Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 527/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 527/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18110026

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Þann 9. október 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. júlí 2018, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar, vísa honum frá landinu og hann skyldi fluttur til Noregs. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 15. október 2018. Kærandi óskaði eftir endurupptöku málsins þann 29. október 2018 en þeirri beiðni var hafnað með úrskurði kærunefndar nr. 475/2018, dags. 6. nóvember 2018. Þann 19. nóvember 2018 óskaði kærandi öðru sinni eftir endurupptöku máls hans á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og til vara að sér yrði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Með beiðni kæranda fylgdi greinargerð og fylgigagn.

II. Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku er vísað til ákvæðis 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Kærandi kveður að hann sé í vikulegri meðferð við alvarlegri áfallastreituröskun sem honum hafi ekki staðið til boða meðferð við í viðtökuríki. Kærunefnd beri að líta til þess að kærandi þjáist af skyndilegum og lífshættulegum sjúkdómi og að honum hafi verið vísað á bug af fordómafullum lækni í viðtökuríki sem hafi talið ekkert ama að kæranda. Kærandi fái því ekki þá meðferð sem hann þurfi á að halda í viðtökuríki.

Meðal gagna málsins er yfirlýsing frá sálfræðingi kæranda, dags. 15. nóvember 2018. Þar kemur fram að kærandi hafi hitt sálfræðinginn 5 sinnum á síðustu 5 vikum og að það sé álit sálfræðingsins að hann þurfi að hitta kæranda í 3 mánuði. Þá kemur fram að kærandi sé greindur með áfallastreituröskun og hafi glímt við fíknivanda í fortíðinni. Kærandi telur að ekki sé læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð hans að svo stöddu og brýnt sé að hann fái að ljúka þeirri meðferð sem hann er í. Þá kveður kærandi að fái hann að halda meðferðinni áfram muni sá kostnaður ekki lenda á Útlendingastofnun heldur muni velunnarar kæranda greiða fyrir meðferðina. Í greinargerð lýsir kærandi því að stefna norskra yfirvalda sé að endursenda eins marga afganska hælisleitendur til síns heima og mögulegt er. Kærandi muni verða endursendur til heimaríkis þar sem hann muni ekki fá áfallahjálp og verða berskjaldaður fyrir því hrottalega ofbeldi sem hann hafi orðið fyrir á uppvaxtarárum sínum og þeim aðstæðum sem hafi leitt hann út í fíkniánauð. Þá telur kærandi í ljósi viðkvæmrar stöðu sinnar að best væri að hann fengi dvalarleyfi af mannúðarástæðum enda hafi hann gott stuðningsnet vina hér á landi.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar nr. 414/2018, dags. 9. október 2018, var komist að þeirri niðurstöðu að endursending kæranda til Noregs bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. eða 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Að mati kærunefndar var staða kæranda þess eðlis að hann væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þá var ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki talið eiga við í máli kæranda, þ.e. að kærandi hefði ekki slík sérstök tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku annars vegar á því að ákvörðun í máli hans hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, og hins vegar á því að íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi verið í vikulegri meðferð hjá sálfræðingi, auk þess sem sérfræðingur í klínískri sálfræði hafi greint kæranda með áfallastreituröskun. Byggir kærandi á því að ekki sé læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa þá meðferð sem kærandi sé nú í. Þá byggir kærandi á því að honum sé kunnugt um að nýjar upplýsingar um heilsufar o.fl. hafi áður leitt til endurupptöku í stjórnsýslumáli sem sé sambærilegt kæranda og sökum jafnræðissjónarmiða óski kærandi eftir því að mál hans hljóti sambærilega meðferð hjá kærunefnd.

Eins og að framan greinir er um að ræða aðra beiðni kæranda um endurupptöku en hann lagði síðast fram slíka beiðni til kærunefndar útlendingamála þann 29. október sl. Í því máli byggði kærandi m.a. á upplýsingum um andlegt heilsufar sitt og því að hann væri í meðferð hjá sálfræðingi. Í úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 475/2018, sem kveðinn var upp 6. nóvember sl. þar sem beiðni hans um endurupptöku var synjað, sagði m.a.:

Þá byggir kærandi beiðni sína um endurupptöku einnig á því að ákvörðun í máli hans hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í framangreindum heilbrigðisgögnum sem kærandi hefur lagt fram í málinu kemur m.a. fram að hann sé haldinn áfallastreituröskun. Í úrskurði kærunefndar nr. 414/2018 kemur fram að kærandi hafi nokkra sögu um fíkniefnaneyslu, hann hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi auk þess sem hann glími við sjálfsvígshugsanir, svefnleysi og þunglyndi. Enn fremur var það mat kærunefndar að kærandi væri einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þrátt fyrir að framlögð heilsufarsgögn bendi til þess að líkur séu á að kærandi sé haldinn áfallastreituröskun þá er það mat kærunefndar, m.t.t. þeirra heilsufarsgagna sem lágu til grundvallar ákvörðunar í úrskurði nr. 414/2018, að ekki sé um verulegar breyttar aðstæður að ræða er varðar hagi kæranda.

Að mati kærunefndar eiga framangreind sjónarmið enn við í málinu. Verður því ekki fallist á endurupptöku á grundvelli þess að upplýsingar um heilsufar kæranda feli í sér verulega breyttar aðstæður.

Vegna athugasemdar kæranda um að jafnræðissjónarmið skuli leiða til þess að mál hans verði endurupptekið tekur kærunefnd sérstaklega fram að réttur til endurupptöku er bundinn við að úrskurður hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Þegar heilsufarsgögn varpa ljósi á að úrskurður hafi ekki verið byggður á réttum upplýsingum eða aðstæður einstaklings séu breyttar getur það leitt til endurupptöku málsins. Eins og fyrr segir eru slíkar aðstæður ekki fyrir hendi í máli kæranda.

Að öðru leyti vísar kærunefnd til úrskurðar nr. 475/2018 þar sem fyrri beiðni kæranda um endurupptöku var synjað. Kærunefndin telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt og er kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd því hafnað.

Vegna varakröfu kæranda bendir kærunefnd á að aðeins kemur til greina að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga að undangenginni efnismeðferð umsóknar um alþjóðlega vernd, sbr. 1. mgr. 74. gr. laganna. Eru því ekki skilyrði að lögum til þess að veita kæranda dvalarleyfi á þeim grundvelli.

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda er hafnað.

The request of the appellant is denied.

 

Anna Tryggvadóttir

Árni Helgason                                                              Erna Kristín Blöndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum