Hoppa yfir valmynd
28. janúar 1994 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 4/1993

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 4/1993

A
gegn
Þjóðleikhúsinu.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 28. janúar 1994 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með bréfi dags. 30. mars 1993 óskaði A, skólastjóri, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning í stöðu tónlistarstjóra Þjóðleikhússins haustið 1992 bryti gegn ákvæðum jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kæranda var sagt upp og lét af starfi tónlistarstjóra þann 1. september 1992.

Kærunefnd aflaði skriflegra upplýsinga frá þjóðleikhússtjóra um aðdraganda og ástæður uppsagnar kæranda og ráðningu í stöðu tónlistarstjóra. Kærandi og þjóðleikhússtjóri lögðu fram ýmiss gögn, s.s. álitsgerðir nokkurra lögfræðinga um lögmæti þeirrar ákvörðunar þjóðleikhússtjóra að segja upp nokkrum starfsmönnum Þjóðleikhússins í febrúar 1991, þ.á.m. kæranda; yfirlit yfir stöðu kvenna í störfum hjá Þjóðleikhúsinu og upplýsingar um menntun og starfsreynslu kæranda og þess sem var ráðinn. Á fund nefndarinnar mættu kærandi, A og C, þjóðleikhússtjóri.

Samkvæmt lögum nr. 58/1978 um Þjóðleikhús er þjóðleikhússtjóri ráðinn til fjögurra ára í senn. Hann skal ráðinn frá 1. janúar til að skipuleggja næsta leikár og jafnframt til að eiga þess kost að fylgjast með starfsemi leikhússins til loka þess leikárs. Leikárið er frá 1. september til 31. águst samkvæmt sömu lögum. Nýráðinn þjóðleikhússtjóri skal því starfa samhliða fráfarandi þjóðleikhússtjóra frá áramótum til loka leikársins. Hinn 1. janúar 1991 tók til starfa nýr þjóðleikhússtjóri. Fljótlega eftir að hann hóf störf, ákvað hann að segja upp nokkrum starfsmönnum, þ.á.m. kæranda þessa máls, og skyldu uppsagnirnar taka gildi þann 1. september 1991. Deilur urðu um lögmæti þessara uppsagna sem lyktaði með því að þær voru afturkallaðar. Með bréfi dags. 6. febrúar 1992 var kæranda enn á ný sagt upp störfum frá og með 1. september það ár. Kærandi hafði þá ekki sinnt neinum verkefnum við Þjóðleikhúsið á leikárinu. Ágreiningur er um hvort það hafi verið vegna þess að hún hafi neitað að starfa með þjóðleikhússtjóra eða hvort hann hafi ekki falið henni nein verkefni

B var ráðinn til Þjóðleikhússins haustið 1991 en hafði áður verið ráðinn til tiltekinna verkefna í nokkra mánuði. Staða tónlistarstjóra var ekki auglýst haustið 1992 þegar kærandi lét formlega af starfi. Samkvæmt upplýsingum þjóðleikhússtjóra hefði slíkt einungis verið að nafninu til, þar sem B hafði þegar hafið störf.

Í málinu liggja fyrir upplýsingar um menntun og starfsreynslu og kæranda og þess sem ráðinn var. A lauk einleikara- og kennaraprófi frá Tónlistarháskólanum í Leipzig árið 1967. Sama ár hóf hún störf sem píanókennari við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Samhliða kennslu var hún m.a. píanóleikari með kórum og einsöngvurum, bæði innlendum og erlendum. Hún var um tíma píanóleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur leikið einleik með henni. Árið 1969 var hún lausráðinn píanóleikari við Þjóðleikhúsið og fastráðin sem undirleikari og kórstjóri frá janúar 1983. Það starf ber nú heitið tónlistarstjóri. A hefur sótt ýmiss námskeið eftir að námi hennar lauk, m.a. verið gestur við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn til að kynna sér undirbúning og æfingaferil óperusýninga. Í starfi sínu sem tónlistarstjóri Þjóðleikhússins hefur hún séð um æfingastjórn tónlistar í hinum ýmsu óperum, söngleikjum og leikritum, leikið í hljómsveitum, verið aðstoðarhljómsveitarstjóri í óperum og stjórnað allt að 17 manna hljómsveitum í söngleikjum.

B lauk BA prófi frá Brandeis University í Massachusetts, í Bandaríkjunum vorið 1979 í eðlisfræði og tónlist og var við doktorsnám í tónvísindum við Uppsalaháskóla í Svíþjóð í eitt ár. Hann hefur unnið við hljómsveitarstjórn, útsetningar, píanóleik, kórstjórn og sem tónlistarráðunautur hjá ýmsum áhugamannaleikhópum frá árinu 1974 og hjá Leikfélagi Reykjavíkur frá árinu 1983. Eins og þegar er nefnt hóf hann störf hjá Þjóðleikhúsinu á árinu 1991.

A leggur áherslu á að í starf það sem hún áður gegndi hafi verið ráðinn karl með minni menntun og starfsreynslu en hún. Ákvarðanir þjóðleikhússtjóra um að segja henni upp störfum og ráða B hafi verið samtengdar. A leggur áherslu á að hún óski eftir afstöðu nefndarinnar til þess hvort ráðningin hafi verið andstæð ákvæðum jafnréttislaga. Þjóðleikhússtjóri hafi haft heimild til að segja henni upp störfum á árinu 1992 en öðru máli hljóti að gegna um þá ákvörðun hans að ráða í stöðuna minna hæfan karl. A vísar á bug þeirri fullyrðingu að ráðningin sé hluti af listrænni stefnumótun nýs þjóðleikhússtjóra. Gera verði skýran greinarmun á starfi tónlistarstjóra og starfi tónlistarráðunauta. Samkvæmt 10. gr. laga um Þjóðleikhús. l. nr. 58/1978, skuli starfa við Þjóðleikhúsið tónlistarráðunautur og sé það starf þriðjungur úr fullri stöðu. Þjóðleikhússtjóri ræður tónlistarráðunaut til jafnlangs tíma og hann sjálfur er ráðinn. Þessari stöðu hafi D gegnt í tíð fyrri þjóðleikhússtjóra, jafnframt setu í þjóðleikhúsráði og hafi það starf verið starfi tónlistarstjóra óviðkomandi.

Þjóðleikhússtjóri leggur áherslu á að hvorki uppsögn kæranda né ákvörðun um ráðningu nýs tónlistarstjóra tengist á nokkurn hátt kynferði þeirra einstaklinga er málið varði. Uppsögn kæranda hafi verið hluti af víðtækum breytingum innan leikhússins. Alls hafi sex leikurum, tveimur leikstjórum og kæranda verið sagt upp störfum. Í bréfi þjóðleikhússtjóra til kærunefndar, dags. 9. júní 1993, segir orðrétt: „Í lögum um Þjóðleikhús ( 9. og 11. gr. ) er kveðið svo á um, að þjóðleikhússtjóri beri ábyrgð á rekstri leikhússins, bæði listrænum og fjárhagslegum. Hann ræður leikara, söngvara, listdansara og aðra listamenn leikhússins svo og aðra starfsmenn þess. Honum ber einnig að hafa forystu um að móta listræna stefnu leikhússins. Listræn stefnumótun í leikhúsi felst einkum í tveimur meginþáttum: Hvaða verkefni eru valin til flutnings og hverjir veljast til þess að vinna þessi verkefni. Til þess að leikhússtjóri geti mótað og framfylgt hinni listrænu stefnu, hefur hann því lögum samkvæmt svigrúm til þess að ráða með sér til starfa hverju sinni þá listamenn, sem hann helst telur vænlega til þess að taka þátt í umræddri stefnumótun. … Er ég tók við starfi sem þjóðleikhússtjóri hafði ég hug á að gera ýmsar skipulagsbreytingar og hagræðingar m.a. á starfi því, sem með tímanum var farið að kalla „tónlistarstjóra“og starfi „tónlistarráðunautar“. Skv. 10. gr. laga um Þjóðleikhús ræður þjóðleikhússtjóri umræddan tónlistarráðunaut til jafnlangs tíma og hann sjálfur er ráðinn, þ.e. ráðning hans fylgir ráðningartíma sérhvers nýs þjóðleikhússtjóra. Má segja að þetta lagaákvæði sé ítrekun á því, sem vikið var að hér að framan, hversu mikilvægt það er í hinni listrænu stefnumótun, sem leikhússtjóri er ábyrgur fyrir, að með honum starfi listamenn, sem eru samstíga í listrænum viðhorfum og því skapandi starfi, sem er starfsgrundvöllur leikhússins.“

Þjóðleikhússtjóri heldur því fram að ráðning B í stöðu tónlistarstjóra Þjóðleikhússins hafi verið hluti af framangreindri stefnumótun, enginn annar en hann hafi komið til álita. Menntun hans og starfsreynsla sé víðtækari en A og falli betur að hugmyndum sínum um starfssvið tónlistarstjóra. B geti útsett tónlist og samið þegar þess gerist þörf og æft leikara og söngvara í hlutverk, auk þess að sinna hefðbundnum störfum tónlistarstjóra. Áður hafi verið ráðið fólk utan leikhússins til ýmissa þeirra verka sem hann sinni nú.

NIÐURSTAÐA

Samkvæmt 1. gr. jafnréttislaga er tilgangur þeirra að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Vegna þessa eru lagðar ýmsar skyldur á atvinnurekendur og má þar nefna ákvæði 5. gr. laganna er kveður á um að atvinnurekendur skuli vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.

Samkvæmt 6. gr. sömu laga er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu eða skipun í starf. Samkvæmt 7. gr. skulu störf standa opin jafnt konum sem körlum.

Ráðið var í starf tónlistarstjóra án auglýsingar. Þar sem kærandi hafði gegnt starfinu til fjölda ára en verið sagt upp, telur kærunefnd rétt að taka afstöðu til þess hvort ráðningin brjóti í bága við ákvæði jafnréttislaga enda var kæranda ekki unnt að sækja um starfið.

Við mat á því hvenær ráðning telst brot á ákvæðum jafnréttislaga ber að hafa til hliðsjónar þær leiðbeiningar sem fram koma í 8. gr. jafnréttislaga, þ.e. menntun umsækjenda, starfsreynsla, ásamt upplýsingum um hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn er í starfið. Meginreglan er að ráða skuli þann umsækjenda sem hæfastur telst. Ef báðir umsækjendur teljast jafn hæfir, ber að ráða konuna ef karlar eru í meirihluta í starfsgreininni eða í sambærilegum störfum innan viðkomandi stofnunar, sbr. 1. gr. og 5. gr. laganna.

Samkvæmt 11. gr. laga um Þjóðleikhús, 1. nr. 58/1978, ber þjóðleikhússtjóri ábyrgð á listrænni stefnumótun leikhússins. Val á verkefnum til flutnings og val á starfsmönnum til að vinna þau eru mikilvægir þættir við þá stefnumótun. Í lögunum eru því að finna ákvæði um að þjóðleikhússtjóri ráði leikara, söngvara, listdansara og aðra listamenn leikhússins svo og aðra starfsmenn þess, sbr. 9. gr. og sér til ráðunautar við þá stefnumótun ráði hann bókmennta- og leiklistarráðunaut, tónlistarráðunaut og listdansstjóra til jafnlangs tíma og hann sjálfur er ráðinn, sbr. 10. gr.

Telja verður því að þjóðleikhússtjóri hafi nokkuð frjálsar hendur við val á starfsmönnum og ráðgjöfum sínum, sbr. þó ákvæði jafnréttislaga. Kærunefnd telur það vart samrýmast tilgangi og markmiðum jafnréttislaga að auglýsa ekki stöðu sem þessa, sbr. og ákvæði laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Telja verður því að vinnubrögðum við ráðninguna hafi verið ábótavant.

Þegar virt er menntun og starfsreynsla kæranda og þess sem ráðinn var, er það mat kærunefndar að bæði séu vel hæf til að gegna starfi tónlistarstjóra. Þjóðleikhússtjóri hefur lagt áherslu á að hann telji að reynsla B, menntun hans og hæfni m.a. á sviði útsetninga og tónsmíða, nýtist leikhúsinu betur við þá listrænu stefnumótun sem þar fari nú fram en menntun og starfsreynsla A. Með vísan til 8. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr. jafnréttislaga nr. 28/1991 telur kærunefnd að þjóðleikhússtjóri hafi sýnt nefndinni fram á svo fullnægjandi sé að aðrar ástæður en kynferði hafi ráðið vali hans á starfsmanni í stöðu tónlistarstjóra Þjóðleikhússins.

Niðurstaða kæranefndar er að ráðning í stöðu tónlistarstjóra Þjóðleikhússins teljist ekki brot á lögum nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum