Hoppa yfir valmynd
14. ágúst 2017 Dómsmálaráðuneytið

Nýtt lagafrumvarp um uppreist æru í smíðum

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi síðastliðinn föstudag hvernig háttað er stjórnsýsluframkvæmd ráðuneytisins varðandi umsóknir um uppreist æru. Kynnti ráðherra einnig þau áform sín að leggja fyrir Alþingi lagafrumvarp um verulegar breytingar á þessu sviði.

Í opinberri umræðu að undanförnu um málsmeðferð við veitingu uppreistar æru hafa verið reifuð margvísleg sjónarmið í þá veru að núverandi framkvæmd hennar væri ekki viðunandi. Áform dómsmálaráðherra með lagabreytingu lúta að því að afnema skilgreiningar í lögum á því hvaða brot eru svívirðileg að almenningsáliti og hafa í för með sér flekkun mannorðs (4. og 5. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000) og afnema jafnframt með öllu ákvæði í lögum um uppreist æru (84. og 85. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940). Þess í stað verði einfaldlega mælt fyrir um það í viðkomandi lagabálkum hvers konar brot girði fyrir að menn séu kjörgengir eða embættisgengir til ákveðinna starfa. Megi þannig taka eðlilegt tillit til þeirra ólíku hagsmuna sem eru í húfi varðandi mismunandi störf og réttindi. Jafnframt verði alveg horfið frá þeirri framkvæmd að taka stjórnsýsluákvarðanir beinlínis um æru einstaklinga.

Umrætt lagafrumvarp yrði bandormur, þ.e. breytt yrði ýmsum sérlögum sem snerta málið og eru flest á forræði annarra ráðuneyta en dómsmálaráðuneytis. Dómsmálaráðuneytið mun semja drög að frumvarpinu. Verður leitast við að hafa að einhverju marki samræmi í frumvarpinu þannig að alvarleiki brota hafi sambærileg áhrif á t.d. embættisgengi manna til sambærilegra starfa.

Ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytis sat fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar 18. júlí þar sem farið var yfir stjórnsýsluframkvæmd varðandi beiðnir um uppreist æru. Greindi hann nefndarmönnum frá helstu atriðum varðandi þessa framkvæmd eins og hún hefur verið um langt árabil.

Í framhaldi af þeim fundi hefur dómsmálaráðuneytið sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis gögn sem nefndin óskaði eftir og varða mál sem til meðferðar er hjá nefndinni um uppreist æru. Var nefndinni einnig sent umbeðið yfirlit yfir refsilagabrot allra þeirra sem sótt hafa um uppreist æru árin 1995 til 2017. Er yfirlitinu skipt í tvennt eftir því hvort fallist hefur verið á beiðni um uppreist æru eða ekki.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira