Hoppa yfir valmynd
17. desember 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Atvinnuleysisbætur hækka um áramótin

Félagsmálaráðherra hefur ákveðið í samráði við ríkisstjórnina að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar um áramótin ásamt hámarksábyrgð úr Ábyrgðasjóði launa, fæðingarstyrk og lágmarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eins og hér segir:

Atvinnuleysisbætur

Með vísun til 7. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem gerð var vegna kjarasamninga á almennum markaði frá 7. mars sl. hefur félagsmálaráðherra ákveðið að hækka atvinnuleysisbætur um 3% frá 1. janúar 2005.

Hámarksbætur atvinnuleysistrygginga verða þá 4.219 kr. á dag.

Hámarksábyrgð úr Ábyrgðasjóði launa, sbr. 6. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa

Félagsmálaráðherra hefur ákveðið að hækka hámarksfjárhæðir skv. 6. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, um 4% frá 1. janúar 2005. Er með því farið að tillögum stjórnar Ábyrgðasjóðs launa sem lagði til við ráðherra að tekið yrði mið af þróun reglulegra launa samkvæmt skýrslum kjararannsóknarnefndar. Hámarksábyrgð á kröfum launamanna um vinnulaun fyrir síðustu þrjá starfsmánuði þeirra í þjónustu vinnuveitanda sem og kröfum um bætur vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi, sbr. a- og b-lið 5. gr. laganna, verður 270.000 kr. miðað við hvern mánuð. Hámarksábyrgð á kröfum um orlofslaun, sbr. c-lið 5. gr. laganna, verður 432.000 kr.

Fæðingarstyrkur og lágmarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði

Með vísun til 7. mgr. 13. gr., 3. mgr. 18. gr. og 3. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. l. nr. 90/2004, hefur félagsmálaráðherra ákveðið að hækka fæðingarstyrk og lágmarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði um 3% frá 1. janúar 2005. Lágmarksgreiðsla í fæðingarorlofi til foreldris í 25-49% starfi verður þá 67.184 kr. á mánuði og greiðsla til foreldris í 50-100% starfi verður að lágmarki 93.113 kr. á mánuði. Fæðingarstyrkur til foreldra utan vinnumarkaðar verður 41.621 kr. og fæðingarstyrkur til foreldra í námi verður 93.113 kr.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum