Hoppa yfir valmynd
15. júní 2000 Félagsmálaráðuneytið

Ný lög um hópuppsagnir

Ný lög um hópuppsagnir, nr. 63/2000 voru samþykkt á Alþingi í maí sl. Lögin leysa af hólmi eldri lög um sama efni, nr. 95/1992.

Nýju lögin voru m.a. samin með hliðsjón af nauðsynlegum lagabreytingum vegna tilskipunar 98/59/EB.

Helstu breytingar sem felast í lögum nr. 63/2000 frá eldri lögum um hópuppsagnir eru eftirfarandi:

1. Lögunum er nú skipt upp í fimm kafla en lög nr. 95/1992 voru ekki kaflaskipt. Með því að skipa saman ákvæðum sem samstöðu eiga undir sérstök kaflaheiti er stefnt að betri skilningi á réttindum og skyldum sem gilda eiga í samskiptum atvinnurekanda og fulltrúa starfsmanna annars vegar og á milli atvinnurekanda og svæðisvinnumiðlana hins vegar að því er snertir framkvæmd laganna.

2. Í lögum nr. 95/1992 var kveðið á um að atvinnurekandi skyldi tilkynna stjórn vinnumiðlunar um áformaðar hópuppsagnir. Samkvæmt lögum nr. 13/1997 um vinnumarkaðsaðgerðir hafa svokölluð svæðisráð tekið við hlutverki stjórnar vinnumiðlunar. Nýju lögin taka mið af þessum breytingum.

3. Lög nr. 95/1992 tóku ekki til starfsmanna sem misstu vinnu sína þegar starfsemi fyrirtækis stöðvaðist vegna dómsúrskurðar en lög nr. 63/2000 taka að meginefni til einnig til slíkra tilvika.

4. Kveðið er á um heimild fulltrúa starfsmanna til að kveðja til sérfræðinga sér til aðstoðar á meðan á samráði samkvæmt lögunum stendur.

5. Ákvæði laga um hópuppsagnir eru nú bundin viðurlögum þannig að brot atvinnurekanda á skyldum sínum hvað varðar samráð og upplýsingagjöf vegna áformaðra hópuppsagna geta leitt til skaðabótaskyldu hans gagnvart starfsmönnum auk þess sem mælt er fyrir um að brot gegn lögunum geti varðað sektum sem renni í ríkissjóð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira