hann hafi lokið námi í Lögregluskóla ríkisins. Heimilt er að lausráða menn meðan á námi þeirra stendur. Samkvæmt kjarasamningi lögreglumanna skulu lögreglumenn, sem stunda nám við Lögregluskóla ríkisins halda föstum launum, vaktaálagi o.s.frv. meðan á námi þeirra stendur.

Í bréfi ráðuneytisins segir ennfremur að það byggist hvorki á lögum, stjórnvaldsfyrirmælum né kjarasamningi að ekki sé völ á hlutastörfum innan lögreglunnar, hér sé um langvarandi framkvæmd að ræða.

Í bréfi Landssambands lögreglumanna dagsettu 2. mars 1995 er upplýst að hlutastörf við embætti Lögreglustjórans í Reykjavík hafi tíðkast um árabil en aðeins sem sveigjanleg starfslok fyrir eldri starfsmenn. Landssamband lögreglumanna kveðst hins vegar ekkert sjá því til fyrirstöðu að lögreglumenn sinni hlutastörfum þar sem því verði við komið.

Dómsmálaráðuneytið hefur sent kærunefnd afrit af bréfi sem ráðuneytið ritaði öllum lögreglustjórum þar sem óskað var upplýsinga um hvort ráðnir hefðu verið lögreglumenn £ hlutastörf og þá hve margir, á hvaða tímabili og hvort um hefði verið að ræða konur eða karla. Hefði svo ekki verið var óskað upplýsinga um á hverju það byggðist. Í svörum frá 21 lögreglustjóra sem bárust ráðuneytinu kom fram að hlutastörf tíðkuðust almennt ekki innan lögreglunnar, hjá Lögreglustjóranum í Reykjavík tíðkist þó hlutastörf eldri lögregluþjóna og Sýslumaðurinn í Vík í Mýrdal hefði einstaka sinnum ráðið í hlutastarf til sumarafleysinga þegar ekki hefði tekist að fá mann í fullt starf og þá karlmenn. Í bréfi sínu vekur ráðuneytið athygli allra lögreglustjóra á ákvæði 25. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38/1954 en þar segi: „Konur, sem veita heimili forstöðu, eiga rétt til þess að vinna tvo þriðju hluta ákveðins vinnutíma gegn samsvarandi frádrætti í launum, enda megi slíkt verða að skaðlausu.“

NIÐURSTAÐA

Eitt af meginmarkmiðum jafnréttislaga nr. 28/1991 er að tryggja konum jafnstöðu á við karla á vinnumarkaði. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur í því skyni að ná þessu markmiði. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skuli atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu þeirra innan fyrirtækis síns eða stofnunar og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Skv. 6. gr. er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu eða skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Skv. 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hefur til að bera sem ráðinn var í starfið.

Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvelli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. laganna er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Á því verður að byggja sem meginreglu í íslenskri stjórnsýslu að ráða beri þann hæfasta sem um opinbert starf eða stöðu sækir, sbr. til hliðsjónar ákvæði 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Séu umsækjendur af báðum kynjum og taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. gr. og 5. gr. jafnréttislaga að láta það kynið ganga fyrir, sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Er þessi forgangsregla grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu karla og kvenna verði náð bæði hjá hinu opinbera og á hinum almenna vinnumarkaði.

Skv. 5. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38/1954 skal auglýsa lausar stöður í Lögbirtingarblaði og samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar skal ráða þann sem hæfastur þykir og skal þá tekið tilliti til menntunar og starfsreynslu auk annarra sérstakra eiginleika, sem starfið krefst.

Í því máli sem hér er til umfjöllunar hafa þau A, C og D öll lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins. Auk þess er D lærður húsasmiður og C stundar nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Fram hefur komið að starfsreynsla A er tæplega 6 1/2 ár, starfsreynsla C rúmlega 3 1/2 ár og starfsreynsla D 3 ár.

Af hálfu sýslumanns hefur því verið haldið fram að ráðningu þeirra C og D megi rekja til þess að sumarið 1992 þegar tvær stöður voru lausar við embættið hafi engum skólagengnum mönnum verið til að dreifa. Sú ákvörðun hafi því verið tekin að senda þá í lögregluskólann og þar með hafi verið búið að ráða þá. A hefur hins vegar haldið því fram að hún hafi verið tilbúin að fara í fasta stöðu strax þá um sumarið en stöðurnar hafi ekki verið auglýstar þar sem þá þegar hafi verið ákveðið að veita þeim C og D þær þrátt fyrir menntun hennar og starfsaldur.

Þegar Sýslumaðurinn í Keflavík auglýsti umræddar stöður og réð þá C og D taldi hann sig vera að framfylgja reglu um að laus stöðugildi yrðu að vera að baki þeim er sendir væru í Lögregluskóla ríkisins og því hefði borið að ráða þá. Þessi framkvæmd á sér hins vegar hvorki stoð í lögum né stjórnvaldsfyrirmælum og getur ekki gengið framar þeirri reglu að ráða skuli hæfasta umsækjandann um starf sem auglýst hefur verið.

Af hálfu embættis Sýslumannsins í Keflavík hefur hæfni A til að gegna starfi lögreglumanns ekki verið dregin í efa. Óumdeilt er að starfsaldur hennar er umtalsvert lengri en þeirra tveggja karla er stöðurnar hlutu. Með tilliti til ákvæða jafnréttislaga hefði átt að ráða konu í starfið þar sem engin kona var fastráðinn lögreglumaður við embættið. Ekki hefur verið upplýst hvaða sérstöku hæfileika umfram A þeir C og D höfðu. Stöðurnar voru ekki auglýstar 1992 svo sem bar að gera skv. 5. gr. 1. 38/1954. Eigi raunverulegt val að fara fram áður en menn fara í lögregluskólann er nauðsynlegt að auglýsa lausar stöður og ganga þannig úr skugga um hvort einhver hæfur lögreglumaður sæki um. En jafnvel þótt enginn hæfur lögreglumaður hefði verið til staðar haustið 1992 svo sem fullyrt er breytir það engu um hvernig ráða átti í stöðurnar þegar þær voru auglýstar í júní 1994. Þá var auglýst laus staða lögreglumanns og bar sýslumanni þá að fara eftir grunnsjónarmiðum jafnréttislaga.

Með vísan til menntunar og starfsreynslu A og hlutfalls kynja í störfum lögreglumanna við embætti Sýslumannsins í Keflavík telur kærunefnd jafnréttismála að embættið hafi með ráðningu þeirra C og D brotið gegn 2. tl. 6. gr. jafnréttislaga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. 

KÆRUATRIÐI 2

Hinn 21. júlí 1994 auglýsti Sýslumaðurinn í Keflavík lausa stöðu rannsóknarlögreglumanns við embættið. Umsækjendur um starfið voru fimmtán. Í starfið var ráðinn E, lögreglumaður við embætti Sýslumannsins í Keflavík. Auk prófs frá Lögregluskóla ríkisins hefur E tekið stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Starfsaldur E hjá lögreglunni var tæp 8 ár. Starfsaldur A var tæplega 6 1/2 ár og hefur hún lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins.

Af hálfu embættis Sýslumannsins í Keflavík er því haldið fram að E hafi verið ráðinn þar sem hann hafi haft menntun umfram aðra umsækjendur auk þess sem hann hafi verið talinn hæfasti umsækjandinn. 

NIÐURSTAÐA

Kærunefnd fellst á rök sýslumannsembættisins og telur að ákvæði jafnréttislaga nr. 28/1991 hafi ekki verið brotin í þessu tilviki.

KÆRUATRIÐI 3

Þá hefur kærandi óskað eftir því við kærunefnd að hún taki afstöðu til þess hvort jafnréttislög hafi verið brotin haustið 1993 er hún og vinnufélagi hennar, F, óskuðu bæði eftir að komast í lausa afleysingarstöðu lögreglumanns við embættið og honum veitt staðan en henni boðið afleysingarstarf við ræstingar. Hafi hún haft lengri starfsaldur en hann og því verði ekki annað séð en að kynferði hafi hér ráðið enda hafi yfirmenn hennar aðspurðir viðurkennt að þeir hefðu ekki boðið karlinum starf við ræstingar.

Í gögnum málsins kemur fram að tímabundinni ráðningu A hafi lokið 30. sept. 1993 en F 31. okt. sama ár. Þá var starfsaldur hennar tæp 6 ár en hans rúmlega 4 1/2 ár.

Af hálfu sýslumannsembættisins er því haldið fram að engin afleysingarstaða lögreglumanns hafi verið laus þegar ráðningartíma A lauk. Sú skýring er að mati kærunefndar ekki fullnægjandi röksemd fyrir því að bjóða A ekki afleysingarstarfið sem losnaði þegar ráðningartíma F lauk 31. okt. 1993 og hann gekk síðan inn.

NIÐURSTAÐA

Með vísan til þess er segir í niðurstöðu um kæruatriði 1 um markmið og tilgang jafnréttislaga og starfsaldurs þeirra F og A verður því að telja, að með því hafi verið brotið gegn 2. tl. 6. gr. jafnréttislaga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Þeim tilmælum er beint til Sýslumannsins í Keflavík að fundin verði lausn á málinu, sem kærandi getur sætt sig við.

Sigurður Tómas Magnússon vék sæti í máli þessu og tók varamaður hans, Andri Árnason, sæti í nefndinni.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Andri Árnason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira