Hoppa yfir valmynd
5. október 1994 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 9/1993

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 9/1993.

A
gegn
Hagkaup h.f.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála miðvikudaginn 5. október 1994 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu.

MÁLAVEXTIR

Í september 1993 óskaði A, fyrrverandi innkaupamaður hjá Hagkaup h.f. eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort sú ákvörðun forsvarsmanna Hagkaups h.f. að segja henni upp störfum bryti gegn ákvæðum jafnréttislaga, nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Erindið var kynnt forsvarsmönnum Hagkaups h.f. með bréfi dagsettu 30. september 1993 og óskað eftir afstöðu fyrirtækisins. Svarbréf starfsmannastjóra eru dagsett 4. nóvember og 13. desember s.á. Á fund kærunefndar mættu A, kærandi málsins og C, starfsmannastjóri Hagkaups h.f., ásamt D, lögfræðingi. Með bréfum dags. 25. apríl, 16. maí, 12. júlí og 16. ágúst 1994 var óskað eftir nánari upplýsingum, m.a. um kynjahlutföll í tilgreindum starfsgreinum hjá Hagkaup h.f. og framlegð innkaupasviðs kæranda og þess innkaupamanns sem að hennar mati hefði frekar átt að víkja.

Málavextir eru þeir að með bréfi dags. 30. apríl 1993 var A sagt upp störfum sem innkaupamanni hjá Hagkaupi h.f. Engar skýringar koma fram í bréfinu um ástæður uppsagnarinnar. A lét af störfum hinn 1. ágúst 1993. Eftir nokkrar viðræður við forsvarsmenn fyrirtækisins á uppsagnartímanum ákváðu þeir að greiða henni laun fyrir ágústmánuð.

Upplýst er að á fyrstu mánuðum ársins 1993 var unnið að skipulagsbreytingum í innkaupadeild sérvöru hjá Hagkaup h.f. Á innkaupasviði A voru þá m.a. innkaup á viðlegubúnaði, sportvöru, sumarhúsgögnum, ferðatöskum, ritföngum og bókum. Á öðru innkaupasviði voru búsáhöld og gjafavörur að hluta og var innkaupamaður þess sviðs B. Aðilar eru ekki að öllu leyti sammála um hvaða breytingar voru gerðar. Þó liggur fyrir að einhverjir vöruflokkar af báðum þessum innkaupasviðum voru færðir í innkaupadeild matvöru. Jafnframt var ákveðið að taka innkaup á ritföngum og bókum af innkaupasviði A og fela þau ritfanga- og bókaverslun. Skipulagsbreytingarnar leiddu síðan til sameiningar innkaupasviðs A og B og ákveðið var að B skyldi sjá um þau innkaup. Í framhaldi af því var A sagt upp störfum hjá fyrirtækinu.

A telur að engin rök hafi komið fram um hvers vegna henni var sagt upp en ekki B. Engin gagnrýni hafi komið fram á störf hennar hjá fyrirtækinu og engar ástæður gefnar upp aðrar en þær að verið væri að hagræða. Hún telji sig hafa gegnt starfinu mjög vel. Því til stuðnings bendir hún á að rekstur innkaupasviða sé á ábyrgð innkaupamanns, þ.e. hver innkaupamaður starfi eins og verktaki. Í upphafi hvers árs leggi innkaupastjóri fram áætlun um árangur fyrir innkaupamenn sem þeim beri að ná. A kveðst hafa upplýsingar um að árið 1992, síðasta heila árið hennar hjá fyrirtækinu, hafi framlegð innkaupasviðs hennar verið meiri en áætlað var. Einungis eitt annað innkaupasvið, innkaup á snyrtivörum, hafi getað státað af svo góðri niðurstöðu. A hefur lagt fram útskrift úr tölvum fyrirtækisins um afkomu síns innkaupasviðs á árinu 1992.

A segir að innkaupasvið hennar hafi verið stærra en B og hafi skipulagsbreytingarnar í byrjun ársins engu breytt. Hún hafi mun lengri starfsaldur hjá fyrirtækinu en B, hafi starfað í verslunum Hagkaups h.f. á sumrin á árunum 1972 til 1979 og samfellt frá því síðla árs 1979. Hún hafi starfað sem aðstoðarmaður í innkaupum, sem gjaldkeri og frá 1. nóvember 1988 sem innkaupamaður í sérvörudeild. B hafi starfað þar frá árinu 1987, fyrstu tvö árin í innkaupadeild matvöru en frá 1989 sem innkaupamaður í sérvörudeild.

A segir konur eiga mjög erfitt uppdráttar innan fyrirtækisins. Ábyrgð og laun innkaupamanna, lagerstjóra og verslunarstjóra séu að mörgu leyti sambærileg og því beri að líta til kynjaskiptingar í þeim starfgreinum í heild. Þegar hún hafi látið af störfum hafi einungis ein kona starfað sem verslunarstjóri en átta karlar; í sérvörudeild hafi níu konur starfað sem innkaupamenn en þrír karlar; í matvörudeild hafi allir sjö innkaupamennirnir verið karlar; allir lagerstjórar hafi verið karlar svo og yfirmenn allra deilda. Samkvæmt ákvæðum jafnréttislaga hafi fyrirtækinu því borið að segja karlmanni upp en ekki konu og hljóti uppsögn hennar að teljast brot á ákvæðum laganna.

Að lokum segir A ýmislegt benda til þess að breytt hjúskaparstaða hennar hafi skipt máli. Konur á barneignaaldri eigi enn erfiðara uppdráttar hjá Hagkaupi h.f. en aðrar konur og þess séu dæmi að þeim hafi verið sagt upp í framhaldi af fæðingarorlofi eða þær fluttar til í lægra launuð störf. Hún hafi gengið í hjónaband á árinu 1992 og sé á barneignaaldri. Segist hún telja líklegt að það hafi skipt máli þegar ákveðið var að segja henni upp en ekki B.

Forsvarsmenn Hagkaups h.f. vísa því á bug að kynferði hafi ráðið nokkru um uppsögn A. Um hafi verið að ræða skipulagsbreytingar í sparnaðarskyni m.a. í innkaupadeild og uppsögn A hafi fallið best að þeim aðgerðum. Ákveðið hafi verið að flytja ákveðna vöruflokka frá innkaupadeild sérvöru til innkaupadeildar matvöru. Með því hafi verið hægt að sameina í eitt svið innkaup á búsáhöldum, reiðhjólum, viðlegubúnaði og ýmsum tilboðsvörum. Frá upphafi hafi legið fyrir að breytingarnar myndu leiða til fækkunar starfsfólks í innkaupadeild sérvöru. Svið A hafði dregist verulega saman og því verið talið eðlilegt að sameina það öðru. Innkaup á búsáhöldum séu viðamikil. Þau ásamt innkaupum á fatnaði, krefjist mestrar þjálfunar starfsmanna. Svið A hafi verið einfaldara. Við innkaup á búsáhöldum reyni á viðskiptasambönd en innkaup á árstíðabundnum vörum byggist frekar á vörusýningum. B hafi haft þessi viðskiptasambönd. Að öllu þessu virtu hafi það verið talið fyrirtækinu hagkvæmara að leggja árstíðabundnu vörurnar undir innkaupasvið búsáhalda en ekki öfugt og halda þar með í reynslu og þjálfun hans.

Forsvarsmenn Hagkaups h.f. fallast ekki á þá staðhæfingu A að framlegð hennar hafi verið meiri en B. Þessa staðhæfingu byggi hún á þeirri spá sem hver innkaupamaður vinni á sína ábyrgð í upphafi hvers árs. Til grundvallar beri hins vegar að leggja framlegð hvers innkaupasviðs sem hlutfall af sölu en þar hafi hann verið í þriðja sæti á árinu 1992 en hún í sjötta. Fullyrðingum hennar um slæma stöðu kvenna innan fyrirtækisins vísa þeir á bug. Konur gegni mörgum lykilhlutverkum hjá Hagkaupi h.f., bæði við æðstu stjórnun og við verslun. Þannig hafi tíu af tólf innkaupamönnum fyrirtækisins á þessum tíma verið konur. Fullyrðingum A um framkomu fyrirtækisins við konur sem koma til starfa að afloknu fæðingarorlofi er harðlega mótmælt, svo og að breytt hjúskaparstaða A hafi haft einhver áhrif.

Af hálfu A er því mótmælt að eðlilegt sé að leggja til grundvallar framlegð sem hlutfall af sölu þar sem álagning sé mismikil eftir vöruflokkum, og sú ákvörðun sé ekki á valdi innkaupamanns. Rangt sé að innkaupamaður vinni sjálfur spá fyrir sitt innkaupasvið um útkomu hvers árs. Það geri innkaupastjóri og leggi fyrir innkaupamann. Við mat á árangri hafi þessi spá ætíð verið lögð til grundvallar og á árinu 1992 hafi hún staðið sig best. Forsvarsmönnum Hagkaups sé í lófa lagið að leggja fram sambærilegt mat yfir innkaupasvið B eins og hún hafi lagt fram yfir sitt.

Forsvarsmenn Hagkaups h.f. hafa bent á að samkvæmt 5. gr. jafnréttislaga beri atvinnurekendum að vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- eða karlastörf. Lagagreinin taki til sérhverrar starfsgreinar hjá fyrirtækjum. Þar sem tveir þriðju innkaupamanna í sérvörudeild hafi verið konur, hafi þegar af þeirri ástæðu átt að taka karl fram yfir konu. Kyn starfsmanna hafi þó ekki verið lagt til grundvallar heldur hæfni starfsmanna og aðrar rekstrarfræðilegar ástæður. Þessari túlkun hefur A mótmælt og lagt áherslu á að líta beri til annarra sambærilegra starfsgreina einnig við mat á stöðu kynjanna. Upplýst er að karlar eru í heild mun fleiri í starfsgreinum eins og störfum deildarstjóra, innkaupamanna sérvöru og matvöru, verslunarstjóra og lagerstjóra.

NIÐURSTAÐA

Eitt af meginmarkmiðum jafnréttislaga, 1. 28/1991, er að tryggja konum jafnstöðu á við karla á vinnumarkaði. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur til þess að þeim tilgangi verði náð. Má í því sambandi nefna 5. gr. laganna sem kveður á um að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Tekið er sérstaklega fram að atvinnurekendur skuli vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Samkvæmt 6. gr. er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um uppsögn úr starfi, sbr. 4. tl. 1. mgr. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal atvinnurekandi, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

Engar leiðbeiningar er að finna í lögunum eða greinargerð með þeim um hvenær beri að líta svo á að starfsmanni sé sagt upp vegna kynferðis. Slíkar leiðbeiningar er aftur á móti að finna þegar um er að ræða ráðningu, setningu eða skipun í starf en samkvæmt 8. gr. jafnréttislaga skal atvinnurekandi þá veita nefndinni upplýsingar um menntun, starfsreynslu og hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hefur til að bera sem ráðinn var í starfið. Meginreglan er að ráða skuli þann sem hæfastur er talinn. Þegar um er ræða jafn hæfa umsækjendur ber að leggja til grundvallar þá skyldu atvinnurekanda að stuðla að jafnari skiptingu kynja í störfum hjá fyrirtækinu. Ráða skal þann umsækjandann sem er af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein.

Kærunefnd telur að við mat á því hvenær uppsögn teljist brot á ákvæðum jafnréttislaga beri að hafa framangreint til hliðsjónar.

Óumdeilt er að einungis tveir innkaupamenn komu til álita þegar ákveðið var að fækka í innkaupadeild sérvöru, þau A og B. Menntun þeirra er sambærileg, bæði hafa lokið stúdentsprófi. Starfsreynsla hennar hjá fyrirtækinu er mun lengri eða samfellt frá árinu 1979 en hans frá 1987.

A hefur fullyrt að innkaupasvið hennar hafi komið betur út úr ársuppgjöri en innkaupasvið B. Því hafa forsvarsmenn Hagkaups h.f. mótmælt. Deilt er um hvaða forsendur beri að leggja til grundvallar við það mat. A telur ársútkomu miðað við spá fyrir árið vera eðlilega viðmiðun um framlegð hvers og eins en forsvarsmenn Hagkaups h.f. telja framlegð miðað við sölu réttari mælikvarða.

Kærunefnd fellst á það að framlegð miðað við sölu séu ekki góður mælikvarði á hæfni þar sem álagningarhlutfall er mjög misjafnt eftir vöruflokkum. Samanburður milli innkaupamanna á þeim forsendum verður því ekki lagður til grundvallar. Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli kærunefndar hafa forsvarmenn Hagkaups hf. ekki lagt fram nein óyggjandi gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að árin 1990 - 1992 er þau B og A voru bæði starfandi sem innkaupamenn, hafi hans svið komið betur út úr mati en hennar. Horfa ber til þess að einungis fyrirtækið getur lagt fram gögn um samanburð milli innkaupasviða; það er ekki á valdi kæranda. Hagkaup h.f. hlýtur að bera hallann af því að sönnun þess, að B hafi verið hæfari innkaupamaður en A, hafi ekki tekist, sbr. og 2. mgr. 6. gr. jafnréttislaga.

Jafnréttislögin leggja þá skyldu á atvinnurekenda að vinna að jafnri stöðu kynja innan fyrirtækis eða stofnunar. Þegar skoðuð eru hlutföll kvenna og karla í starfi innkaupamanna og sambærilegum störfum innan fyrirtækisins á þeim tíma þegar A var sagt upp, hallar á konur, enda þótt fleiri konur en karlar starfi sem innkaupamenn sérvöru. Ekkert hefur komið fram við meðferð málsins sem bendir til annars en að A, sem hefur starfað lengi hjá fyrirtækinu, hefði getað tekið við nýjum vöruflokkum og tekið við þeim viðskiptasamböndum sem B hafði aflað fyrirtækinu, enda upplýst að vöruflokkar séu stundum færðir milli innkaupasviða.

Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af fengnum upplýsingum um stöðu kvenna innan fyrirtækisins í störfum sambærilegum starfi innkaupamanns, telur kærunefnd að uppsögn A hafi brotið gegn 4. tl. 6. gr. jafnréttislaga, lög nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. 2. mgr. 6. gr. sömu laga.

Þeim tilmælum er beint til forsvarsmanna Hagkaups h.f. að fundin verði viðunandi lausn á málinu sem kærandi getur sætt sig við.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira