Hoppa yfir valmynd
28. júní 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Leggja til miðlæga bólusetningarskrá

Stýrihópur sem starfaði á vegum sóttvarnalæknis og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra leggur til að komið verði á miðlægri bólusetningarskrá.

Undanfarna mánuði hefur verið unnið tilraunaverkefni af þessu tagi í samvinnu við heilsugæslustöðvar á Akureyri, Sauðárkróki, Húsavík og Reykjavík og við fyrirtækið TM Software. Tókst það í alla staði vel, en verkefnið er liður í uppbyggingu íslenska heilbrigðisnetsins.

 

Verkefni um bólusetningaskrá sóttvarnalæknis var hannað með það fyrir augum að upplýsingar um bólusetningar flytjist sjálfvirkt og með rafrænum hætti frá þeim stöðum þar sem bólusett er inn í miðlæga skrá. Einnig er fyrirhugað að starfsmenn einstakra heilbrigðisstofnana geti sótt upplýsingar um bólusetningar einstaklinga í grunninn með rafrænum hætti. Miðlæg bólusetningarskrá er þannig úr garði gerð að fyllsta öryggis um persónuupplýsingar hinna bólusettu skal gætt í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 og fylgi öryggisreglum Persónuverndar nr. 299/2001.

 

Hingað til hefur upplýsingum um bólusetningar á Íslandi ekki verið safnað miðlægt nema í undantekningatilvikum en stýrihópurinn telur nauðsynlegt að úr því verði bætt í samræmi við lög og faglegar skyldur sóttvarnalæknis. Samkvæmt sóttvarnalögum er sóttvarnalæknir ábyrgur fyrir því að haldin sé smitsjúkdómaskrá.  Skráin tekur til smitsjúkdóma og bólusetninga, sbr. 3. mgr. 3. gr.  og 2. tölul. 5. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997.  Í reglugerð 129/1999 með síðari tíma breytingum er kveðið á um að allar bólusetningar á Íslandi skuli skráðar þar sem þær eru gerðar og að sóttvarnalæknir sé ábyrgur fyrir því að halda um þær miðlæga skrá.

 

Með tilkomu miðlægrar bólusetningaskrár verður hægt að safna öllum upplýsingum um bólusetningar einstaklinga á einn stað burtséð frá því hvar þær voru gerðar. Almenningur mun því geta fengið upplýsingar um allar sínar bólusetningar á sérhverri heilbrigðisstofnun sem tengd er bólusetningaskrá sóttvarnalæknis. Slík skrá mun því tryggja áreiðanlegar og aðgengilegar upplýsingar um bólusetningasögu einstaklinga og eykur líkur á því að allir verði bólusettir á fullnægjandi hátt. Ætla má að notagildi bólusetningagrunns verði mikið fyrir heilbrigðisyfirvöld, starfsmenn heilbrigðisstofnana og almenning á Íslandi.

 

Í stýrihópnum, sem skipaður í framhaldi af samkomulagi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og sóttvarnalæknis um bólusetningarskrána, sátu Haraldur Briem, sóttvarnalæknir, Sigríður Haraldsdóttir, fulltrúi heilbrigðistölfræðisviðs Landlæknisembættisins, Benedikt Benediktsson, tölvunarfræðingur og fulltrúi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, og Þórólfur Guðnason, yfirlæknir hjá sóttvarnalækni. Hann stjórnaði verkefninu og vann að því í samvinnu við Kristinn Jónsson, kerfisfræðing heilbrigðistölfræðisviðs Landlæknisembættisins.

 

Sjá nánar:   Lokaskýrsla miðlæg bólusteningaskrá (pdf skjal 187 Kb)

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum