Hoppa yfir valmynd
7. október 2020 Utanríkisráðuneytið

Ályktun Íslands um Filippseyjar samþykkt

Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands í Genf. - mynd

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt ályktun Íslands um stuðning mannréttindaskrifstofu SÞ við Filippseyjar. Ályktunin leggur grunninn að uppbyggingu mannréttinda í landinu með stuðningi stofnana Sameinuðu þjóðanna.

Ályktunin sem var lögð fram í samstarfi við Filippseyjar í nýliðnum mánuði var samþykkt samhljóða á fundi mannréttindaráðsins í morgun. Hún kveður á um að filippseysk stjórnvöld skuldbindi sig til að vinna með mannréttindafulltrúanum að umbótum. Auk fulltrúa Íslands og Filippseyja tóku fulltrúar Evrópusambandsins, Mexíkó og Japans til máls við atkvæðagreiðsluna og lýstu yfir stuðningi við ályktunina. Öllu skipti þó að stjórnvöld á Filippseyjum láti verkin tala.

Málafylgja Íslands skilar árangri

„Á undanförnum árum höfum við beint kastljósinu að Filippseyjum og ástandi mannréttinda þar. Samþykkt ráðsins í morgun undirstrikar að þessi málafylgja okkar hefur skilað árangri því hún felur í sér að stjórnvöld á Filippseyjum taka upp mikilvægt samstarf við mannréttindafulltrúann með það að markmiði að bæta stöðu mannréttinda þar í landi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Ísland beitti sér í júlí 2019 fyrir samþykkt ályktunar um mannréttindaástandið á Filippseyjum. Með henni lýsti mannréttindaráðið formlega yfir áhyggjum af ástandinu í landinu og fól mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) að gera skýrslu um stöðu mannréttindamála þar. Skýrsla var lögð fram í mannréttindaráðinu í sumar. Í framhaldinu hófst samtal milli fastanefnda Íslands og Filippseyja og á grundvelli þess varð til sameiginleg ályktun sem mannréttindaráðið hefur nú samþykkt.  Með henni er lagt upp tveggja ára verkefni sem verður fylgt eftir með frekari skýrslugjöf til mannréttindaráðsins um framkvæmd og árangur samstarfs OHCHR og Filippseyja, sem og um framkvæmd ályktunarinnar.

Texti ályktunarinnar (lokadrög)

  • Fundarsalur mannréttindaráðsins í Genf. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum