Hoppa yfir valmynd
7. september 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra í heimsókn hjá starfsmönnum Landspítala

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, boðaði til fundar með starfsmönnum Landspítala – háskólasjúkrahúss í hádeginu. Vildi ráðherra með fundum við Hringbraut og í Fossvogi kynna þeim ákvörðun ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu nýs hátæknispítala milliliðalaust. Fjölmargir sóttu fundina og lýstu ánægju sinni með ákvörðunina, starfsmenn og stjórnendur og fulltrúar Háskóla Íslands. Jón Kristjánsson fagnaði í máli sínu sáttinni sem væri um byggingu nýs spítala og sagði að framundan væru tímamót í heilbrigðisþjónustunni við alla landsmenn. Jón Kristjánsson lauk máli sínu með þessum orðum: “Nýr Landspítali knýr okkur líka til að hugsa spítalaþjónustu á þessu stigi upp á nýtt, við þurfum að skilgreina hlutverk hins nýja spítala, en ekki síður þá spítalastarfsemi og raunar alla þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er í tengslum við, eða í námunda við þá stofnun sem þjónar öllum landsmönnum.

Þannig er verkefnið sem bíður okkar nú ekki bara að reisa hús og byggingar heldur ekki síður að taka ákvarðanir um starfsemina sem hér fer fram og þar með hvað gert er á öðrum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Landspítalinn hefur verið og verður meginstoð heilbrigðisþjónustunnar í skilningi lækninga og hjúkrunar að ekki sé talað um rannsóknir og kennslu.

Mikilvægi rannsókna og vísinda á heilbrigðissviði fer vaxandi og þar gegna einmitt háskólasjúkrahúsin lykilhlutverki. Ég sé fyrir mér að þetta verði hlutverk hins nýja Landspítala. Ég sé fyrir mér nýjan Landspítala sem veitir fyrirtaks þjónustu og þar sem unnt er að framkvæma flóknar aðgerðir á sem flestum sviðum.

Við erum hér í raun og veru að tala um þekkingarmiðstöð framtíðarinnar á heilbrigðissviði, miðstöð, eða háskólaspítala sem allir aðrir geta sótt í þekkingu, hátækni- og sérfræðiþjónustu.

Með ákvörðuninni um byggingu nýs spítala við Hringbraut er okkur falið erfitt verkefni, það er flókið en umfram allt er það afar spennandi og það skiptir okkur sem þjóð miklu máli að okkur takist að leysa þetta verkefni.”

Á fundinum flutti Magnús Pétursson, forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss, ávarp þar sem hann lýsti m.a. ánægju sinni með ákvörðun ríkisstjórnarinnar og fulltrúar starfsmanna spítalans afhentu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra yfirlýsingu sína þar sem segir: “Starfsmenn LSH fagna þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hluta af söluandvirði Landssíma Íslands hf verði ráðstafað til uppbyggingar hátæknisjúkrahúss á Landspítalalóðinni. Með þessari ákvörðun hefur ríkisstjórn Íslands tekið eitt mikilvægasta skrefið til uppbyggingar heilbrigðisþjónustu frá því Landspítali var fyrst byggður á árunum 1925-1930.

Heilbrigðisráðherra eru færðar sérstakar þakkir fyrir framgöngu sína í þessu máli, svo og ríkisstjórninni allri. Mikilvægt er að sá undirbúningur að byggingu spítalans, sem þegar er hafinn, haldi áfram af fullum krafti og að metnaður allra, sem að honum koma, standi til þess að heilbrigðisþjónusta á Íslandi verði "á heimsmælikvarða", eins og segir í greinargerð ríkisstjórnarinnar.”



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum