Hoppa yfir valmynd
5. mars 1993 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 2/1993

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 2/1993:

A
gegn
Kvenfélagi Bessastaðahrepps.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 5. mars 1993 var samþykkt eftirfarandi niðurstaða í máli þessu:

 

Með bréfi dags. 28. janúar 1993 óskaði A eftir því við Jafnréttisráð að ráðið tæki afstöðu til þess hvort að ákvæði laga Kvenfélags Bessastaðahrepps um aðild að félaginu bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í 4. gr. 1. mgr. laganna segir: „Rétt til inngöngu í félagið eiga allar konur ....“ Í málinu liggja fyrir upplýsingar um að umsókn A um aðild að félaginu hafi verið synjað með þeim rökum að félagið væri opið konum, ekki körlum.

Formaður Jafnréttisráðs ákvað að erindinu skyldi vísað til kærunefndar jafnréttismála. Kærunefnd jafnréttismála hefur kynnt sér gögn málsins og samþykkt svohljóðandi niðurstöðu:

Hlutverk kærunefndar jafnréttismála er að fjalla um meint brot á ákvæðum 2.-13. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. 20. gr. þeirra. Í þeim ákvæðum er ekki fjallað um aðild að félagasamtökum. Þó segir í 12. gr, að í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka skuli, þar sem því verði við komið, sitja sem næst jafnmargar konur og karlar og skuli ávallt á það minnt þegar óskað er tilnefningar í hlutaðeigandi stjórnir, nefndir og ráð.

Í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, 73. gr. er mönnum tryggður réttur til að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi án þess að sækja þurfi um leyfi til þess. Í stjórnarskránni er ekkert ákvæði um jafnrétti kynja.

Kærunefnd jafnréttismála telur að reglur kvenfélags Bessastaðahrepps um aðild að félaginu brjóti ekki í bága við ákvæði laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Hins vegar geta slíkar reglur verið andstæðar því markmiði laganna að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna, sbr. 1. gr. laganna. Um slík stefnumótandi mál fjallar Jafnréttisráð en ekki kærunefnd jafnréttismála. Erindi A er því vísað til Jafnréttisráðs.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Sigurður Helgi Guðjónsson
Margrét Heinreksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira