Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 87/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 25. febrúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 87/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21010003

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 31. desember 2020 kærði einstaklingur sem kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. desember 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Loks krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla með vísan til 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi fyrst hingað til lands í febrúar 2018 í atvinnuleit. Kona hans og barn sameinuðust honum hér á landi hinn 4. júlí 2018 og lögðu fram umsókn um alþjóðlega vernd hinn 30. október 2018. Kærandi dró umsókn sína um alþjóðlega vernd til baka hinn 20. desember 2019 og fór úr landi hinn 28. desember 2019. Hinn 8. apríl 2020 fengu kona og barn kæranda dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Hann sótti um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar hinn 8. júlí 2020 og sótti um alþjóðlega vernd að nýju hinn 7. október 2020. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun hinn 22. október 2020 ásamt talsmanni sínum. Kærandi dró umsókn sína um dvalarleyfi til baka hinn 18. nóvember 2020. Með ákvörðun, dags. 10. desember 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 31. desember 2020. Að ósk kæranda veitti Útlendingastofnun nánari rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun þann 28. desember 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 18. janúar 2021. Í greinargerð óskaði kærandi eftir því að honum yrði gefinn kostur á að mæta fyrir nefndina og gera grein fyrir máli sínu. Í ljósi frásagnar kæranda og skýrslna um heimaríki taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í nánari rökstuðningi ákvörðunar Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna þess að hann hafi komið sér undan því að starfa fyrir vígasamtök að nafni Lashkar-e-Islam.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Þrátt fyrir að umsókn kæranda hafi verið metin bersýnilega tilhæfulaus var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kæra skyldi fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga, enda kæmi kærandi ekki frá ríki sem er á lista stofnunarinnar um örugg upprunaríki.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Kærandi vísar til framburðar hans í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 22. október 2020 og greinargerðar sinnar til stofnunarinnar, dags. 6. nóvember 2020, hvað varðar málsástæður. Þar kemur fram að kærandi sé fæddur og uppalinn í [...] í Khyber Pakhtunkhwa héraði í Pakistan og sé af þjóðarbrotinu Pastún. Ástæða flótta kæranda frá heimaríki sé í fyrsta lagi ástæðuríkur ótti hans við undirhóp Talíbana að nafni Lashkar-e-Islam sem hafi skikkað hann til þess að ganga í raðir sínar og berjast fyrir sig. Faðir kæranda, sem sé lögreglumaður, hafi lent á skjön við meðlimi hópsins í störfum sínum. Þá hafi hópurinn ráðið bróður kæranda af dögum þann 18. febrúar 2011 og skilið eftir bréf þar sem fram komi að hefndaraðgerðum í garð fjölskyldu kæranda sé ekki lokið. Kærandi hafi flúið heimaríki fimm dögum síðar og aldrei snúið aftur. Í öðru lagi megi rekja flótta kæranda til ótta hans við pakistönsk stjórnvöld, nánar tiltekið herinn. Kærandi telur að verði hann ekki tekinn af lífi af meðlimum Lashkar-e-Islam eigi hann á hættu að vera handtekinn, yfirheyrður og tekinn af lífi af pakistanska hernum án dóms og laga. Kærandi telur, í ljósi uppruna síns og þess að meðlimir Lashkar-e-Islam séu á eftir að honum, að hann geti ekki flutt sig um set innanlands. Þá telur kærandi að hann geti ekki leitað aðstoðar lögreglu eða yfirvalda í heimaríki. Hann hafi gert tilraun til þess áður en hann hafi lagt á flótta en án árangurs.

Í greinargerð er fjallað um erfiða stöðu einstaklinga af Pastún þjóðarbrotinu og mannréttindabrot í Pakistan. Hvað varðar frekari upplýsingar um Pastún þjóðarbrotið, aðstæður í Pakistan og ítök og hryðjuverkastarfsemi Talíbana vísar kærandi til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar og alþjóðlegra skýrslna sem hann telur styðja mál sitt.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu Talíbana og yfirvalda vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, og þjóðernis hans, sbr. c-lið 2. mgr. 38. gr. laganna. Kæranda hafi verið neyddur til að vinna fyrir Talíbana og tekist að flýja úr haldi þeirra. Þá geti stjórnvöld samsamað hann Talíbönum vegna þess að hann sé af þjóðarbrotinu Pastún. Til stuðnings kröfu sinnar vísar kærandi m.a. til tveggja ákvarðana Útlendingastofnunar frá árinu 2018 þar sem fallist hafi verið á að einstaklingar af Pastún þjóðarbrotinu ættu á hættu ofsóknir af hálfu Talíbana vegna starfa sinna. Þá vísar kærandi til umfjöllunar í greinargerð til Útlendingastofnunar þar sem fram komi m.a. að það stafi enn ógn af Talíbönum þrátt fyrir að staða þeirra hafi breyst í Pakistan. Þá telur kærandi að þeir aðilar sem hann óttist, þ.e. pakistanskir Talíbanar og pakistanskar öryggissveitir, falli undir ákvæði a- og c-liða 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá telur hann ljóst að yfirvöld hafi hvorki getu né vilja til að veita honum þá vernd sem hann þarfnist.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er til vara gerð sú krafa að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið í tengslum við aðalkröfu kæranda sé ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands síns. Almennt öryggisástand í Pakistan, þá sérstaklega í heimahéraði kæranda, Khyber Pakhtunkhwa, sé mjög ótryggt og gríðarlegt mannfall sé ár hvert vegna árása af hálfu öryggissveita ríkisins og hryðjuverkasamtaka. Þá beiti yfirvöld borgara sína pyndingum og brjóti þannig á mannréttindum þeirra.

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af öllu því sem þegar hafi verið rakið telji kærandi ljóst að viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað í Pakistan og að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki næga vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum. Því geti kærandi ekki treyst á vernd yfirvalda vegna þeirrar hættu sem honum stafar af Talíbönum og vegna stöðu sinnar sem einstaklingur af Pastún þjóðarbrotinu. Í ljósi framangreinds telur kærandi að skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt og beri því að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Loks gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að hann uppfylli skilyrði til veitingar dvalarleyfis á grundvelli ákvæðisins. Eiginkona kæranda og fjögurra ára gamall sonur þeirra hafi fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarástæðna og séu búsett hér á landi ásamt eldri kjördóttur þeirra. Ljóst sé að tengsl kæranda við fjölskyldu sína og aðstoð sem hann njóti af þeirra hálfu sé honum afar mikilvæg, enda hafi hann flúið heimaríki ungur að aldri og ekki notið stuðnings eða samveru við fjölskyldu í heimaríki eftir það.

Í greinargerð kæranda koma fram fjölmargar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þá einkum við umfjöllun stofnunarinnar um breytta stöðu Talíbana í Pakistan. Kærandi mótmælir því að Talíbanar séu ekki lengur til staðar í Pakistan og að ógn þeirra hafi minnkað. Munurinn á starfsemi þeirra nú og áður sé sá að Talíbanar séu ekki lengur á meðal almennings en í staðinn haldi þeir til á öruggum griðarstöðum og vinni að markvissum aðgerðum. Í því sambandi vísar kærandi til alþjóðlegra skýrslna og nýlegs dóms frá Nýja-Sjálandi sem hann telur styðja mál sitt. Þá telur kærandi að trúverðugleikamat Útlendingastofnunar og mat á framlögðum gögnum sé byggt á misskilningi. Kærandi telur að orsök þess megi rekja til þess að einn fulltrúi stofnunarinnar hafi tekið viðtal við sig og annar hafi skrifað ákvörðunina. Að framangreindu virtu telur kærandi að Útlendingastofnun hafi ekki framkvæmt einstaklingsbundið mat á aðstæðum hans í heimaríki.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi lagt fram ítalskt flóttamannavegabréf og afrit af útrunnu pakistönsku vegabréfi til að sanna á sér deili. Að þeim gögnum virtum hafi Útlendingastofnun ekki talið að auðkenni kæranda væri upplýst, enda væri óvíst á hvaða upplýsingum hið ítalska ferðaskilríki byggði. Leysti stofnunin því úr auðkenni kæranda á grundvelli trúverðugleikamats í nánari rökstuðning ákvörðunarinnar. Það var mat Útlendingastofnunar, m.a. í ljósi þess að kærandi talar pashto og urdu og lýsti staðháttum í Pakistan, að engin ástæða væri til að draga í efa að hann væri pakistanskur ríkisborgari. Við meðferð máls hans hjá kærunefnd framvísaði kærandi pakistönsku auðkennisskilríki. Að mati kærunefndar er umrætt skilríki ekki til þess fallið að sanna auðkenni kæranda. Kærunefnd hefur hins vegar ekki forsendur til að hnekkja mati Útlendingastofnunar á auðkenni kæranda og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé pakistanskur ríkisborgari. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óljóst.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Pakistan, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices: Pakistan (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Country Reports on Terrorism 2017 – Foreign Terrorist Organizations: Tehrik-e Taliban Pakistan (U.S. Department of State, 19. september 2018);
  • Country Policy and Information Note. Pakistan: Background information, including actors of protection, and internal relocation (UK Home Office, júní 2020);
  • Country Policy and Information Note. Pakistan: Security and humanitarian situation, including fear of militant groups (UK Home Office, janúar 2019);
  • Country Policy and Information Note. Pakistan: Medical and healthcare provisions (UK Home Office, september 2020);
  • DFAT Country Information Report. Pakistan. (Australian Government. Department of Foreign Affairs and Trade, 20. February 2019);
  • EASO Country of Origin Report – Pakistan Security Situation (EASO, 30. október 2020);
  • Freedom in the World 2020 – Pakistan (Freedom House, 4. mars 2020);
  • Khyber Pakhtunkhwa Tribal Districts. Annual Security Report 2018 (FATA Research Centre, 15. janúar 2019);
  • Khyber Pakhtunkhwa Tribal Districts. Annual Security Report 2019 (FATA Research Centre, 13. janúar 2020);
  • Khyber Pakhtunkhwa Tribal Districts. Annual Security Report 2020 (FATA Research Centre, 7. janúar 2021);
  • Mapping Militant Organizations. “Lashkar-e-Islam” (Stanford University, Center for International Security and Cooperation, síðast uppfært 2019);
  • Pakistan: Country Report (Asylum Research Consultancy, 18. júní 2018);
  • Pakistan: First Information Reports (FIRs) (2010-December 2013) (Immigration and Refugee Board of Canada, 10. janúar 2014);
  • Pakistan - Mänskliga rättigheter, demokrati och rättstatens principer: situationen per den 31 december 2018 (Utrikesdepartimentet, 18. júní 2019);
  • Pakistan Security Report 2018 (PAK Institute for Peace Studies (PIPS), 6. janúar 2019);
  • Pakistan Security Report 2019 (PAK Institute for Peace Studies (PIPS), 5. janúar 2020);
  • Pakistan Security Situation. Country of Information Report (European Asylum Support Office, október 2019);
  • Pakistan: Sikkerhetssituasjonen i Khyber Pakthunkhwa (inkludert FATA) (Landinfo, 21. júní 2018);
  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 15. febrúar 2021);
  • The World Factbook: Pakistan (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 16. febrúar 2021);
  • World Report 2020 – Pakistan (Human Rights Watch, 15. janúar 2020)
  • Vefsíða Human Rights Commission of Pakistan (http://hrcp-web.org/hrcpweb/, sótt 14. febrúar 2021);
  • Vefsíða lögreglu í Khyber Pakhtunkhwa (http://kppolice.gov.pk/index.php, sótt 15. febrúar 2021);
  • Vefsíða: Provincial Ombudsman Khyber Pakhtunkhwa (https://www.ombudsmankp.gov.pk/, sótt 15. febrúar 2021);
  • Stjórnarskrá Pakistan (http://na.gov.pk/uploads/documents/1333523681_951.pdf).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Pakistan sambandslýðveldi með rúmlega 233 milljónir íbúa. Þann 30. september 1947 gerðist Pakistan aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 2010 og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 2008. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1966 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2010. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1996, en ríkið hefur hins vegar ekki undirritað valfrjálsa viðbótarbókun við samninginn. Pakistan fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2020 kemur fram að þrátt fyrir að pakistönsk löggjöf banni handahófskenndar handtökur og varðhald, jafnframt sem lögin kveði á um rétt til að vefengja lögmæti handtöku fyrir dómi, þá sé spilling innan lögreglunnar vandamál í Pakistan. Spilling á lægri stigum lögreglunnar sé algeng og séu dæmi um að lögreglan þiggi mútur. Einstaklingar tilkynni um meinta glæpi eða brot til lögreglunnar með svokallaðri FIR skýrslu (e. first instance report). FIR skýrslan sé fyrsta skrefið við rannsókn sakamáls og sé hún oftast lögð fram af þriðja aðila þó svo að lögreglan hafi heimild til að gera slíka skýrslu sjálf. FIR skýrslan veiti lögreglunni heimild til að halda meintum brotamanni í gæsluvarðhaldi í 24 klukkustundir á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hægt sé að leggja fram slíka skýrslu hjá lögreglumanni, á lögreglustöð og á vefsíðum ákveðinna lögregluembætta í Pakistan. Þá hafi lögreglan í Punjab sett upp rafrænt kvörtunarkerfi til þess að taka á móti kvörtunum almennra borgara sem telji lögregluna ekki hafa sinnt skyldum sínum. Kvörtunum vegna þess að FIR skýrsla hafi ekki verið skráð eigi að svara innan 72 klukkustunda.

Í fyrrnefndri skýrslu kemur fram að þrátt fyrir að pakistönsk lög kveði á um sjálfstætt dómskerfi, réttláta málsmeðferð og að enginn skuli sviptur lífi, eignum eða frelsi án dóms og laga beri gögn með sér að dómskerfið hafi verið gagnrýnt fyrir spillingu. Spilling sé innan héraðsdómstóla en þeir séu afkastalitlir og undir þrýstingi frá auðugum og áhrifamiklum einstaklingum, einkum á sviði trúar- og stjórnmála. Þá kemur fram að þrátt fyrir að veikleikar séu í réttarkerfinu í Pakistan þá sé spilling refsiverð samkvæmt lögum, en ábyrgðarskrifstofa ríkisins (e. National Accountability Bureau (NAB)) hafi það hlutverk að útrýma spillingu í stjórnkerfum landsins með vitundarvakningu, forvörnum, rannsókn spillingarmála jafnframt sem skrifstofan ákæri í slíkum málum. NAB hafi heimild samkvæmt lögum að halda einstaklingum í 15 daga án þess að ákæra og mögulegt sé að framlengja varðhaldið með samþykki dómstóla. Synja megi einstaklingnum um leyfi til að ráðfæra sig við lögmann meðan á rannsókn standi. Þá sé ekki unnt að greiða tryggingu til að losna úr varðhaldi heldur sé það einungis ákvörðun formanns NAB að láta einstakling lausan.

Í fyrrnefndri skýrslu EASO kemur fram að Tehrik-e- Taliban (TTP) séu regnhlífarsamtök þrettán aðskildra talíbanahópa í Pakistan. Upphafleg markmið TTP, sem hafi verið stofnuð árið 2007, hafi verið að aðstoða afganskar hersveitir talíbana við að hrekja herafla Atlantshafsbandalagsins (NATO) frá Afganistan, koma á fót sjaría lögum í Pakistan og heyja heilagt varnarstríð gegn pakistönskum yfirvöldum (e. defensive jihad). Í því skyni hafi TTP staðið að baki ótal hryðjuverka- og stjórnmálatengdum árásum, þá sérstaklega á ættbálkasvæðum í norðvestur Pakistan, áður þekkt sem FATA svæði (Federal Administered Tribal Areas), og í Khyber Pakhtunkhwa héraði. Þann 31. maí 2018 hafi FATA svæðið, þ.m.t. Khyber umdæmi, hvar kærandi kveðst hafa haft búsetu áður en hann hafi lagt á flótta frá heimaríki, orðið hluti af Khyber Pakhtunkhwa héraði.

Í framangreindum skýrslum Stanford háskóla frá 2019 og EASO frá 2020 kemur fram að Lashkar-e-Islam séu íslömsk vígasamtök sem hafi það að markmiði að ná stjórn yfir Khyber umdæmi í Khyber Pakhtunkhwa héraði. Frá 2008 til 2014 hafi samtökin farið með stjórn í ýmsum hlutum umdæmisins, eða allt þar til yfirvöldum í Pakistan hafi tekist að hrekja meðlimi samtakanna til Afganistan með stórfelldum hernaðaraðgerðum. Í maí 2015 hafi Lashkar-e-Islam tilkynnt að samtökin hefðu sameinast TTP, en samtökin hafi einnig haldið óháðri starfsemi sinni áfram. Undanfarin ár hafi dragið verulega úr mætti samtakanna. Leiðtogar hafi látið lífið í árásum flygilda og samtökin hafi einungis staðið að baki tveimur árásum í Pakistan árið 2019 og tíu árið áður, samanborið við 21 árás árið 2017.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér verður ráðið að það sé fylgst náið með öryggisástandinu í Khyber Pakhtunkhwa, þ. á m. taki frjálsu félagasamtökin PAK Institute for Peace Studies (PIPS) og Fata Research Centre (FRC) saman ítarlegar tölfræðilegar upplýsingar um árásir í héraðinu. Framangreindar skýrslur samtakanna bera það með sér að hryðjuverkaárásir TTP og annarra vígasamtaka hafi leitt til þess að öryggisástandið í Khyber Pakthunkhwa hafi víða verið ótryggt. Meirihluti árása hafi beinst að hersveitum yfirvalda en almennir borgarar hafi einnig verið skotmörk. Samkvæmt skýrslum fyrrnefndra samtaka frá 2018 og 2019 hafi öryggisástandið í héraðinu batnað talsvert. Hryðjuverka- og sprengjuárásum hafi fækkað verulega, þ. á m. í Khyber umdæmi þar sem 18 árásir hafi verið skráðar árið 2018 og 12 árásir árið 2019, samanborið við 115 árásir árið 2017. Aftur á móti hafi sú tíðni farið hækkandi í héraðinu árið 2020 samkvæmt skýrslu FRC frá 2021, þ. á m. í Khyber umdæmi þar sem 21 árás hafi verið skráð á árinu.

Á framangreindri vefsíðu Provincial Ombudsman kemur fram að í Khyber Pakhtunkhwa sé starfandi umboðsmaður sem hafi m.a. það hlutverk að vernda rétt borgaranna gegn brotum opinberra starfsmanna og koma í veg fyrir spillingu. Umboðsmaðurinn geti tekið til skoðunar öll ætluð brot opinberra starfsmanna sem varði borgara landsins að undanskildum ætluðum brotum æðsta dómstólsins (e. High Court) og dómstóla sem vinni undir yfirstjórn hans.

Í framangreindri skýrslu áströlsku utanríkisþjónustunnar frá 2019 kemur fram að Pakistan sé fjölþjóðlegt og fjöltyngt samfélag. Meirihluti þjóðarinnar, eða um 45%, tilheyri Punjab þjóðernishópnum og tali Punjabi. Því næst komi Pastún þjóðernishópurinn sem telji u.þ.b. 15% þjóðarinnar og tali Pastó. Þá sé Úrdú opinbert tungumál landsins. Pastúnar eigi fulltrúa á öllum sviðum samfélagsins, þ. á m. hjá lögreglu- og öryggissveitum. Venju samkvæmt búi Pastúnar meðal þeirra eigin ættbálka í Khyber Pakhhunkhwa héraði en þeir hafi í miklum mæli flust til Karachi, Islamabad, Lahore og Peshawar undanfarna áratugi. Í umræddum borgum hafi Pastúnar tilkynnt um áreiti af hálfu opinbera starfsmanna og mismunun á grundvelli kynþáttar, t.a.m. handtökur vegna ætlaðra tengsla við hryðjuverkasamtök, sem megi m.a. rekja til þess að meirihluti fylgjenda TTP séu Pastúnar. Í ljósi þess kjósi Pastúnar, sem flytji búferlum innan Pakistan, að setjast að á svæðum þar sem þeir séu í meirihluta og hafi fjölskyldutengsl, þá sérstaklega í héruðunum Khyber Pakhtunkhwa eða Sindh. Þá hafi þjóðfélagshreyfingin Pashtun Tahafuz Movement (PTM) haldið því fram að öryggissveitir yfirvalda hafi gerst sekar um margvísleg mannréttindabrot gegn Pastún þjóðernishópnum, þ.m.t. þvinguð mannrán og ólögmætar aftökur. Til að mótmæla framangreindu og krefjast betri réttinda Pastúna hafi hreyfingin efnt til útbreiddra mótmæla í apríl 2018.

Í framangreindri skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá september 2020 kemur fram að spítalar á vegum hins opinbera í Pakistan veiti ríkisborgurum heilbrigðisþjónustu að endurgjaldslausu. Hins vegar kjósi meirihluti ríkisborgara að borga fyrir heilbrigðisþjónustu sem sé talin vera af betri gæðum. Lítill hluti ríkisborgara séu með heilbrigðistryggingu en yfirvöld hafi komið á fót verkefni í Khyber Pakhtunkhwa héraði og Islamabad sem tryggja eigi efnalitlum fjölskyldum niðurgreidda heilbrigðisþjónustu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Samkvæmt viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun, dags. 22. október 2020, er umsókn hans um alþjóðlega vernd byggð á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu, Pakistan, vegna þess að hann óttist að vígasamtökin Lashkar-e-Islam muni taka hann af lífi. Kærandi kvað að meðlimir samtakanna hafi ráðist á hann á netkaffihúsi í hans eigu árið 2005 með þeim afleiðingum að hann hafi þurft að leita sér læknisaðstoðar á sjúkrahúsi. Þá hafi þeir eyðilegt netkaffihúsið þar sem þeir hafi talið að starfsemi þess færi gegn grunngildum íslam. Lashkar-e-Islam hafi neytt kæranda til að vinna fyrir sig við nafnaskráningu og reikningshald á tímabilinu 2006 til 2007 eða 2007 til 2008. Þá hafi þau beðið kæranda um að taka þátt í vopnuðum átökum þegar brýna nauðsyn hafi borið til. Faðir kæranda, sem hafi starfað sem lögregluþjónn, hafi lent í skotbardaga við meðlimi Lashkar-e-Islam og hafi nafntogaður einstaklingur innan raða samtakanna látið lífið í bardaganum. Hinn 18. febrúar 2011 hafi samtökin ráðið bróður kæranda, sem starfað hafði fyrir bandaríska sendiráðið og alþjóðlegt öryggisfyrirtæki að nafni […], af dögum og skilið eftir bréf þess efnis að þau myndu ná fram hefndum. Fimm dögum síðar, þann 23. febrúar 2011, hafi kærandi og fjölskylda hans lagt á flótta, fyrst innanlands og svo frá landinu. Kærandi telji, vegna framangreinds og í ljósi þess að hann hafi yfirgefið samtökin án leyfis, að þau séu enn á eftir honum. Þá telji kærandi að hann geti ekki leitað verndar lögreglu eða yfirvalda í heimaríki.

Kærandi hefur lagt fram umtalsvert magn af gögnum sem hann telur styðja frásögn sína. Í mörgum tilvikum er um að ræða afrit af gögnum og er því ekki mögulegt fyrir kærunefnd að kanna áreiðanleika þeirra eða uppruna. Þá telur kærunefnd óvíst hvernig framlögð gögn eigi að styrkja grundvöll umsóknar kæranda eða þá hvernig þau tengist hans persónubundnu aðstæðum. Til að mynda hefur kærandi lagt fram dánarvottorð [...], sem kærandi kveður að sé bróðir sinn, og vottorð um flutning [...] í starfi hjá lögreglunni árið 1989, sem kærandi kveður að sé faðir sinn. Í dánarvottorði [...], sem ber með sér að hafa verið útgefið af yfirvöldum í Pakistan, kemur fram að lík hans hafi fundist (e. Deadbody found) og að andlát hans hafi borið að með óeðlilegum hætti (e. Un-natural). Þá kemur fram í öðru dánarvottorði [...], sem ber með sér að hafa verið útgefið af spítala í Jamrud Khyber Agency, að ótilgreindir aðilar hafi skotið hann (e. fire injured by the unknown persons). Í fyrrnefndum gögnum, sem og öðrum framlögðum gögnum, kemur ekkert fram sem styður frásögn kæranda um að hann hafi verið neyddur til að starfa fyrir vígasamtökin Lashkar-e-Islam og verið í haldi þeirra, að faðir hans hafi lent í skotbardaga við meðlimi samtakanna eða að samtökin hafi ráðið bróðir hans af dögum.

Kærandi hefur að öðru leyti ekki fært fram trúverðug gögn, t.a.m. um aðkomu hans að starfi Lashkar-e-Islam, sem þykja til þess fallin að styðja við frásögn hans af þeim atvikum sem hann hefur lagt til grundvallar umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Í ljósi frásagnar kæranda sjálfs um að framangreindir atburðir hafi átt sér stað á árunum 2005-2011 er að mati kærunefndar ekki ósanngjarnt að gera kröfu um að kærandi leggi fram einhver gögn sem leiði að því líkur að hann eigi á hættu ofsóknir af hálfu meintra ofsóknaraðila í heimaríki.

Kærandi hefur auk þess lagt fram fjölda athugasemda til kærunefndar vegna máls hans. Í fyrrnefndum athugasemdum kæranda, dags. 31. janúar 2021 kemur fram að hann hafi ekki snúið aftur til heimaríkis frá því að hann hafi lagt á flótta árið 2011. Stangast það á við frásögn kæranda í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 13. október 2019 þar sem kærandi greindi frá því að frá árinu 2011 hafi hann verið á Ítalíu, Finnlandi og Svíþjóð áður en hann hafi snúið aftur til heimaríkis. Þá stangast frásögn kæranda að ýmsu leyti á við frásagnir eiginkonu hans, [...], og meintra fjölskyldumeðlima kæranda sem hafa einnig sótt um alþjóðlega vernd hér á landi, þ.e. [...], sem kærandi kveður að sé kjörsonur þeirra, og [...], sem kærandi kveður að sé kjördóttir þeirra. Svo sem um tengsl þeirra, störf kæranda í heimaríki og aðdraganda flótta þeirra frá heimaríki. Enn fremur hefur verið misræmi í framburði kæranda milli viðtala hjá Útlendingastofnun, þ. á m. um andlát fyrrnefnds [...].

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi sótt um vernd á Ítalíu árið 2011, í Finnlandi árið 2015 og í Svíþjóð árið 2016. Kærunefnd óskaði eftir upplýsingum og gögnum vegna umsókna kæranda um alþjóðleg vernd í þessum löndum. Í svari frá sænskum yfirvöldum, dags. 28. janúar 2021, kemur fram að kærandi sé þekktur sem [...], f.d. [...], ríkisborgari Afganistan þar í landi. Þann sama dag var kæranda gefinn kostur á að koma með athugasemdir varðandi ofangreint. Í athugasemdum kæranda, dags. 31. janúar 2021, kvaðst kærandi hafa gefið upp rangt auðkenni þegar hann hafi sótt um alþjóðlega vernd í Svíþjóð þar sem hann hafi óttast að hann og eiginkona hans, sem hafi verið barnshafandi á þeim tíma, yrðu send aftur til Ítalíu. Það liggur því fyrir að kærandi hafi, við umsókn sína um alþjóðlega vernd í Svíþjóð, gefið stjórnvöldum þar í landi upplýsingar um sig sem stangast á við upplýsingar sem hann hafi síðar gefið stjórnvöldum hér á landi. Það er mat kærunefndar að fyrri villandi upplýsingagjöf kæranda til stjórnvalda dragi úr trúverðugleika frásagnar hans.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat kærunefndar að frásögn kæranda af málsatvikum sem hann kveður að leitt hafi til flótta hans frá heimaríki sé, heildstætt metið, ótrúverðug og verður hún því ekki lögð til grundvallar í málinu. Samkvæmt framansögðu verður því ekki unnt að leggja til grundvallar í málinu að kærandi eigi á hættu ofsóknir af hálfu Lashkar-e-Islam eða Talíbana í heimaríki.

Hvað varðar vísun kæranda til ákvarðana Útlendingastofnunar sem hann telur sambærilegar sínu máli þá tekur kærunefnd fram að forsendur og rökstuðningur ákvarðana Útlendingastofnunar eru ekki bindandi fyrir kærunefnd. Jafnframt telur kærunefnd, m.a. með vísan til niðurstöðu framangreinds trúverðugleikamats, að málsatvik og aðstæður aðila þeirra mála séu ekki sambærilegar þeim aðstæðum sem eiga við í máli kæranda.

Kærandi hefur einnig borið fyrir sig að hann eigu á hættu ofsóknir í Pakistan þar sem hann tilheyri Pastún þjóðarbrotinu. Kærandi telur að stjórnvöld geti samsamað hann Talíbönum vegna uppruna hans og tekið hann af lífi án dóms og laga. Hann hefur ekki borið fyrir sig að hafa orðið fyrir vanvirðandi meðferð eða ofsóknum af þeim sökum. Þá benda framangreindar landaupplýsingar ekki til þess að þeir sem tilheyri Pastún þjóðarbrotinu eigi á hættu mismunun eða áreiti sem nái því alvarleikastigi að fela í sér ofsóknir eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð í skilningi 1. mgr. 37. gr., sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Verður því ekki lagt til grundvallar að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu stjórnvalda vegna uppruna síns. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir í heimaríki hans af öðrum ástæðum.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

 

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Þrátt fyrir átök í Khyber Pakhtunkhwa undanfarin ár, héraði sem kærandi kveður vera heimahérað sitt, er það mat kærunefndar að þau gögn og heimildir sem kærunefnd hefur yfirfarið við meðferð málsins bendi ekki til þess að aðstæður í héraðinu séu slíkar að kærandi eigi á hættu meðferð sem brjóti í bága við 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Það er því mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í Pakistan eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Kærandi ber fyrir sig ótryggt öryggisástand í heimaríki. Þá telur kærandi að hann geti ekki treyst á vernd yfirvalda í heimaríki vegna þeirrar hættu sem honum stafi af Talíbönum og vegna stöðu sinnar sem einstaklingur af Pastún þjóðarbrotinu. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga vísi einnig til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrota í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með vísan til umfjöllunar um trúverðugleika kæranda og aðstæður í heimaríki telur kærunefnd að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að grundvöllur sé til veitingar dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi fá verk fyrir hjarta og í neðra baki sem trufli svefn hans. Þá hafi hann áhyggjur af sjón sinni. Af framlögðum gögnum verður ekki ráðið að kærandi glími við skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm eða sé í meðferð sem óforsvaranlegt sé að rjúfa. Þá kemur í gögnum um heimaríki kæranda fram, líkt og að framan er rakið, að ríkisborgurum sé tryggð endurgjaldslaus heilbrigðisþjónusta í Pakistan.

Þegar framangreindar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands þann 7. október 2020 og sótti um alþjóðlega vernd þann sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar.

Við mat á því hvort eigi að frávísa kæranda hefur kærunefnd litið til þess hvort slík ráðstöfun feli í sér inngrip í réttindi sem tryggð eru í 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, vegna fjölskyldutengsla kæranda hér á landi. Í dómaframkvæmd hefur Mannréttindadómstóll Evrópu vísað til þeirrar viðurkenndu meginreglu þjóðaréttar að ríki hafi, með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar sínar, rétt til að stjórna aðgengi erlendra ríkisborgara að landsvæði sínu og dvöl þeirra þar. Við mat á því hvort fyrir hendi sé skerðing á rétti samkvæmt 8. gr. sáttmálans hefur dómstóllinn m.a. litið til þess hver áhrifin eru á fjölskyldulíf einstaklingsins og hvort það séu óyfirstíganlegar hindranir fyrir því að fjölskyldan geti sameinast og búið í heimaríki. Þá hefur dómstóllinn einnig litið til þess hvort um sé að ræða fjölskyldulíf sem stofnað hefur verið til í aðildarríki af einstaklingum sem dveljast þar löglega, sjá t.d. mál Slivenko gegn Lettlandi (mál nr. 48321/99) frá 9. október 2003 eða hvort aðilum mátti vera það ljóst að dvöl þeirra í landinu væri háð einhverjum takmörkunum ( sjá t.d. mál Sarumi gegn Bretlandi nr. 43279/98).

Samkvæmt gögnum málsins á kærandi eiginkonu og barn, sem er […] ára, hér á landi og hafa þau verið handhafar tímabundins dvalarleyfis hér á landi, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, frá 22. apríl 2020. Kærandi hefur ekki dvalið hér á landi á grundvelli gilds dvalarleyfis. Eins og áður greinir dró kærandi umsókn sína um alþjóðlega vernd, dags. 30. október 2018, til baka þann 20. desember 2019 og fór úr landi þann 28. desember 2019. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd að nýju hinn 7. október 2020. Frá þeim tíma hefur hann dvalið á landinu vegna málsmeðferðar þessa máls og umsóknar um dvalarleyfis á grundvelli fjölskyldusameiningar hjá Útlendingastofnun, dags. 8. júlí 2020, sem hann dró til baka þann 18. nóvember 2020. Af fyrirliggjandi gögnum er þannig ljóst að kærandi og fjölskylda hans hafa lítil tengsl hér á landi og hafa ekki stofnað til fjölskyldulífs í lögmætri dvöl hér á landi. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki fallist á að kærandi hafi myndað fjölskyldulíf sem njóti verndar 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hér á landi, sbr. jafnframt 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Þá hefur kærunefnd litið til þess að engar formlegar hindranir eru á því að kærandi og fjölskylda hans geti sameinast annars staðar en hér á landi. Til að mynda á Ítalíu, hvar þau hafa öll ótímabundin rétt til dvalar, eða í heimaríki kæranda, enda hafa íslensk stjórnvöld komist að þeirri niðurstöðu að kærandi og eiginkona hans eigi ekki á hættu ofsóknir eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð þar í landi. Þá hafa bæði eiginkona kæranda og sonur hans dvalið í Pakistan tímabundið árið 2018. Sonur kæranda er ungur og ætti því að eiga auðvelt með að aðlagast aðstæðum bæði í heimaríki sem og á Ítalíu. Einnig hefur kærandi möguleika á að ferðast hingað til lands og dvelja í 30 daga á hverju 90 daga tímabili með eiginkonu sinni og syni. Þá getur kærandi ræktað tengsl sín með samskiptum við þau með notkun samskiptaforrita. Með vísan til framangreinds verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar, með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Í ljósi Covid-19 faraldursins er athygli kæranda einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Leiðbeiningar til kæranda

Kærandi krefst þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla með vísan til 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga þar sem eiginkona hans og barn séu handhafar dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Í 5. mgr. 78. gr. laga um útlendinga kemur fram að með sérstökum tengslum sé ekki átt við fjölskyldutengsl viðkomandi útlendings, en um þau fari skv. VIII. kafla laganna. Kæranda er því leiðbeint um að sækja um dvalarleyfi á þeim grundvelli hjá Útlendingastofnun, svo sem Útlendingastofnun hefur áður leiðbeint kæranda um. Með þessum leiðbeiningum hefur kærunefnd ekki tekið afstöðu til þess hvort kærandi fullnægi skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla laganna fyrir veitingu dvalarleyfis.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

 

 

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                                    Sindri M. Stephensen

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum