Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 1994 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 8/1993

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 8/1993

A
gegn
Dagsprenti h.f.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 25. febrúar 1994 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með bréfi dags. 6. september 1993 óskaði A, blaðamaður, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort sú ákvörðun Dagsprents h. f. að segja henni upp störfum bryti gegn ákvæðum 6. gr. jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og 7. gr. laga um fæðingarorlof, l. nr. 57/1987.

Kærunefnd aflaði upplýsinga frá forsvarsmönnum Dagsprents h.f. sem m.a. lögðu fram greiðslu- og rekstraráætlanir fyrir árin 1993 og 1994 og uppgjör fyrir fyrstu átta mánuði ársins 1993. Lögð var fram álitsgerð B, hrl., lögmanns Blaðamannafélags Íslands og aflað umsagna frá Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands, sbr. 1. mgr. 19. gr. jafnréttislaga. Á fund nefndarinnar komu kærandi, A og C, framkvæmdastjóri Dagsprents h.f.

Málavöxtum er lýst svo að fyrri hluta ársins 1992 hafi verið auglýst laus til umsóknar staða blaðamanns hjá dagblaðinu Degi og skyldi blaðamaðurinn hafa aðsetur á Sauðárkróki. A var meðal umsækjenda og eftir viðtal við D, ritstjóra Dags, ákvað stjórn Dagsprents h.f. að ráða hana til starfans. A hóf störf í júlí 1992 og var starfssvið hennar að sjá um umboðsskrifstofu Dags á Sauðárkróki, annast dreifingu blaðsins og sinna almennum störfum blaðamanns á Norðurlandi vestra. Það er fyrirtækið Dagsprent h.f. á Akureyri sem gefur út dagblaðið Dag og eru aðalskrifstofur blaðsins á Akureyri. Tvær umboðsskrifstofur eru starfræktar, á Húsavík og Sauðárkróki.

Samkvæmt upplýsingum A varð hún að vera frá vinnu í nokkrar vikur í maí 1993 vegna veikinda en hún var þá barnshafandi, komin tvo mánuði á leið. Hún skýrði ritstjóra blaðsins frá veikindum sínum og ræddu þau þá fyrirsjáanlegt fæðingarorlof hennar. Um miðjan ágúst sama ár hafði A aftur samband við ritstjóra og tjáði honum að hún hygðist taka fæðingarorlof í sex mánuði frá og með 1. desember. Ræddu þau lauslega hugsanlegt fyrirkomulag á afleysingu þann tíma. Með bréfi dags. 31. ágúst 1993 var A sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara frá og með 1. september og skyldi hún láta af störfum 30. nóvember. Ástæður uppsagnarinnar voru samkvæmt uppsagnarbréfinu að stjórn Dagsprents h.f. hefði ákveðið að loka skrifstofunni á Sauðárkróki vegna rekstrarörðugleika.

Samkvæmt kjarasamningum Blaðamannafélags Íslands og Vinnumálasambands Samvinnufélaga, sem Dagsprent h.f. á aðild að, eiga félagsmenn í Blaðamannafélagi Íslands rétt á fullum launum frá atvinnurekanda fyrstu fjóra mánuði fæðingarorlofs en fá síðan greitt frá Tryggingastofnun ríkisins fimmta og sjötta mánuð fæðingarorlofsins. Deilt er um skyldu Dagsprents h.f. til að greiða þau laun svo og hvort A eigi rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti að afloknu fæðingarorlofi.

A leggur áherslu á að sú ákvörðun stjórnar Dagsprents h.f. að segja henni upp störfum hafi komið til vegna þess að hún var barnshafandi. Fyrirtækið hafi séð fram á að þurfa að greiða henni laun í fæðingarorlofi og ráða starfsmann í hennar stað. Til að komast hjá þeim greiðslum og öðrum þeim óþægindum sem fæðingarorlof hennar gæti hugsanlega haft í för með sér að þeirra mati, hafi henni verið sagt upp og við það miðað að hún léti af störfum á sama tíma og fæðingarorlof hennar ætti að hefjast. Yfirmönnum hennar hafi þá þegar verið ljóst að hún var barnshafandi. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga sé atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildi það m.a. um uppsögn úr starfi. Uppsögn konu vegna þess að hún er barnshafandi, feli í sér mismunun vegna kynferðis. A vísar jafnframt til 7. gr. laga um fæðingarorlof þar sem segi að atvinnurekendum sé óheimilt að segja barnshafandi konu og foreldri í fæðingarorlofi upp starfi nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Svo hafi ekki verið. A vísar á bug þeim fullyrðingum framkvæmdastjóra Dagsprents h.f. að rekstrarlegar ástæður hafi legið að baki ákvörðuninni. Vissulega standi dagblaðið illa fjárhagslega en svo hafi verið um lengri tíma. Engar breytingar hafi orðið á þeirri stöðu þann tíma sem hún hafi starfað hjá dagblaðinu Degi, nema síður væri. Fyrir liggi að tekist hafi að selja hluta af fasteign fyrirtækisins til að bæta fjárhagsstöðu þess. Engar breytingar hafi orðið á rekstri skrifstofunnar á Sauðárkróki, áskrifendum hvorki fækkað eftir að hún tók við starfinu né útgjöld aukist á annan hátt. Ritstjóri blaðsins hafi bæði þegar hún var ráðin og síðar lagt áherslu á að vandi skrifstofunnar á Sauðárkróki hefði verið tíð mannaskipti en ekki fjárhagsstaða og því lagt áherslu á að hún réði sig til langs tíma. Á þeim forsendum hafi hún og fjölskylda hennar tekið sig upp frá Reykjavík og flutt til Sauðárkróks. Hún hafi ekki kynnt sér sérstaklega stöðu fyrirtækisins þegar hún réði sig enda ekki talið þess þörf þar sem dagblaðið Dagur væri rótgróið fyrirtæki. Verið geti að lokun skrifstofunnar á Sauðárkróki hafi verið til umræðu hjá stjórn Dagsprents hf. um einhvern tíma. Um það viti hún ekki. Það liggi hins vegar ljóst fyrir að ákvörðunin um að loka skrifstofunni þann 30. nóvember 1993 hafi verið tekin í beinu framhaldi af tilkynningu hennar um töku fæðingarorlofs. Engar rekstrarlegar breytingar hafi orðið hjá fyrirtækinu sem fallið geti undir heimildarákvæði 7. gr. fæðingarorlofslaganna.

Af hálfu forsvarsmanna Dagsprents h.f. er lögð áhersla á að uppsögn A hafi ekki á neinn hátt tengst fyrirhuguðu fæðingarorlofi. Það hafi lengi verið ljóst að fyrirtækið stæði illa fjárhagslega, einkum vegna meiri fjárfestinga en rekstur þess stóð undir. Leitað hafi verið margvíslegra leiða til að skera niður í rekstri, m.a. skrifstofum fyrirtækisins á Blönduósi og í Reykjavík verið lokað og starfsfólki fækkað á aðalskrifstofunni á Akureyri. A árinu 1993 hafi tekist að lækka nokkuð skuldastöðu fyrirtækisins með sölu eigna. Hins vegar hafi rekstraruppgjör sem lá fyrir um miðjan ágúst sýnt að frekari aðhaldsaðgerða væri þörf. Skrifstofan á Sauðárkróki hafi aldrei staðið undir sér. Hins vegar hafi verið litið svo á að það væri Degi nokkur styrkur að hafa starfandi blaðamann á Sauðárkróki. Á þeim forsendum hefði verið tekin ákvörðun um að halda rekstrinum þar óbreyttum og greiðsluáætlun ársins við það miðuð. Virðisaukaskattur á áskrift dagblaða og gengisbreytingar hafi hins vegar leitt til þess að greiðsluáætlun ársins stóðst ekki. Það hafi verið visst áfall að þurfa að loka skrifstofunni á Sauðárkróki. Ákvörðunin hafi hins vegar byggst á hreinu rekstrarlegu mati en ekki því að eini starfsmaður skrifstofunnar væri barnshafandi. Þessu til stuðnings vísa forsvarmenn Dagsprents h.f. til rekstrar- og greiðsluáætlana síðustu ára og uppgjörs endurskoðanda fyrir fyrstu átta mánuði ársins 1993.

Í umsögn Alþýðusambands Íslands kemur fram að telja verði miðað við málavexti alla að uppsögn A úr starfi hafi brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga. Atvinnurekandi geti ekki skyndilega borið fyrir sig aukið tap sem honum hafi til margra ára verið ljóst að væri fyrir hendi. A hafi tekið við starfi sínu hjá fyrirtækinu á árinu 1992, hún og fjölskylda hennar flust búferlum vegna starfsins og að ritstjóri blaðsins hafi lagt áherslu á mikilvægi þess að hún tæki starfið að sér sem lengst Hins vegar komi fram í gögnum málsins að fyrir hafi legið allt frá árinu 1988 að ráðist hefði verið í meiri fjárfestingar en fyrirtækið stæði undir. Við mat á því hvort ákvæði jafnréttislaga hefðu verið brotin, væri eðlilegt að hafa til hliðsjónar þau sjónarmið sem ákvæði 7. gr. fæðingarorlofslaganna byggi á. Því væri sérstaklega ætlað að vernda þungaðar konur og foreldri í fæðingarorlofi og væri eitt af fáum ákvæðum í íslenskum vinnurétti sem legði hömlur á rétt atvinnurekanda til að segja starfsfólki upp störfum. Rökin fyrir því að vernda þungaðar konur væru að eðlilegt þætti að meðganga og fæðing og sú röskun sem slíkt gæti haft í för með sér, rýrði ekki möguleika fólks á vinnumarkaði. Um túlkun þessa lagaákvæðis vísar Alþýðusambandið m.a. til danskrar dómaframkvæmdar en íslensk löggjöf á þessu sviði eigi rót að rekja til danskrar lagasetningar. Þar eins og hér hvíli sönnunarbyrðin á atvinnurekanda fyrir því að aðrar ástæður en kynferði hafi legið að baki uppsögn. Af danskri dómaframkvæmd megi sjá að mjög sérstakar ástæður þurfi að koma til svo unnt sé að sýna fram á að uppsögn þungaðrar konu sé lögmæt Algengt sé að atvinnurekendur beri fyrir sig rekstrarörðugleika og skipulagsbreytingar og séu danskir dómstólar tregir til aðfallastáslíkrök.

Í umsögn Vinnuveitendasambands Íslands er lögð áhersla á að lagaákvæði sem takmarka uppsagnarrétt atvinnurekanda, s.s. ákvæði jafnréttislaga og fæðingarorlofslaga, takmarki ekki rétt þeirra til að taka rekstarákvarðanir enda hafi sá ekki verið tilgangur þeirra. Atvinnurekandi kosti og beri ábyrgð á rekstri starfsemi sinnar og greiði tapið, þar með talið launakostnað ef illa gangi. Hann ráði því umfangi starfsemi sinnar, hvort hann velji að halda henni áfram, draga úr umsvifum eða hætta rekstri. Ákvæði 7. gr. fæðingarorlofslaganna sé efnislega óbreytt frá eldri lögum nr. 97/1980 um breyting á lögum um almannatryggingar. Ráðherra sá er mælti fyrir frumvarpinu hafi lagt áherslu á að ákvæðinu væri ætlað að koma í veg fyrir að kona væri látin gjalda þungunar með uppsögn nema gildar og knýjandi ástæður væru fyrir hendi. Geðþóttaákvarðanir væru ekki heimilar. Sem dæmi um knýjandi ástæður hafi ráherrann nefnt lokun fyrirtækis, flutning þess í annað byggðarlag eða gjaldþrot. Í umsögninni kemur fram það mat Vinnuveitendasambandsins að í þessu máli hljóti uppsögnin að teljast heimil við þær aðstæður sem um ræði, þ.e. starfsemi hafi verið hætt í byggðarlaginu. Engu breyti í því efni þó að ákvörðun sé af hagkvæmnisástæðum látin koma til framkvæmda á sama tíma og starfsmaður áformar að hefja töku fæðingarorlofs. Ekki verði með nokkru móti séð að það brjóti í bága við ákvæði jafnréttislaga að fyrirtæki taki ákvörðun um að leggja niður hluta starfsemi sinnar. Það eitt að eini starfsmaðurinn sem sé barnshafandi kona leiði fráleitt til þeirrar niðurstöðu að um sé að ræða kynbundna mismunun.

NIÐURSTAÐA

Samkvæmt 1. gr. jafnréttislaga er tilgangur þeirra að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Lögin leggja því ýmsar skyldur á atvinnurekendur og má þar nefna ákvæði 5. gr. laganna er kveðið á um að atvinnurekendur skuli vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnuninar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- eða karlastörf.

Samkvæmt 6. gr. er atvinnurekendum óheimilt að mismuna eftir kynferði og gildir það m.a. um uppsögn úr starfi. Telji einhver rétt á sér brotinn og vísar máli sínu til kærunefndar jafnréttismála skal atvinnurekandi sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðunar hans.

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. sömu laga eru verkefni kærunefndar jafnréttismála að taka við ábendingum um brot á ákvæðum jafnréttislaga, rannsaka mál af því tilefni og senda að rannsókn lokinni niðurstöður til þeirra er málið varðar. Kærunefnd fjallar ekki sérstaklega um meint brot á ákvæðum annarra laga. Hins vegar geta ákvæði annarra laga skipt máli við úrlausn ágreiningsefnis.

Mál þetta snýst um rétt atvinnurekanda til að segja barnshafandi starfsmanni sínum upp störfum. Það er meginregla vinnuréttarins að atvinnurekandi getur sagt starfsmanni upp starfi án þess að réttlæta eða rökstyðja uppsögnina. Þessi meginregla sætir að lögum ýmsum undantekningum. Má þar nefna að óheimilt er að segja barnshafandi konu upp starfi nema gildar ástæður séu fyrir hendi skv. 7. gr. laga um fæðingarorlof nr. 57/1987 og óheimilt er að mismuna starfsfólki eftir kynferði skv. 6. gr. jafnréttislaga. Gildir það m.a. um uppsögn úr starfi skv. 4. tl. 1. mgr. 6. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. skal atvinnurekandi sýna kærunefnd fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi búið að baki ákvörðun hans.

Uppsögn þungaðrar konu telst því ekki brot á ákvæðum jafnréttislaga sýni atvinnurekandi fram á að aðrar ástæður en kynferði, þ.á.m. þungun konu, hafi ráðið ákvörðun hans. Ákvæði 7. gr. laga um fæðingarorlof byggja á sömu sjónarmiðum. Hljóta þau að skipta máli við túlkun ákvæða jafnréttislaga. Ljóst er að sérstök atvik og mjög brýnar ástæður þurfa að vera fyrir hendi. Sem dæmi um slíkar ástæður er flutningur fyrirtækis í annað byggðarlag eða ákvörðun um að hætta starfsemi.

Í máli þessu er útibúi frá aðalstarfsstöð lokað. Þar var einn starfsmaður. Ákveðið var að lokunin skyldi verða á sama tíma og kærandi hafði tilkynnt að hún tæki fæðingarorlof. Upplýst er að forsvarsmönnum Dagsprents h.f. var kunnugt um fyrirhugað fæðingarorlof áður en ákvörðunin um lokun var tekin.

Forsvarsmenn Dagsprents h.f. staðhæfa og hafa lagt fram gögn því til stuðnings, að rekstur dagblaðsins Dags hafi verið í járnum síðustu árin. Slæma afkomu og rekstrarerfiðleika segja þeir að megi rekja til offjárfestinga, sem reksturinn hafi ekki risið undir, Þeir hafa og upplýst að gripið hafi verið til ýmissa aðgerða til lausnar á fjárhags-og rekstrarvanda fyrirtækisins, svo sem sölu eigna og aðhalds- og sparnaðaraðgerða. Þrátt fyrir slíkar aðgerðir hafi fyrirtækið ekki rétt úr kútnum, fjárhagsstaða þess áfram verið slæm og reksturinn gengið verr. Komi þar ýmislegt fleira til eins og virðisaukaskattur á áskriftargjöld sem hafi raskað öllum rekstraráætlunum. Þá staðhæfa þeir jafnframt að skrifstofan á Sauðárkróki hafi aldrei staðið undir sér.

Það er því öldungis ljóst, að forsvarsmönnum fyrirtækisins hafði verið kunn bág fjárhagsstaða þess í mörg ár og að rekstrarerfiðleikar þess síðast liðið sumar voru alls ekki nýir af nálinni. Þótt einstök vandamál kunni að hafa verið breytileg frá einum tíma til annars og ný hafi komið í stað annarra, svo sem virðisaukaskatturinn, þá er það í sjálfu sér óhjákvæmilegur og venjulegur fylgifiskur fyrirtækjarekstrar.

Því verður ekki á móti mælt að það kann að vera fjárhagslega óhagkvæmt og þungur baggi fyrir atvinnurekanda í kröggum að þurfa að greiða konu fæðingarorlof. Hreinar hagkvæmnisástæður geta mælt með því að slíkum starfsmanni sé sagt upp í sparnaðarskyni og enn frekar megi slá fleiri flugur í því sama höggi.

Lögin um fæðingarorlof og ákvæði jafnréttislaga vernda konu við slíkar aðstæður. Ella væri réttarstaða hennar mjög veik og berskjölduð. Þá er oft hægurinn að búa uppsögn í annan búning og réttlæta hana og rökstyðja einvörðungu með erfiðleikum í rekstri, þótt hin raunverulega ástæða sé þungunin og fæðingarorlofið, annað hvort alfarið eða öðrum þræði.

Vegna þessa hafa ofangreind lög að geyma þá meginreglu að uppsögn þungaðrar konu sé óheimil. Frá þessari meginreglu er sem fyrr segir sú undantekning gerð, að við mjög sérstök atvik geti atvinnurekanda verið heimilt að segja upp þungaðri konu og þurfa þá ástæður að vera brýnar. Þessa undantekningarreglu ber í samræmi við tilgang laganna og almenn lögskýringarsjónarmið að túlka þröngt. Til að slá enn frekari skjaldborg um þennan rétt konu, mæla lögin svo fyrir að atvinnurekandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að undantekningin um uppsagnarrétt hans eigi við. Verður að gera strangar kröfur til sönnunar í því efni.

Fyrirtækið Dagsprent h.f. hafði átt í rekstrarerfiðleikum í mörg ár. Verður ekki séð að neinar slíkar breytingar hafi orðið á þeim tíma sem hér skiptir máli að þær geti talist sérstakar ástæður er þurfa að vera fyrir hendi til að uppsögn þungaðrar konu sé réttlætanleg. Þvert á móti má telja líklegt vegna tímasetninga og annars sem fram hefur komið í málinu, að ákvörðunin um uppsögnina hafi verið tekin í ljósi þungunarinnar og fyrirhugaðs fæðingarorlofs og því hafi forsvarsmenn Dagsprents h.f. séð sér þann leik á borði að leysa tvö vandamál í einu. Rekstrarlega séð kann það að hafa verið skynsamlegt og eðlilegt en slíkar hagkvæmnisástæður duga ekki sem sérstakar ástæður í skilningi jafnréttislaga.

Kærunefnd jafnréttismála telur því að uppsögn A brjóti gegn 4. til 6. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og 7. gr. laga nr. 57/1987 um fæðingarorlof.

Þeim tilmælum er beint til forsvarsmanna Dagsprents h.f. að þeir greiði A laun í fæðingarorlofi í samræmi við ákvæði kjarasamnings Blaðamannafélags Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna og að ákvörðun um uppsögn frá og með 1. september 1993 verði afturkölluð.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður HelgiGuðjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira