Hoppa yfir valmynd
10. mars 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 120/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 10. mars 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 120/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22010014

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 20. janúar 2022 barst kærunefnd útlendingamála kæra […], fd. […], ríkisborgara Marokkó (hér eftir nefndur kærandi), á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. október 2021, um að synja umsókn hans um útgáfu vegabréfs fyrir útlending.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum veitt vegabréf útlendings.

Fyrrgreind ákvörðun Útlendingastofnunar er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

II.      Málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda birt ákvörðun þar sem honum var veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi hinn 19. mars 2020. Kærandi sótti um ferðaskilríki fyrir flóttamenn hinn 30. september 2020. Hinn 13. október 2020 var kæranda leiðbeint um að þar sem honum hafi verið veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ætti hann ekki rétt á ferðaskírteini fyrir flóttamenn, auk þess sem hann hafi lagt fram gilt vegabréf frá heimaríki sínu þegar hann hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Fékk kærandi í kjölfarið vegabréf sitt afhent frá stjórnvöldum.

Hinn 15. júlí 2021 lagði kærandi fram umsókn um ferðaskilríki fyrir flóttamenn í annað sinn. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. október 2021, var umsókn kæranda synjað. Kæranda var birt ákvörðunin hinn 10. janúar 2022. Hinn 20. janúar 2022 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Kærandi lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjali hinn 20. janúar 2022. Hinn 9. febrúar 2022 bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir frá kæranda ásamt fylgiskjali.

III.    Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga um vegabréf, nr. 136/1998, og 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga gefi Útlendingastofnun út vegabréf fyrir útlendinga og ferðaskilríki fyrir flóttamenn. Í 3. mgr. 46. gr. laga um útlendinga komi fram að útlendingur sem hafi eða fær dvalarleyfi hér á landi á grundvelli umsóknar um alþjóðlega vernd, en án þess að vera veitt alþjóðleg vernd, skuli fá vegabréf fyrir útlendinga til ferða til útlanda samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setji með reglugerð. Þá megi heimila útgáfu vegabréfs fyrir útlendinga í öðrum tilvikum ef sérstakar ástæður mæli með því.

Í ákvörðuninni kemur fram að kærandi dveljist hér á landi á grundvelli dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Umsækjanda hafi ekki verið veitt alþjóðleg vernd hér á landi og í ljósi þess uppfylli hann ekki skilyrði 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga. Þá hafi kærandi ekki sýnt fram á að hann geti ekki aflað sér vegabréfs frá heimaríki sínu. Með vísan til þess hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 16. gr. reglugerðar um íslensk vegabréf fyrir útgáfu vegabréfs hér á landi. Umsóknum kæranda um ferðaskilríki fyrir flóttamenn og vegabréf fyrir útlending hafi því verið synjað.

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi telji niðurstöðu Útlendingastofnunar byggjast á misskilningi á heilsufari og stöðu hans. Það kunni að skýrast af því að stofnunin hafi ekki haft fullnægjandi læknisfræðilegar upplýsingar um stöðu málsins og með kæru til kærunefndar sé reynt að bæta úr því. Kærandi hafi fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum árið 2020, einkum vegna ungs aldurs og heilsufarsvandamála vegna sykursýki sem m.a. hafi valdið augnskemmdum og nýrnabilun. Kærandi hafi verið undir læknishöndum um langt skeið og ítrekað lent inn á bráðadeild Landspítalans og legið þar langdvölum. Auk tíðra sjúkrahúsinnlagna hafi kærandi ekki haft fasta búsetu og því flutt oft á milli húsa þar sem margir hafi á tímum búið undir sama þaki. Við þær aðstæður hafi kærandi glatað vegabréfi sínu og hafi lögreglu verið tilkynnt um það. Kærandi hafi því sótt um ferðaskilríki til Útlendingastofnunar.

Kærandi mótmælir þeirri niðurstöðu Útlendingastofnunar að honum sé í lófa lagið að sækja um nýtt vegabréf í heimaríki sínu eða í sendiráði Marokkó í öðru ríki. Kærandi bendir á að þótt Útlendingastofnun hafi synjað honum um alþjóðlega vernd hér á landi þá líti kærandi á sig sem mann á flótta undan stjórnvöldum í heimaríki sínu. Jafnframt sé full ástæða til að ætla að kærandi sé á lista stjórnvalda í Marokkó yfir andófsmenn og óvini ríkisins þar sem hann hafi flúið ríkið og sótt um alþjóðlega vernd vegna stjórnmálaskoðana sinna í öðru landi. Kærandi þori því ekki að hætta sér inn á þeirra yfirráðasvæði, auk þess sem hann óttist að beina athygli að fjölskyldu sinni. Þá telur kærandi hægara sagt en gert að ráðast í ferðalag þar sem hann sé í skilunarmeðferð á Landspítala vegna lokastigs nýrnabilunar. Hann fari í nýrnaskilun þrisvar sinnum í viku á Landspítalanum. Ferðalag til annarra ríkja til að sækja um vegabréf myndi því kalla á samstarf við erlend sjúkrahús, auk þess sem það yrði kæranda þungbært og færi gegn meðmælum lækna. Þá væri slíkt ferðalag kostnaðarsamt, en vegna veikinda kæranda hafi hann ekki getað aflað sér tekna.

Í greinargerðinni kemur fram að ástæða þess að kærandi hafi þörf á ferðaskilríki sé sú, líkt og fram komi í vottorði sérfræðilæknis á nýrnadeild Landspítala, að unnið sé að ígræðsluuppvinnslu hjá kæranda með það að markmiði að hann fái ígrætt nýra og mögulega einnig bris úr látnum einstaklingi. Sú ígræðsla fari fram í Gautaborg í Svíþjóð. Jafnframt komi fram í vottorðinu að þegar kærandi komist á biðlista, sem muni gerast að ígræðsluuppvinnslu lokinni á næstu mánuðum, muni hann þurfa að geta ferðast með 6 til 24 klukkustunda fyrirvara til Gautaborgar. Aldrei gefist lengri fyrirvari en það til fararinnar. Því þurfi kærandi nauðsynlega að hafa ferðaskilríki tilbúin.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 80/2016, lög um vegabréf nr. 136/1998 og reglugerð um íslensk vegabréf nr. 560/2009.

Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga um vegabréf gefur Útlendingastofnun út vegabréf fyrir útlendinga og ferðaskilríki fyrir flóttamenn. Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga skal, að fenginni umsókn, veita þeim sem nýtur alþjóðlegrar verndar, og dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu, ferðaskilríki fyrir flóttamenn til ferða til útlanda. Ákvæðið er í samræmi við 28. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna. Samkvæmt 3. mgr. 46. gr. laga um útlendinga skal útlendingur, sem hefur eða fær dvalarleyfi hér á landi á grundvelli umsóknar um alþjóðlega vernd, en án þess að vera veitt alþjóðleg vernd, fá vegabréf fyrir útlendinga til ferða til útlanda samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur með reglugerð. Þá má og heimila útgáfu vegabréfs fyrir útlendinga í öðrum tilvikum ef sérstakar ástæður mæla með því. Í VII. kafla reglugerðar um íslensk vegabréf er fjallað um vegabréf til útlendinga og ferðaskilríki fyrir flóttamenn. Í 1. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar kemur fram að Útlendingastofnun sé heimilt að gefa út vegabréf fyrir útlendinga, sem ekki geti með öðrum hætti aflað sér vegabréfs eða annars ferðaskilríkis. Vegabréf fyrir útlending verði aðeins gefið út sé umsækjandi löglega búsettur hér á landi og geti sýnt fram á að hann geti ekki fengið ferðaskilríki frá heimaríki, eða að hann sé ríkisfangslaus, sbr. 2. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar. Í 3. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar kemur fram að gildi vegabréfs fyrir útlending megi binda við tiltekið svæði. Einnig megi gefa slíkt vegabréf út með skemmri gildistíma en mælt sé fyrir um í 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar, en þar kemur fram að gildistíminn skuli að jafnaði vera tvö ár frá útgáfudegi.

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi glatað vegabréfi sínu. Kærandi kvaðst hafa tilkynnt það til lögreglunnar. Hinn 3. febrúar 2022 óskaði kærunefnd m.a. eftir staðfestingu á því að kærandi hafi tilkynnt um glatað vegabréf til lögreglu. Jafnframt óskaði nefndin eftir frekari rökstuðningi um það hvers vegna kærandi teldi ómögulegt fyrir sig að fá útgefið nýtt vegabréf af marokkóskum yfirvöldum. Benti kærunefnd á að niðurstaða Útlendingastofnunar hafi verið sú að kærandi hafi ekki sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríki sínu í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá óskaði nefndin eftir skýringum á misræmi í framburði kæranda um aldur hans, en við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun sendi kærandi tölvubréf til stofnunarinnar þar sem hann kvaðst vera fæddur árið 2005 en ekki árið […] líkt og fram kom í vegabréfi hans.

Hinn 9. febrúar 2022 lagði kærandi fram viðbótargreinargerð með svörum og skýringum á framangreindum fyrirspurnum kærunefndar, ásamt afriti af skjali frá lögreglu þar sem vegabréf kæranda er skráð glatað. Í viðbótargreinargerðinni kemur m.a. fram frekari skýring á því hvernig vegabréf kæranda gæti hafa glatast. Kærandi hafi verið á stöðugum hrakhólum með húsnæði hér á landi og hafi flutt mikið á milli staða. Kærandi hafi jafnframt deilt íbúðum, ýmist með kunningjum eða fólki sem hann hafi þekkt lítil deili á. Talsverður fjöldi fólks hafi því auðveldlega geta komist í föggur hans á þessu tímabili, einkum þegar hann hafi dvalið á Landspítalanum, en allt eins sé mögulegt að vegabréfið hafi glatast í flutningum fyrir slysni, verið fargað eða tapast í einni spítalaferðinni. Varðandi misræmi í framburði kæranda um aldur hans kvað kærandi fæðingarár sitt vera […], líkt og fram hafi komið í vegabréfi hans frá Marokkó. Kærandi hafi þjáðst af þunglyndi og áhyggjum af húsnæðisvandræðum og efasemdum um að hann gæti í raun búið einn vegna veikinda sinna og af þeim sökum hafi hann gripið í það hálmstrá að segjast vera fæddur árið 2005 og þ.a.l. barn. Þetta hafi verið örvæntingafull og misráðin hugmynd sem hafi byggt á þeirri óskhyggju að þar með myndu opnast einhverjir búsetumöguleikar á vegum félagsþjónustu Reykjavíkur eða barnaverndar. Þetta uppátæki hafi verið framkvæmt af hvatvísi og dómgreinarleysi, enda hafi kærandi ekki haft uppi neina burði til að halda þessum fullyrðingum sínum til streitu.

Líkt og áður greinir óskaði kærunefnd eftir frekari rökstuðningi á því hvers vegna kæranda væri ómögulegt að sækja um nýtt vegabréf í sínu heimaríki eða sendiráði þess, með vísan til niðurstöðu Útlendingastofnunar um að kærandi hafi ekki sýnt fram á raunverulegan ótta við ofsóknir af hálfu þarlendra yfirvalda. Í viðbótargreinargerðinni kemur m.a. fram að ákvörðun Útlendingastofnunar breyti ekki upplifun og veruleika kæranda ein og sér. Umsókn kæranda um alþjóðlega vernd vegna stjórnmálaskoðana hans hafi verið hafnað á sínum tíma og honum verið veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Hann hafi unað þeirri niðurstöðu en sú ákvörðun hafi byggst á félags- og efnahagslegum aðstæðum kæranda og feli ekki í sér viðurkenningu á túlkun Útlendingastofnunar á stöðu mannréttindamála í hernumdum héruðum Vestur-Sahara. Íslensk stjórnvöld séu talin sérlega andsnúin Marokkóstjórn að mati ráðamanna þar í landi og afar líklegt sé að kærandi verði skilgreindur sem mögulegur andófsmaður. Því ætti ekki að koma á óvart þótt kærandi sé smeykur við að hætta sér inn á yfirráðasvæði Marokkó eða eiga í samskiptum við Marokkóstjórn. Kærandi vilji ekki beina frekari athygli að sér eða fjölskyldu sinni í heimaríki sínu. Þá sé kærandi í stöðugri læknismeðferð á Landspítala, m.a. nýrnaskilun[…]. Ekki sé auðvelt fyrir sjúklinga í þeirri stöðu að ferðast milli landa þar sem slíkt kalli á samninga við nýrnadeildir […] í því landi sem heimsótt sé, auk þess sem ferlið sé flókið og kostnaðarsamt. Kærandi lifi á grunnframfærslu frá Reykjavíkurborg og yrði það honum þungt í skauti að fjármagna utanlandsferð í þessum tilgangi einum. Þá sé ekki mælt með ferðalögum að tilefnislausu fyrir fólk í hans stöðu.

Líkt og áður greinir mælir 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga um rétt flóttamanna til að fá útgefið ferðaskilríki til ferða til útlanda. Í ákvæðinu er kveðið á um að slík ferðaskilríki verði veitt þeim sem njóti alþjóðlegrar verndar hér á landi. Ákvæðið er útfært nánar í 17. gr. reglugerðar um íslensk vegabréf þar sem fram kemur m.a. að ferðaskilríki skuli einungis gefa út til þeirra sem stjórnvöld hafi viðurkennt að hafi stöðu flóttamanna hér á landi og dveljist löglega hérlendis. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. mars 2020, var kæranda veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Í ljósi þess getur kærandi ekki talist vera flóttamaður í skilningi 1. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga. Með vísan til framangreinds er það ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga um útgáfu ferðaskilríkis fyrir flóttamenn.

Í 3. mgr. 46. gr. laga um útlendinga er fjallað um útgáfu vegabréfa til útlendinga sem hafa fengið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli umsóknar um alþjóðlega vernd, án þess þó að hafa hlotið hana. Ákvæðið er nánar útfært í 16. gr. reglugerðar um íslensk vegabréf þar sem sett eru fram þau skilyrði að umsækjandi sé löglega búsettur hér á landi og geti sýnt fram á að hann geti ekki fengið ferðaskilríki frá heimaríki, eða að hann sé ríkisfangslaus. Ekki er tilgreint hvað felist í orðalaginu „geti ekki fengið“ í 2. mgr. 16. gr., en þegar horft er til orðalags ákvæðisins í heild, sem og í samræmi við 3. mgr. 46. gr. laga um útlendinga, má ráða að átt sé við tilvik þar sem umsækjanda standi ekki til boða að fá útgefið ferðaskilríki, þ. á m. vegabréf, í heimaríki sínu.

Kærandi hefur greint frá því að hann geti ekki fengið vegabréf frá heimaríki sínu, eða sendiráði Marokkó í öðru ríki, þar sem hann óttist marokkósk yfirvöld. Kvað kærandi ákvörðun Útlendingastofnunar, um að synja honum um alþjóðlega vernd vegna stjórnmálaskoðana hans, ekki breyta upplifun hans og veruleika. Kærunefnd horfir til þess að ákvörðun Útlendingastofnunar var ekki kærð til kærunefndar á sínum tíma og verður því ekki lagt efnislegt mat á ákvörðunina af hálfu nefndarinnar. Kærunefnd hefur ekki forsendur til þess að draga í efa mat Útlendingastofnunar um að kærandi hafi ekki sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki sínu í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með vísan til þess verður ekki fallist á það með kæranda að hann geti ekki fengið vegabréf í heimaríki sínu eða í sendiráði Marokkó af þeirri ástæðu að hann óttist þarlend yfirvöld. Verður því lagt til grundvallar að kæranda standi til boða að fá útgefið vegabréf af yfirvöldum í heimaríki hans. Með vísan til framangreinds eru skilyrði 2. mgr. 16. gr. reglugerðar um íslensk vegabréf ekki uppfyllt, sbr. fyrri málslið 3. mgr. 46. gr. laga um útlendinga.

Í síðari málslið 3. mgr. 46. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimila megi útgáfu vegabréfs fyrir útlendinga í öðrum tilvikum ef sérstakar ástæður mæli með því. Ekki er tilgreint nánar í ákvæðinu, eða í athugasemdum um það í frumvarpi laganna, hvað talist geti til sérstakra ástæðna. Við mat á því hvort sérstakar ástæður mæli með því að kærandi fái útgefið vegabréf horfir kærunefnd til þess að kærandi glímir við ýmis heilsufarsvandamál og liggur m.a. fyrir læknisvottorð frá nýrnasérfræðingi á Landspítala, dags. 11. janúar 2022, því til stuðnings. Í vottorðinu kemur m.a. fram að kærandi sé í skilunarmeðferð á Landspítala vegna lokastigs nýrnabilunar. Meðferðin sé þrisvar sinnum í viku í þrjár til fjórar klukkustundir í senn allt árið um kring. Kærandi sé jafnframt með sykursýki og sé í insúlínmeðferð við því. Fram kemur að stefnt sé á að framkvæma ígræðsluuppvinnslu á næstu mánuðum svo að kærandi eigi þess kost að fá ígrætt nýra, og mögulega bris, úr látnum einstaklingi. Kærandi þurfi að geta ferðast til Gautaborgar í Svíþjóð með 6 til 24 klukkustunda fyrirvara og því sé nauðsynlegt að hann hafi skilríki sem geri honum kleift að ferðast. Með vísan til þess sem rakið hefur verið um heilsufar og læknismeðferð kæranda er það mat kærunefndar að aðstæður kæranda séu þess eðlis að sérstakar ástæður mæli með því að kærandi fái útgefið vegabréf fyrir útlendinga. Horfir kærunefnd einkum til læknismeðferðarinnar sem kærandi sækir hér á landi og þeirra erfiðleika sem kynnu að fylgja ferðalagi milli ríkja af þeim sökum.

Í 3. mgr. 16. gr. reglugerðar um íslensk vegabréf kemur fram að gildi vegabréfs fyrir útlending megi binda við tiltekið svæði. Einnig megi gefa slíkt vegabréf út með skemmri gildistíma en mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar, þ.e. tvö ár frá útgáfudegi. Í ljósi þess að það liggur fyrir að kærandi muni sækja læknismeðferð í Svíþjóð á næstu mánuðum eða árum telur kærunefnd ekki ósanngjarnt að binda gildi vegabréfsins við Svíþjóð. Þar sem erfitt er að meta lengd biðarinnar eftir ígræðslu líffæra í Svíþjóð telur kærunefnd ekki ástæðu til að marka vegabréfinu styttri gildistíma en tvö ár frá útgáfudegi þess, sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar um íslensk vegabréf.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda vegabréf fyrir útlendinga.

Samantekt

Ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um útgáfu vegabréfs fyrir útlendinga er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda vegabréf.

 

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda vegabréf.

The decision of the Directorate of Immigration in the case of the appellant is vacated. The Directorate is instructed to issue a passport for the appellant.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                           Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum