Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2023 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 72/2023-Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 29. nóvember 2023

í máli nr. 72/2023

 

A

gegn

B hf.

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Víðir Smári Petersen dósent og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A.

Varnaraðili: B hf.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að honum beri ekki að greiða kröfu varnaraðila um vísitöluhækkun á leigu sem var gerð tæpum níu mánuðum eftir að leigutíma lauk.

Með kæru, dags. 2023, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 10. júlí 2023, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð barst ekki frá varnaraðila þrátt fyrir ítrekaða beiðni kærunefndar þar um.

Með tölvupósti 27. október 2023 óskaði kærunefnd frekari skýringa frá sóknaraðila sem bárust með tölvupósti hans sama dag. Voru skýringarnar sendar varnaraðila með tölvupósti kærunefndar sama dag. Með tölvupósti 13. nóvember 2023 óskaði kærunefnd enn frekari skýringa frá sóknaraðila sem bárust með tölvupósti hans sama dag. Voru þær sendar varnaraðila með tölvupósti 14. nóvember 2023. Athugasemdir bárust ekki.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 15. febrúar 2020 til 28. febrúar 2021 um leigu sóknaraðila á íbúð varnaraðila að C í D. Að umsömdum leigutíma loknum héldu aðilar leigusambandi sínu áfram á grundelli hans til  10. október 2022. Ágreiningur er um heimild varnaraðila til að krefja sóknaraðila um vísitöluhækkun á leigu aftur í tímann.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili kveðst hafa  hafa fengið reikning frá varnaraðila vegna vísitölubreytinga frá febrúar 2020 til september 2022, að fjárhæð 299.340 kr., átta og hálfum mánuði eftir að hann flutti út úr hinni leigðu eign.

III. Niðurstaða            

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir kærunefnd og verður því við úrlausn málsins byggt á þeim sjónarmiðum og gögnum sem sóknaraðili hefur lagt fyrir nefndina.

Samkvæmt þágildandi 37. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, var aðilum frjálst að semja um fjárhæð húsaleigu og hvort og þá með hvaða hætti hún skyldi breytast á leigutímanum. Leigufjárhæðin skyldi þó jafnan vera sanngjörn og eðlileg í garð beggja aðila.

Samkvæmt gögnum málsins greiddi sóknaraðili mánaðarlega 140.000 kr. í leigu inn á reikning varnaraðila. Samkvæmt leigusamningi aðila skyldi leigan breytast í samræmi við vísitölu neysluverðs, grunnvísitala 469,8 þó aldrei lægri en umsamin fjárhæð. Leigutími hófst 15. febrúar 2020 og lauk 10. október 2022 samkvæmt gögnum málsins.

Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa gert kröfu um vísitöluhækkun á leigugreiðslur sem inntar höfðu verið af hendi á leigutíma með bréfi dagsettu 6. júlí 2023 eða tæpum níu mánuðum eftir að leigutíma lauk. Í skýringum sóknaraðila, dags. 13. nóvember 2023, kemur þó fram að eftir að leigutími hafði staðið yfir í eitt og hálft ár hafi varnaraðili gert kröfu um vísitöluhækkun sem sóknaraðili hafi þá gert upp vegna þess tímabils. Sóknaraðili hafi í framhaldinu óskað eftir að leiga yrði innheimt með greiðsluseðlum með uppreiknaðri fjárhæð en varnaraðili ekki viljað verða við því þar sem slíkri þjónustu fylgi kostnaður. Þessu hefur varnaraðili ekki mótmælt. Í þessu ljósi sem og því að krafa varnaraðila kom fram löngu eftir að leigutíma lauk telur nefndin að krafa hans sé niður fallin vegna tómlætis. Er því fallist á kröfu sóknaraðila.

 

Í 7. mgr. 85. gr. húsaleigulaga er kveðið á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur.

 


 

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á kröfu sóknaraðila.

 

Reykjavík, 29. nóvember 2023

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Víðir Smári Petersen                                     Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum