Hoppa yfir valmynd
3. október 2001 Utanríkisráðuneytið

Hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin - Ræða ráðherra á Alþingi

    Ræða utanríkisráðherra á Alþingi 3. október 2001 -
    Hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin

    Herra forseti,

    Það þarf vart að fjölyrða um ástæður þess að ég hef frumkvæði að þessari umræðu hér á háttvirtu Alþingi. Hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin hafa þegar haft djúpstæð áhrif um heim allan og ekki sér fyrir endann á afleiðingum þeirra enn. Seint eða aldrei mun mönnum líða úr minni þær ógnvekjandi myndir sem fyrir augu bar er tveimur farþegaþotum var flogið á turnana tvo í New York borg að morgni ellefta september síðastliðinn - og síðan einnig á Pentagon. Eflaust verður þess einnig langt að bíða að við áttum okkur til fullnustu á þýðingu þeirra voveiflegu atburða sem öll heimsbyggðin fylgdist með þennan örlagaríka dag fyrir þremur vikum. Eitt er þó hafið yfir allan vafa; að veröld okkar verður aldrei söm á eftir.
    Harmleikurinn hefur margar hliðar, bæði mannlegar og efnahagslegar. Tölur um fórnarlömb hryðjuverkanna segja sína sögu; nálega sex þúsund manns frá samtals um áttatíu ríkjum létu lífið eða er ennþá saknað eftir þennan blóðuga dag í sögu Bandaríkjanna. Tugir þúsunda eiga um sárt að binda eftir brotthvarf ástvina, þ.á m. börn, sem misst hafa annað eða bæði foreldri.
    Áður en lengra er haldið, veit ég að þingheimur allur tekur undir samúðarkveðjur til bandarísku þjóðarinnar, ríkisstjórnar Bandaríkjanna og allra þeirra fjölmörgu um heim allan sem syrgja lát ættingja og vina.


    Illvirkjarnir og bandamenn þeirra
    Hverjir stóðu að baki hinum samviskulausu árásunum þennan dag er sú spurning sem bandarísk stjórnvöld í samvinnu við fjölmörg ríki hafa leitast við að svara að undanförnu. Hinir seku verða dregnir til ábyrgðar, um réttmæti þess efast enginn. Böndin bárust skjótt að hinum samviskulausa hryðjuverkamanni Osama bin Laden og samverkamönnum hans í Al Qaeda hreyfingunni sem láta fyrir berast í Afganistan í skjóli talibanastjórnarinnar í Kabúl. Á ráðsfundi í Atlantshafsbandalaginu í gær lögðu Bandaríkjamenn fram gögn um að árásirnar voru skipulagðar af Al Qaeda með vitund og vilja bin Ladens.
    Menn leita skýringa á voðaverkunum - en látum ekki blekkjast - þau hryðjuverkasamtök sem hér voru að verki eru ekki knúin áfram af háleitum pólitískum eða trúarlegum markmiðum heldur vakir einungis fyrir þeim að valda sem mestri eyðileggingu, sem dýpstum harmi og sem mestri upplausn. Þau ráðast að kjarna siðmenningar okkar og reyna með huglausum og grimmilegum árásum að grafa undan lýðræði og frelsi sem þau ríki sem samtökin beina helst spjótum sínum að hafa í hávegum.
    Ríkisstjórnir sem styðja og hýsa hryðjuverkamenn bera hér mikla ábyrgð. Markmið alþjóðasamfélagsins er að einangra þá seku svo þeir eigi sér hvergi skjól og aðeins þannig verða samtök þeirra upprætt.
    Til að skipuleggja og hrinda í framkvæmd voðaverkunum þann 11. september hefur þurft umtalsvert skipulag og ekki síður fjármagn. Hvaðan skyldi það komið? Tengsl alþjóðlegra hryðjuverkasamtaka við smygl og sölu eiturlyfja og vopna eru löngu kunn. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um eiturlyf árið 2000 segir m.a. að Afganistan sé stærsti framleiðandi ópíums í heiminum og að framleiðsla hafi aukist um helming frá árinu 1999, auk þess sem landið væri að verða hið stórtækasta í heiminum í framleiðslu á heróíni. Alþjóðlegir glæpahringir í samvinnu við herskáar sveitir hryðjuverkamanna gæta þess að halda smyglleiðum um fáfarna fjallvegi opnum. Baráttan gegn hryðjuverkum tengist með beinum hætti hinni almennu baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi; peningaþvætti, smygli á eiturlyfjum, smygli á vopnum og mansali.

    Efnahagslegt tjón
    Efnahagslegt tjón af völdum árásanna er gífurlegt, jafnt innan sem utan Bandaríkjanna. Samdráttur um heim allan í vöruviðskiptum, fjárfestingum og ferðamannaiðnaði, sem rekja má til vaxandi öryggisleysis, bitnar ekki síst á þeim sem þegar standa höllum fæti. Alþjóðabankinn hefur nú spáð fyrir um að um tíu milljón fleiri einstaklingar verði dæmdir til örbirgðar og um 40.000 fleiri börn muni deyja innan við 5 ára aldur í heiminum af völdum efnahagslegs samdráttar í kjölfar hryðjuverkanna. Þótt við sem búum hér á landi megum vera þakklát fyrir þá guðs blessun að hafa ekki orðið fórnarlömb slíkra atburða, hafa þeir vissulega einnig bitnað á íslensku atvinnulífi, eins og dæmin sanna síðustu daga.
    Augljósustu og nærtækustu áhrif árásanna eru á flugrekstur í heiminum. Þessara áhrifa gætir einnig í miklum mæli hér á Íslandi þar sem á þriðja hundrað manns misstu vinnuna í kjölfar hagræðingar hjá Flugleiðum sem var óumflýjanleg að mati forráðamanna félagsins vegna voðaverkanna.
    Ísland mun eflaust ekki fara varhluta af samdrætti í ferðaþjónustu. Líklegt er að dragi úr ferðamannastraumi, sér í lagi frá Bandaríkjunum nema við verði brugðist. Á heimsmarkaði hafði verð á hlutabréfum lækkað stöðugt frá miðju síðasta ári og höfðu menn vonast til að markaðir réttu úr kútnum innan tíðar. Þess í stað lækkuðu helstu markaðir verulega eftir árásirnar og þótt þeir hafi eitthvað jafnast aftur er alls óljóst hvenær þeir taka við sér að nýju. Óvissa um framhaldið veldur því að fjárfestar um allan heim halda að sér höndum. Öll þessi aðstaða hefur sett milljónir starfa í hættu um heim allan og hundruði starfa hér á Íslandi.

    Alþjóðleg samstaða um aðgerðir
    Einstök samstaða hefur myndast um heim allan um nauðsyn þess að ríki standi saman í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum. Starfsemi þeirra þekkir engin landamæri og því duga skammt þau ráð sem einstaka ríkisstjórnir geta beitt. Fagna ber frumkvæði Bandaríkjastjórnar að vinna málefninu lið og baráttunni stuðning með myndun alþjóðlegs bandalags gegn hryðjuverkamönnum.
    Samstaða innan alþjóðastofnanna sem Ísland á aðild að hefur verið meiri en nokkru sinni fyrr. Evrópuráðið, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og Sameinuðu þjóðinar hafa allar sem ein fordæmt árásirnar harðlega. Yfirlýsing öryggisráðsins frá 12. september tekur af allan vafa um rétt ríkja til sjálfsvarnar og hvetur ríki heims að víkja hvergi í baráttunni við þessa ógn við friði og öryggi í heiminum.
    Mestu skiptir að þjóðir heims taki höndum saman í baráttunni við að tryggja að slíkir atburðir endurtaki sig ekki. Öll ábyrg ríki verða að leggjast á eitt um að útrýma þeirri vá sem heimsbyggðinni - og þá ekki síst saklausum borgurum - stafar af alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Fleira þarf til. Uppræta verður samskiptanet og stoðkerfi afla sem að árásinni standa. Efla verður viðbúnað ríkja til að bregðast við hryðjuverkum og afleiðingum þeirra. Nauðsynlegt er að samfélag þjóðanna samhæfi diplómatískar aðgerðir á vettvangi alþjóðasamtaka, ekki síst Sameinuðu þjóðanna og undirstofnana þeirra. Efla þarf samstarf á fjölmörgum ólíkum sviðum, svo sem upplýsingaöflunar, réttarfars, löggæslu, bankamála, útlendingaeftirlits og almannavarna. Síðast en ekki síst er óhjákvæmilegt að þau ríki sem skuldbundist hafa hvert öðru um stuðning og aðstoð, ef á þau væri ráðist, geri viðeigandi ráðstafanir á sviði varnar- og öryggismála og er þar komið að hinum mikilvæga þætti Atlantshafsbandalagsins.

    Atlantshafsbandalagið og 5. gr.
    Í fyrsta sinn í sögu NATO var ákveðið að fólskuleg árás hryðjuverkamanna á Bandaríkin jafngilti árás á öll aðildarríki bandalagsins, eftir að í ljós kæmi að hún yrði skilgreind sem utanaðkomandi árás. Nú liggur fyrir að svo hefur verið. Yfirlýsing bandalagsins markar straumhvörf í hálfrar aldar sögu þess. Ákvæði 5. greinar koma nú til framkvæmda í fyrsta skipti. Ennfremur ber nú að líta svo á að gagnkvæmar varnarskuldbindingar aðildarríkja geti einnig átt við um skipulagða hryðjuverkastarfsemi, sem beint er gegn einu eða fleirum aðildarríkja. Ákvæði 5. greinar byggja á 51. grein sáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem tryggir öllum ríkjum rétt til eigin varna og sameiginlegra.
    Enn er óvíst með aðgerðir af hálfu bandalagsins. Ekki ber að líta svo á að sá sem verður fyrir árásinni sé háður samþykki allra aðildarríkja um þær aðgerðir sem hann hyggst grípa til, enda væri það í mótsögn við réttinn til sjálfsvarnar sem sáttmáli Sameinuðu þjóðanna tryggir öllum ríkjum. Íslensk stjórnvöld hafa lýst samstöðu með bandarískum stjórnvöldum við tilraunir þeirra til að hafa hendur í hári sökudólganna og draga þá til ábyrgðar. Hin nýja öryggisstefna bandalagsins, sem samþykkt var á leiðtogafundinum í Washington 1999, gerir ráð fyrir að bandalagið geti í auknum mæli þurft að bregðast við nýjum hættum og ógnum, svo sem hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og útbreiðslu gereyðingarvopna.

    Hlutverk og aðstoð Íslands
    Mikilvægt er að Ísland taki virkan þátt í hinu alþjóðlega bandalagi gegn alþjóðahryðjuverkasamtökum og gerist svo skjótt sem kostur er aðili að þeim samningum sem miða að því að vinna gegn hryðjuverkum. Aðlaga þarf lög og reglur innanlands og er þessi vinna þegar hafin, meðal annars var lagður fyrir Alþingi á mánudag listi yfir samninga sem þarf að fullgilda á þessu þingi. Þar á meðal tillaga til þingsályktunar um fullgildingu alþjóðlegs samnings um aðgerðir gegn hryðjuverkasprengingum og tillaga til þingsályktunar um aðild að alþjóðlegum samningi um aðgerðir til að stemma stigu við fjármögnun hryðjuverka.
    Fórnarlömb hryðjuverkamanna eru ekki einungis saklausir borgarar ríkja sem eru skotmörk þeirra heldur einnig saklausir borgarar þeirra ríkja sem styðja hryðjuverkamenn. Almenningur í Afganistan er langþjáður af hungri og öðrum hörmulegum afleiðingum stríða og ógnarstjórna. Milljónir flóttamanna eru í nálægum löndum. Þrjár milljónir Afgana hafa á síðastliðnum 25 árum flúið til Pakistan. Ótti almennings í Afganistan við hernaðaraðgerðir vegna tregðu talibanastjórnarinnar til samvinnu hefur hrint af stað nýrri öldu flóttamanna. Margir eiga hvergi höfði sínu að halla. Okkur ber skylda til að veita þessu fólki aðstoð. Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að veita tíu miljónum króna til aðstoðar flóttamönnum frá Afganistan og verður haft samráð við Rauða kross Íslands og Hjálparstofnun kirkjunnar um ráðstöfun fjárins. Þessar mikilvægu stofnanir munu leita til almennings um stuðning við hjálparstarf í Afganistan og hvet ég landsmenn til að leggja því máli lið.

    Aðgerðir innanlands
    Þær aðgerðir sem Evrópusambandið hefur ákveðið að grípa til eru líklegar til að varða Ísland beint þar sem þær tengjast á ýmsum sviðum Schengen-samstarfinu og því samstarfi sem Ísland á við Europol á grundvelli sérstaks samstarfssamnings. Mun Ísland ekki láta sitt eftir liggja að grípa til þeirra aðgerða sem þörf er á sviði alþjóðlegrar lögreglusamvinnu í því skyni að efla enn frekar samstarf þjóða í baráttunni gegn þeim vágesti sem hér um ræðir. Kann það að kalla á ýmsar breytingar á íslenskum lögum sem nú er til athugunar.

    Samstaða þjóðarinnar nauðsynleg
    Nauðsyn er á samstöðu þjóðarinnar á þessum viðsjárverðu tímum. Grunur leikur á að fleiri ódæðisverk séu í undirbúningi en mikil óvissa ríkir um hvort, hvenær og hvar. Enginn er óhultur. Með samhentu átaki ríkja heims vona ég að koma megi í veg fyrir frekari ódæðisverk. Við verðum að taka höndum saman og berjast gegn þessari vá. Sú barátta er hafin yfir flokkadrætti. Landsmenn allir verða að standa saman. Ekki verður hjá því komist að um leið og öryggi landsmanna er gætt eins og frekast er kostur hljótist af því einhver óþægindi. Þegar hafa menn lent í töfum á flugi og lengri bið á flugvöllum vegna herts eftirlits.
    Við megum ekki láta hryðjuverkamenn komast upp með það ætlunarverk sitt að grafa undan þeim gildum sem samfélag þjóða byggir á. Hryðjuverk eru glæpur gegn mannkyninu og aldrei réttlætanleg. Baráttan gegn hryðjuverkum er ekki barátta gegn einhverjum kynþætti, þjóðarbroti eða trúarhópi, heldur barátta gegn þeim sem standa að baki tilræðum og árásum á saklausa borgara og svífast einskis í þeim efnum. Baráttan verður ekki háð nema með samstöðu, innanlands og milli ríkja. Hér duga engar skammtímalausnir, þörf er sameiginlegs langtímaátaks ef takast á að koma lögum yfir þá sem með beinum eða óbeinum hætti bera ábyrgð á ódæðunum.
    Baráttan gegn hryðjuverkum er barátta fyrir framtíð okkar, fyrir frelsi, menningu, réttlæti og öryggi fyrir okkur sjálf og kynslóðirnar sem á eftir koma. Sú barátta er jafnframt barátta fyrir bættum hag og framtíð þess fólks sem nú líður fyrir návist hryðjuverkamanna.
    Í þessu máli geta allir sameinast.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum