Hoppa yfir valmynd
3. maí 2018 Utanríkisráðuneytið

Mikilvægur stuðningur stjórnvalda við UN Women og íslensku landsnefndina

Forsíða ársskýrslu UN Women 2017. - mynd

Samanlögð framlög utanríkisráðuneytisins til UN Women árið 2017 námu um 234 milljónum króna, en þar af var um 132 milljónum króna veitt í kjarnaframlag til stofnunarinnar. Ársskýrsla UN Women á Íslandi 2017 sem kom út í gær segir að kjarnaframlagið sé afar mikilvægt UN Women þar sem stofnunin sé ung og í örum vexti.

„Framlagið tryggir stofnuninni svigrúm til að veita fé til aðkallandi verkefna á átaka- og hamfarasvæðum þar sem þörfin er mest og bregðast þarf skjótt við,“ segir í skýrslunni. Þá nam framlag til landsnefndar UN Women á Íslandi 13 milljónum króna sem gerir landsnefndinni kleift að styrkja stöðu sína og vaxa enn frekar.

Líkt og áður voru einnig veitt framlög til ákveðinna verkefna UN Women. Tæplega 22 milljónum króna var veitt til verkefna UN Women í Afganistan og Palestínu og 37 milljónir króna runnu til svokallaðs 1325-verkefnis UN Women í Mósambík sem tryggir að sjónum sé beint að jafnrétti og valdeflingu kvenna og stúlkna í ferlum og áætlunum sem stuðla að friði, öryggi og endurreisn í mósambisku samfélagi. Auk þess nam framlag til verkefna UN Women í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu  22,5 milljónum króna og sjö milljónum króna var veitt til að kosta útsendan sérfræðings á landsskrifstofu UN Women í Jórdaníu.

Ráðherra vekur athygli á skaðlegri karlmennsku

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra gerir skaðlega karlmennsku meðal annars að umfjöllunarefni í ávarpi sínu vegna ársskýrslu UN Women á Íslandi. „Þegar við lítum aðeins fáeina áratugi um öxl sjáum við öll að í jafnréttismálum hefur margt áunnist,“ segir ráðherra. „Við sjáum ekki aðeins öflugri og áhrifameiri konur á fleiri sviðum samfélagsins en áður. Við sjáum líka karla í hlutverkum sem áður fyrr voru ekki talin sæma nokkrum karlmanni. Feður ungra manna sem ýta á undan sér barnavögnum hefðu á sama aldri seint farið í þeirra spor. Það hefði einfaldlega þótt ókarlmannlegt, eins og sagt var á þeim tíma. Sama lýsingarorð var notað um drengi sem felldu tár; þeir áttu að vera sterkir, harðir í horn að taka og sýna engin veikleikamerki.“

Nú sé vitað að þessi viðhorf til drengja hafi haft skaðleg áhrif. „Staðalímyndir um karlmennsku mótuðu líf margra kynslóða, karlar leituðu síður en konur til læknis, karlar töluðu síður tilfinningar en konur og fleiri karlar tóku eigið líf en konur. Þessar staðalímyndir um karlmennsku eru ekki horfnar en þær eru á undanhaldi. Karlar sem búa í samfélögum þar sem jafnrétti er í öndvegi lifa lengur. Feður sem taka feðraorlof tengjast börnum sínum að jafnaði sterkum böndum.“

Guðlaugur Þór segir stöðu Íslands í jafnréttismálum á heimsvísu með þeim hætti að það séu forréttindi að fá að tala fyrir Íslands hönd um jafnrétti á alþjóðavettvangi. Þá bendir hann á að á síðasta ári voru Íslendingar níunda árið í röð í efsta sæti Alþjóðaefnahagsráðsins um stöðu kynjajafnréttis í heiminum. „Það er því eðlilega horft til okkar sem fyrirmyndar og við erum reiðubúin að leiða áframhaldandi framgang á þessu sviði,“ segir hann.

Ársskýrsla UN Women á Íslandi 2017

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum