Hoppa yfir valmynd
20. september 2011 Dómsmálaráðuneytið

Alþingi samþykkti frumvarp um rýmri reglur um fullnustu refsingar utan fangelsa

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fullnustu refsinga, nr. 49/2005 (rafrænt eftirlit, samfélagsþjónusta) var samþykkt á Alþingi 17. september síðastliðinn. Þar er m.a. kveðið á um að fangelsismálastofnun geti leyft fanga að ljúka afplánun utan fangelsis undir rafrænu eftirliti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Auk þess er hækkuð sú hámarksrefsing sem unnt er að fullnusta með samfélagsþjónustu.  Lögin öðlast gildi 1. október 2011.

Rafrænt eftirlit
Í lögunum er kveðið á um að þegar dæmd refsing er 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi eða lengri geti Fangelsismálastofnun leyft fanga að ljúka afplánun utan fangelsis enda hafi hann á sér búnað svo að unnt sé að fylgjast með ferðum hans. Þegar dæmd refsing er 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi er afplánun undir rafrænu eftirliti 30 dagar. Afplánun undir rafrænu eftirliti lengist um 2,5 daga fyrir hvern dæmdan mánuð og getur orðið 240 dagar hið mesta.

Farið er ítarlega yfir skilyrði þess að rafrænt eftirlit komi til greina. Fangi þarf m.a. að teljast hæfur til að sæta rafrænu eftirliti, hann þarf að hafa fastan dvalarstað sem samþykktur hefur verið af Fangelsismálastofnun og að hann stundi vinnu, nám, sé í starfsþjálfun, meðferð eða sinni öðrum verkefnum sem stofnunin hefur samþykkt og er liður í aðlögun hans að samfélaginu á ný.

Rafrænt eftirlit skal einnig bundið ákveðnum skilyrðum, m.a. að fangi sé undantekningarlaust á dvalarstað sínum frá kl. 18 til kl. 19 og frá kl. 23 til kl. 7 mánudaga til föstudaga og frá kl. 21 til kl. 7 laugardaga og sunnudaga. Þá skal fangi ekki neyta áfengis eða ávana- og fíkniefna og ekki fremja refsiverðan verknað.

Ólaunuð samfélagsþjónusta heimiluð       
Þegar maður hefur verið dæmdur í allt að níu mánaða óskilorðsbundið fangelsi er heimilt, ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því, að fullnusta refsinguna með ólaunaðri samfélagsþjónustu, minnst 40 klukkustundir og mest 360 klukkustundir.  Fram kemur í lögunum að Fangelsismálastofnun getur ákveðið að hluti ólaunuðu samfélagsþjónustunnar skuli felast í viðtalsmeðferð eða viðurkenndu námskeiði, enda nemi sá hluti samtals aldrei meira en einum fimmta samfélagsþjónustunnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum