Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 74/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 74/2016

Miðvikudaginn 23. nóvember 2016

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 17. febrúar 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 12. febrúar 2016 um bætur úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 27. október 2014, sótti kærandi um bætur úr sjúklingatryggingu vegna aðgerðar á endaþarmi sem kærandi gekkst undir á Landspítala. Í umsókninni er tjónsatvikinu lýst þannig að kærandi hafi upphaflega leitað læknis þar sem legháls hafi verið genginn niður og þá hafi komið í ljós að virkni í endaþarmi væri mjög lítil. Hún hafi verið send til B læknis sem hafi framkvæmt aðgerð á endaþarmi X. Í X hafi komið í ljós að aðgerðin hafi ekki heppnast og kærandi því aftur gengist undir aðgerð X. Hún geti ekki stjórnað hægðum eftir aðgerðina. Sjúkratryggingar Íslands höfnuðu bótaskyldu með bréfi, dags. 12. febrúar 2016. Talið var að sú meðferð, sem kærandi hefði fengið á Landspítala, hafi verið eðlileg og í fullu samræmi við þær aðferðir sem tíðkist í tilfellum sem þessum. Að mati stofnunarinnar séu minni líkur en meiri á orsakatengslum á milli aðgerðarinnar X og núverandi ástands kæranda. Hægðaleka sé að rekja til ástands kæranda sem hafi verið til staðar áður en hún hafi gengist undir aðgerðir á Landspítala þar sem gögn málsins beri ekki með sér að hann sé alvarlegri nú en fyrir aðgerðirnar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. febrúar 2016. Með bréfi, dags. 23. febrúar 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 25. febrúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að úrskurðarnefnd velferðarmála taki afstöðu til bótaskyldu á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Í kæru segir að kærandi telji að aðgerð, sem hafi verið framkvæmd X, hafi eyðilagst vegna sýkingar. Hún hafi fengið mikla sýkingu og verið lögð aftur inn á spítala. Hún hafi fengið pensilín í æð og verið þar í um það bil viku. Hún hafi átt í miklum vandræðum með hægðir eftir sýkinguna. Þær hafi gjörsamlega tekið við stjórninni og hún ekki ráðið við neitt. Í X hafi kærandi farið til B læknis sem hafi sent hana í sjúkraþjálfun. Sjúkraþjálfarinn hafi hins vegar talið að lítið væri hægt að gera fyrir hana en kennt henni æfingar sem hún hafi gert en allt hafi komið fyrir ekki. Í X hafi hún farið í skoðun hjá B og honum fundist að hún gæti ekki verið svona og sent hana í aðgerð við fyrsta tækifæri til að laga það sem unnt væri að laga.

Kærandi telji að hún hafi orðið fyrir heilsutjóni þar sem hún hafi getað unnið úti áður en hún hafi farið í umrædda aðgerð. Í dag sé hún 75% öryrki og geti ekki unnið innan um fólk. Áður en hún hafi farið í aðgerðirnar hafi komið klíningur í buxurnar af og til en í dag snúist líf hennar eingöngu um hægðir. Hún geti ekki lengur [íþrótt] án undirbúnings með stopptöflum og úthreinsun með græju sem henni hafi verið skaffað. Hún þurfi undirbúning áður en hún fari í flug, afmæli, jarðarfarir, lengri bílferðir, út að borða og fleira. Hún geti verið stödd í verslunarmiðstöð eða á læknastofu þegar allt fari af stað og hún ráði ekki við neitt. Þá verði hún að hraða sér heim þar sem hún geti ekki unnið úr þessu á almenningssalerni.

Að Sjúkratryggingar Íslands hafi séð minni líkur en meiri fyrir því að orsakatengsl séu á milli aðgerðarinnar sem hafi farið fram X og núverandi ástands hennar telji kærandi algjörlega ótrúlegt. Þar sem gögn málsins beri með sér að hægðaleki sé alvarlegri nú en hann hafi verið fyrir aðgerðirnar telji kærandi að upplýsingarnar séu hreinlega ekki nægilega upplýsandi eða jafnvel rangar.

Kærandi hafi alltaf verið kát og glöð manneskja, en eftir þessar aðgerðir hafi hún verið mjög döpur og langt niðri og séu það bein áhrif af aðgerðunum og eftirköstum þeirra.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að í sjúkraskrá Landspítala komi fram að kærandi hafi gengist undir aðgerð X vegna legs- og garnasigs. Skráð sé að kærandi hafi verið með sögu um legsig og hægðaleka í rúm tvö ár. Legið hafi verið fjarlægt en í aðdraganda aðgerðar hafi komið í ljós galli á hringvöðva endaþarms en ákveðið að reyna aðgerð á hringvöðvanum síðar. Eftir aðgerðina sé skráð að kæranda hafi oft verið brátt um þvaglát.

Í göngudeildarnótu B, sérfræðings í ristil- og endaþarms-skurðlækningum, dags. X, hafi verið skráð að kærandi hafi haft hægðaleka þriðja hvern dag og misst loft sjálfkrafa. Ómskoðun hafi leitt í ljós rof að framan, bæði á ytri og innri hringvöðva, meira hægra megin. Í umsögn læknisins, dags. X, segi að kærandi hafi verið með hægðaleka nánast daglega.

Kærandi hafi gengist undir aðgerð X á hringvöðva endaþarms. Skráð hafi verið að eftir aðgerðina hafi hún verið með hita og blætt nokkuð um endaþarm. Hún hafi því verið lögð inn á ný og gefin sýklalyf en útskrifast X. Kærandi hafi hitt B á göngudeild X sem hafi skráð að henni gengi betur að halda hægðum, en nokkur sýkingarmerki hafi enn verið til staðar. Þá hafi verið skráð í göngudeildarnótu, dags. X, að ör hafi verið gróið og miklir húðsepar utan við endaþarm. Ekki hafi verið mikill samdráttur í hringvöðva endaþarms, þ.e. lítill kraftur í vöðvanum og kæranda því ráðlagðar æfingar. Í beiðni um sjúkraþjálfun hafi B ritað að kærandi hafi verið með vöðva- og taugaskaða og því hafi horfur ekki verið góðar, þrátt fyrir aðgerðina X.

Þann X hafi verið skráð að það væri fissura (glufa) að framan auk húðsepa. Kærandi hafi því gengist undir aðgerð X til að láta fjarlægja sepana og fistilgang, auk þess sem dregin hafi verið heil slímhúð yfir glufuna. Í göngudeildarnótu B, dags. X, hafi verið skráð að fistillinn væri gróinn, en engin vöðvastarfsemi framan á endaþarmi. Í nótu B, dags. X, hafi verið skráð að kærandi hafi verið með hægðaleka og skerta starfsemi í hringvöðva endaþarms.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi bótaskyldu verið hafnað þar sem skilyrði 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu hafi ekki verið uppfyllt. Við meðferð málsins hafi verið rannsakað hvort tjón væri að rekja til þess að ekki hafi verið rétt staðið að læknismeðferð, mistaka heilbrigðisstarfsmanna, vangreiningar, tækjabúnaðar og/eða áhalda, hvort beita hefði mátt annarri meðferð eða tækni eða hvort heilsutjón hafi orðið vegna sýkingar eða annars fylgikvilla sem ósanngjarnt þyki að sjúklingur þoli bótalaust.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands hafi ekki annað verið séð en að meðferð hafi verið eðlileg og í fullu samræmi við þær aðferðir sem hafi tíðkast í tilfellum sem þessum. Upphafsárangur aðgerðar frá X virðist hafa verið góður en engu að síður virðist samkvæmt gögnum málsins aftur hafa sótt í sama horf þar sem kærandi sé nú með hægðaleka. Nýlegar rannsóknir hafi sýnt að jákvæður árangur, í allt að fimm ár, verði af sams konar hægðalekaaðgerðum í 56-87% tilvika. Að mati stofnunarinnar séu því minni líkur en meiri á að orsakatengsl séu á milli síðari aðgerðarinnar X og núverandi ástands kæranda. Þá megi að mati stofnunarinnar rekja hægðaleka kæranda til þess ástands sem hafi verið í upphafi áður en hún hafi gengist undir framangreindar aðgerðir þar sem gögn málsins beri ekki með sér að hann sé alvarlegri nú en hann hafi verið fyrir aðgerðirnar.

Ljóst sé að kærandi hafi orðið fyrir alvarlegum sjúkdómi sem hafi leitt til hægðaleka. Um sé að ræða afar þungbærar afleiðingar fyrir kæranda. Bótaréttur samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu verði þó ekki byggður á þeim forsendum þar sem sýna þurfi fram á að tjón, eða hluta þess, sé að rekja til skorts á meðferð eða til alvarlegra og sjaldgæfra fylgikvilla í tengslum við meðferð sem kærandi hafi hlotið á Landspítala. Skilyrði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu sé að atvik hafi valdið sjúklingi tjóni. Í ákvæðinu sé skilyrði um að tjón þurfi að öllum líkindum að vera rakið til tjónsatviks. Í máli þessu sé þetta skilyrði ekki uppfyllt.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatyggingu vegna aðgerðar sem kærandi gekkst undir á Landspítala X á hringvöðva endaþarms.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtal­inna atvika:

1. Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2. Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3. Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4. Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar við greiningu eða meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Sé niðurstaðan hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Samkvæmt gögnum málsins voru atvik þannig að kærandi gekkst undir aðgerð á hringvöðva endaþarms X á Landspítala. Í innlagnarskrá segir að það gerist nánast daglega að kærandi finni skyndilega fyrir losunarþörf og missi hægðir. Tekið var fram að hún hefði um fimm ára sögu um hægðaleka. Í aðgerðarlýsingu B, sérfræðings í ristil- og endaþarmsskurðlækningum, dags. X, segir að kærandi hafi lausheldni á hægðir (anal incontinence) og rof á framhluta hringvöðva í endaþarmsopi. Kærandi útskrifaðist af spítalanum X en átti að hafa samband strax ef hún fengi kviðverki, þan, ógleði, uppköst eða hita samkvæmt útskriftarnótu, dagsettri sama dag. Samkvæmt komunótu X leitaði kærandi til Landspítala vegna slappleika og fersks blóðs við endaþarm. Í ljós kom sýking við endaþarm sem hún fékk sýklalyfjameðferð við. Kærandi útskrifaðist af spítalanum X og samkvæmt útskriftarnótu, dagsettri sama dag, var greining hennar: Sýking í kjölfar aðgerðar, ekki flokkuð annars staðar. Samkvæmt göngudeildarnótu B læknis, dags. X, gekk kæranda mjög vel að halda hægðum, hún fann þó enn til í sári og voru bólgnir separ fyrir framan endaþarm í örinu og bólga í leggangaopi vegna húðsýkingar. Að öðru leyti leit aðgerðarsvæði vel út og gat hún spennt vöðvann. Samkvæmt göngudeildarnótu B, dags. X, gekk kæranda betur að halda hægðum. Ekki var mikill samdráttur í hringvöðva í endaþarmsopi. Talið var að kærandi gæti náð betri árangri með æfingum og því send beiðni um sjúkraþjálfun. Í beiðninni, dags. X, segir að kærandi hafi farið í aðgerð og verið bæði með vöðva- og taugaskaða. Því séu ekki mjög góðar horfur, þrátt fyrir aðgerð. Ómskoðun sýni viðgerð en lítill kraftur sé í vöðvanum. Óskað var æfinga fyrir grindarbotn og hringvöðva í endaþarmsopi, raförvun. Samkvæmt göngudeildarnótu B, dags. X, var kærandi með óþægindi í endaþarmsopi og bólgu í ytri sepum. Talið var að þörf væri á aðgerð til að fjarlægja sepa og hreinsa fistilgang. Kærandi gekkst undir aðgerð vegna þessa X. Samkvæmt göngudeildarnótu B, dags. X, mætti kærandi í endurkomu eftir aðgerðina og segir að ómskoðun á endaþarmsopi sýni vöðva en það hafi orðið skemmd á viðgerðinni. Kæranda var ráðlagt að byrja að æfa vöðvann. Í göngudeildarnótu B, dags. X, segir að ómskoðun á endaþarmsopi sýni engan starfandi vöðva að framan en klyfta- og endaþarmsvöðvi (musculus puborectalis) og afturhluti vöðvans hreyfist aðeins.

Kærandi telur að aðgerðin X hafi farið til ónýtis vegna sýkingar sem hún hafi fengið í kjölfar hennar. Einnig nefnir hún að hægðaleki hennar sé alvarlegri eftir umræddar aðgerðir á hringvöðva endaþarms X og X. Með hliðsjón af þessum athugasemdum tekur úrskurðarnefnd velferðarmála til skoðunar hvort bótaskylda sé fyrir hendi á grundvelli 1. og 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Kemur fyrst til álita hvort bótaskylda verði grundvölluð á 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Ákvæðið lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð og tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr., eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður, sem hlut hafi átt að máli, hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem hefði mátt komast hjá með meiri aðgæslu.

Sjúkratryggingar Íslands telja að meðferð kæranda hafi verið eðlileg og í fullu samræmi við þær aðferðir sem tíðkist í tilfellum sem þessum. Í upphafi hafi árangur af aðgerðinni virst góður en síðan hafi aftur sótt í sama horf með hægðaleka kæranda. Ljóst sé að starfsemi hringvöðva kæranda sé skert og að hún búi við viðvarandi hægðaleka, þrátt fyrir umræddar aðgerðir. Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, fær ekki ráðið af gögnum þessa máls að einhverjar vísbendingar séu um að meðferð kæranda vegna þessa hafi ekki verið hagað eins vel og unnt var og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Ljóst er að kærandi hefur glímt við hægðaleka í mörg ár og fólst tilgangur aðgerðarinnar X í því að sporna gegn honum. Að þessu virtu telur úrskurðarnefnd að bótaskylda verði ekki grundvölluð á 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Kemur næst til skoðunar hvort bótaskylda verði grundvölluð á 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Samkvæmt ákvæðinu skal greiða bætur ef tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð sem ætlað sé að greina sjúkdóm og tjónið sé af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Í lagaákvæðinu eru gefin viðmið hér að lútandi:

  1. Líta skal til þess hve tjónið er mikið.

  2. Líta skal til sjúkdóms og heilsufars viðkomandi að öðru leyti.

  3. Taka skal mið af því hvort algengt sé að tjón verði af umræddri meðferð.

  4. Hvort eða að hve miklu leyti mátti gera ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.

Til nánari glöggvunar á því hvaða atriði eigi að leggja til grundvallar við framangreint mat verður að líta til tilgangs löggjafans og hvert markmiðið hafi verið með ákvæðinu. Í greinargerð með ákvæðinu í frumvarpi til laganna kemur fram að markmið með nefndum 4. tölul. 2. gr. sé að ná til heilsutjóns, sem ekki sé unnt að fá bætt samkvæmt 1.-3. tölul. greinarinnar, en ósanngjarnt þyki að menn þoli bótalaust, einkum vegna misvægis á milli þess hve tjónið sé mikið og þess hve veikindi sjúklings voru alvarleg. Þá segir að við matið skuli taka mið af eðli veikinda og hve mikil þau séu svo og almennu heilbrigðisástandi sjúklings. Ef augljós hætta sé á að sjúklingur hljóti mikla örorku eða deyi ef sjúkdómurinn sé látinn afskiptalaus verði menn að sætta sig við verulega áhættu af alvarlegum eftirköstum meðferðar.

Sjúkratryggingar Íslands segja að nýlegar rannsóknir sýni að jákvæður árangur, í allt að fimm ár, verði af sams konar aðgerðum vegna hægðaleka í 56-87% tilvika (Pescatori og Pescatori, 2014)[1]. Því séu minni líkur en meiri á að orsakatengsl séu á milli aðgerðarinnar X og núverandi ástands kæranda. Hægðaleka sé að rekja til þess ástands sem kærandi hafi búið við í upphafi áður en hún hafi gengist undir umræddar aðgerðir þar sem gögn málsins beri ekki með sér að hægðalekinn sé alvarlegri nú en hann var fyrir aðgerðirnar.

Ætla má af gögnum málsins að kærandi byggi á því að hún hafi orðið fyrir fylgikvilla eftir umræddar aðgerðir að því leyti að hún búi við alvarlegri hægðaleka. Í nótu kvennadeildar Landspítala X segir um vandamál kæranda: „Hitti A á gd. X og vísast í hennar nótur fyrir ítarlega sögu. Hefur síðan þá farið hægt versnandi, verður mjög brátt með hægðir og missir oft hægðir. Er þetta farið að hafa mjög mikil áhrif á hennar daglega líf.“ Í innlagnarnótu frá X segir að kærandi hafi um fimm ára sögu um hægðaleka og nánast daglega gerist það að hún finni skyndilega losunarþörf og missi hægðir. Af þessu má ráða að einkenni kæranda fyrir aðgerðina X voru mikil og höfðu farið vaxandi. Þannig hafði framvinda í sjúkleika kæranda verið til hins verra fyrir aðgerðina. Samkvæmt heimildum sem fyrir liggja í læknisfræðilegum tímaritum[2] má vænta þess að aðgerðir eins og sú sem kærandi gekkst undir X skili skammtímaárangri í 85% tilfella, en hætt við að sá árangur glatist með tímanum og sé farinn forgörðum í helmingi tilfella eftir 40-60 mánuði. Þannig getur gangur hins undirliggjandi sjúkdóms verið óhagstæður í helmingi tilfella, þrátt fyrir að reynt sé að sporna við framvindu hans með skurðaðgerð. Þetta endurspeglast í áðurnefndri beiðni B um sjúkraþjálfun, X, en þar segir: „Var bæði með vöðva og taugaskaða og því ekki mjög góðar horfur þrátt fyrir viðgerð“.

Tilgangur aðgerðarinnar X var að draga úr hægðaleka sem hafði verið viðvarandi til margra ára. Kærandi telur að aðgerðin hafi „eyðilagst“ vegna sýkingar sem hafi komið í kjölfar hennar. Í sjúkraskrá skurðlækningadeilda Landspítala kemur fram að kærandi þurfti að leggjast inn á spítalann á ný X og var þá með háan hita og fleiri einkenni sýkingar. Í göngudeildarnótum B X og X kemur fram að kærandi sé í framför að því er varðar hægðalekann og ráða má af lýsingu á skoðun að einkenni virkrar sýkingar hafi ekki verið til staðar lengur. Hins vegar virðist síðan hafa sigið aftur á ógæfuhliðina með framvindu einkenna. Ætla verður að hefði sýkingin sem kærandi fékk í X eyðilagt árangur nýafstaðinnar skurðaðgerðar hefði ekki verið að vænta framfarar í einkennum, jafnvel ekki tímabundið. Hvorki verður ráðið af gögnum sem fyrir liggja að fistill við endaþarmsop, sem fjarlægja þurfti í aðgerð X, hafi haft teljandi áhrif á framvindu einkenna né heldur sú aðgerð sem þar fór fram.

Að öllu framansögðu virtu telur úrskurðarnefnd ekki sýnt fram á að kærandi hafi orðið fyrir varanlegu tjóni vegna skurðaðgerðar á endaþarmsopi sem hún gekkst undir X né heldur af völdum sýkingar sem var fylgikvilli aðgerðarinnar. Ekki kemur skýrt fram í gögnum frá læknum kæranda að einkenni hennar hafi versnað til muna eftir skurðaðgerðina í X, enda voru einkenni hennar þegar töluverð fyrir aðgerðina samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja. Það er mat úrskurðarnefndar velferðarmála að þar sem eini fylgikvilli aðgerðarinnar var sýkingin, sem olli einungis tímabundnu tjóni og er þekktur fylgikvilli slíkrar aðgerðar, verði bótaskylda ekki byggð á 4. tölul. 2. mgr. laga um sjúklingatryggingu.

Með hliðsjón af því, sem að framan er rakið, er niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála sú að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur úr sjúklingatryggingu er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum