Hoppa yfir valmynd
18. júní 2012 Innviðaráðuneytið

Ný reglugerð um fjármálareglur sveitarfélaga og fjárhagsleg viðmið

Innanríkisráðuneytið hefur gefið út reglugerð um fjármálareglur og fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga. Hún er sett á grundvelli nýrra sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 sem tóku gildi í byrjun árs. Tók hún gildi 15. júní.

Reglugerðinni er ætlað að setja skýr viðmið um rekstur og fjárhagsstöðu sveitarfélaga og tryggja virkt eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær kröfur um fjárhagslega sjálfbærni sem gerðar eru í sveitarstjórnarlögum. Jafnframt er það markmið reglugerðarinnar að stuðla að gagnsæi og samræmdu verklagi við mat á fjárhagslegri stöðu og afkomu sveitarfélaga og tryggja formfestu í samskiptum þeirra við eftirlitsaðila með fjármálum sveitarfélaga. Reglugerðin kveður á um störf eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, málsmeðferð nefndarinnar og aðferðir við mat á fjárhagsstöðu sveitarfélaga með hliðsjón af þeim viðmiðum sem sett eru í 2. mgr. 64. gr. sveitarstjórnarlaga. Reglugerðin skilgreinir forsendur viðmiðanna, kveður á um leyfileg frávik frá viðmiðum, útreikning þeirra og aðlögunartíma sveitarfélaga að þeim í samræmi við 3. mgr. 64. gr. sveitarstjórnarlaga og  II. og III. bráðabirgðaákvæði við lögin.

Við samningu reglugerðarinnar var haft náið samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og reikningsskila- og upplýsinganefnd. Þá voru drög að reglugerðinni sett á heimasíðu ráðuneytisins í mars síðastliðnum þar sem óskað var umsagnar um þau. Athugasemdir og ábendingar bárust frá níu aðilum en samstarfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga fór yfir umsagnirnar sem margar hverjar voru til bóta.

Með reglugerð þessari fellur úr gildi reglugerð um eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga nr. 374/2011, með síðari breytingu.

Þá er rétt að geta þess að í reglugerðinni er bráðabirgðaákvæði þar sem kveðið er á um að reglugerðina beri að endurskoða fyrir 1. janúar 2014.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum