Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2019 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Ráðherra kynnti sér starfsemi Þjóðskrár Íslands

Úr heimsókn ráðherra í Þjóðskrá Íslands. Frá vinstri: Margrét Hauksdóttir forstjóri Þjóðskrár, Sigurður Ingi Jóhannsson, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri og Gróa Helga Eggertsdóttir sviðsstjóri þjónustusviðs. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, heimsótti í gær starfsstöð Þjóðskrár Íslands í Reykjavík. Ráðherra heilsaði þar upp á starfsfólk í öllum deildum og fékk kynningu á margvíslegri og mikilvægri þjónustu sem stofnunin veitir. Margrét Hauksdóttir forstjóri kynnti framtíðarsýn og stefnu Þjóðskrár og helstu verkefni stofnunarinnar á næstu árum. Þau felast meðal annars í mikilvægum endurbótum á skráningarkerfum einstaklinga og fasteigna í takt við tímann og samnýtingu upplýsinga.

Í stefnu Þjóðskrár Íslands segir að hlutverk hennar sé að vera miðpunktur rafrænna lausna, halda grunnskrár, reka rafrænar þjónustugáttir, gefa út skilríki og vottorð og meta fasteignir. Loks væri unnið markvisst að því að koma á aukinni samvinnu á milli opinberra aðila um að samnýta upplýsingar og kerfi með snjallri upplýsingatækni.

Unnið er að markvissu umbótastarfi hjá Þjóðskrá með þátttöku alls starfsfólk í því skyni að bæta þjónustu hennar enn frekar. Afrakstur þeirrar vinnu var áberandi í heimsókninni en margvíslegir mælikvarðar staðfesta góðan árangur. Þannig hefur biðtími eftir þjónustu styst verulega á síðustu árum og samhliða hefur starfsánægja starfsfólks aukist.

„Það var afskaplega ánægjulegt að hitta starfsfólk Þjóðskrár Íslands og metnaður þess og fagmennska leynir sér ekki. Við vinnum í nánu samstarfi við Þjóðskrá um að efla og bæta lykillöggjöf um grunnskrár og upplýsingaveitu þeirra,“ sagði Sigurður Ingi að lokinni heimsókn sinni.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mun á næstum vikum heimsækja allar stofnanir sem heyra undir ráðuneytið.

Nánar um starfsemi Þjóðskrár Íslands

Lögfræðideild Þjóðskrár kynnir starfsemi sína.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira