Hoppa yfir valmynd
31. maí 2013 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Reglugerð um netöryggissveit hefur tekið gildi

Reglugerð um svonefnda CERT-ÍS netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar hefur tekið gildi. Markmiðið með starfsemi netöryggissveitarinnar er að fyrirbyggja og draga úr hættu á netárásum og öðrum öryggisatvikum í netumdæmi hennar eins og kostur er og sporna við og lágmarka tjón á ómissandi upplýsingainnviðum sem af slíku kann að hljótast.

Starfssvæði netumdæmis sveitarinnar tekur til ómissandi net- og tæknikerfa íslenskra fjarskiptafyrirtækja og samkvæmt þjónustusamningum við rekstraraðila ómissandi upplýsingainnviða landsins, bæði þeirra sem tengjast internetinu á einn eða annan hátt, sem og þeirra sem eru í vissum tilfellum með búnað sem er alfarið ótengdur við netið t.d. iðnstýringar. Vinna sveitarinnar innan netumdæmisins er í forgangi. Sé hluti búnaðar í netumdæminu í rekstri á erlendri grundu fellur hann eftir atvikum undir verksvið sveitarinnar.

Helstu verkefni netöryggissveitarinnar eru að stuðla að vernd ómissandi upplýsingainnviða, vakta upplýsingainnviði rekstraraðila sem hafa gert þjónustusamning við netöryggissveitina gagnvart ógnunum og meta hvort grípa þurfi til ákveðinna viðbúnaðaraðgerða; móta og efla ástandsvitund um atvik og ógnir, að vakta ógnir sem steðja að Íslandi og meta hvort grípa þurfi til ákveðinna viðbúnaðaraðgerða, ná sem best tökum á öryggisatvikum og meðhöndla þau til að takmarka mögulegt tjón.

Netöryggissveitin gegnir hlutverki landstengiliðs vegna netöryggisatvika innan íslenskrar netlögsögu og er ætlað að vera virkur þátttakandi í margs konar átaksverkefnum hérlendis og skipuleggja og koma á framfæri netæfingum sem snúa að ómissandi upplýsingainnviðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum