Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Afkoma ríkissjóðs fyrir 2022 áætluð 60 milljörðum betri en gert var ráð fyrir

Hagvöxtur verður óvíða meiri meðal OECD ríkja en á Íslandi í ár. Hraður viðsnúningur er að verða á afkomu ríkissjóðs á þessu ári og er gert ráð fyrir að afkoman sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verði um 2 prósentustigum betri en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga, eða sem nemur um 60 ma.kr. Batinn hefur verið drifinn áfram af mikilli fjölgun ferðamanna og vexti einkaneyslu. Þetta kemur fram í fjáraukalagafrumvarpi ársins 2022 sem lagt hefur verið fram á Alþingi.

Í frumvarpinu er að finna endurmat á afkomuhorfunum fyrir árið 2022 í samanburði við áætlun fjárlaga. Er nú gert ráð fyrir að halli á afkomu ríkissjóðs verði 3,4% af VLF á árinu í stað 5,2% af VLF samkvæmt áætlun fjárlaga og 7% af VLF árið 2021.

Sá hraði viðsnúningur sem nú er að verða á afkomu ríkissjóðs kemur í kjölfar mikils hallareksturs árin 2020 og 2021 sem leiddi af heimsfaraldri kórónuveiru. Áhrifa faraldursins hefur áfram gætt á útgjaldahlið ríkissjóðs í ár en þó ekki í sama mæli og sl. tvö ár. Þá hefur tekjuhlið ríkissjóðs tekið hraustlega við sér eftir að hafa dregist mikið saman í faraldrinum.

Atvinnuleysi lækkað hraðar en búist var við

Kröftugur efnahagsbati sem hófst árið 2021 hefur náð miklum styrk á þessu ári og er drifinn áfram af mikilli fjölgun ferðamanna og vexti einkaneyslu. Hvort tveggja hefur verið umfram væntingar við samþykkt fjárlaga ársins. Atvinnuleysi hefur lækkað hraðar en búist var við, jafnvel þótt aldrei fyrr hafi fleiri flutt til landsins en frá því fyrstu níu mánuði árs en árið 2022. Batinn hefur verið svo þróttmikill að óvíða meðal aðildarríkja OECD verður meiri hagvöxtur í ár. Verðbólga hefur einnig hækkað í ár langt umfram það sem spáð var við samþykkt fjárlaga ársins. Stafar verðbólgan bæði af hárri verðbólgu erlendis og ekki síður innlendum þáttum. Hækkun húsnæðisverðs skipti þar miklu en hún er alls ekki eini innlendi kostnaðarþátturinn sem hefur hækkað verulega. Há verðbólga eykur tekjur ríkissjóðs til skamms tíma. Lengri tíma áhrif eru þó óljósari, enda ýmsir útgjaldaliðir sem hækka einnig. Væntingar standa til að verðbólga hjaðni áfram næstu mánuði þótt nokkurn tíma muni taka hana að komast aftur í 2,5% markmið Seðlabanka Íslands.

Áhrif efnahagsbatans sést glögglega í hratt batnandi frumjöfnuði ríkissjóðs. Áætlað er að halli frumjafnaðar á árinu 2022 verði 38 ma.kr. eða 1% af VLF í stað 131 ma.kr. eða 2,7% af VLF samkvæmt áætlun fjárlaga. Frumjöfnuður ríkissjóðs, sem er heildarjöfnuður að frádregnum vaxtajöfnuði, er því að batna um 94 ma.kr. frá áætlun fjárlaga. Gangi þessar áætlanir eftir er frumjöfnuðurinn að batna um 4,7% af VLF á milli ára, en frumjöfnuður ríkissjóðs var neikvæður um 187 ma.kr. árið 2021 eða sem svarar til 5,7% af VLF. Frumtekjur eru áætlaðar 111 ma.kr. hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Þar af aukast skatttekjur og tryggingagjöld um 100 ma.kr. Af einstökum sköttum aukast tekjur af VSK mest frá áætlun fjárlaga sem að stórum hluta má rekja til neyslu erlendra ferðamanna.

Hærri laun og betri staða skila auknum tekjum

Þá er áætlun tekjuskatts einstaklinga og tryggingagjalds hærri en í fjárlögum sem skýrist af hærri launum, auknum vinnustundum og minna atvinnuleysi en gert var ráð fyrir í fyrri forsendum. Á móti auknum tekjum vegur nokkur aukning frumgjalda frá áætlun fjárlaga, en hækkun þeirra er áætluð um 18 ma.kr. þegar tekið er tillit til liða sem gert er ráð fyrir að verði lægri á árinu t.d. útgjöld vegna atvinnuleysis. Til hækkunar vega þyngst aukin útgjöld til heilbrigðisþjónustu sem rekja má til faraldursins einkum á fyrri hluta árs. Af öðrum útgjaldaauka má nefna endurmat á launaforsendum fjárlaga m.a. vegna hagvaxtarauka og framlaga vegna verkefnisins betri vinnutíma í vaktavinnu auk viðbótarkostnaðar vegna mótvægisaðgerða sem ríkisstjórnin samþykkti að fara í til að bæta hag tekjulægri heimila vegna aukinnar verðbólgu á árinu. Nánar er fjallað um breytingar á tekju- og gjaldahlið frá áætlun fjárlaga í greinargerð fjáraukalagafrumvarpsins.

Vaxtajöfnuður ríkissjóðs stefnir í að verða neikvæður um 88 ma.kr. á yfirstandandi ári eða 2,4% af VLF. Það er 33 ma.kr. lakari útkoma en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir. Lakari útkomu frá áætlun fjárlaga má rekja til 37 ma.kr. aukningar í vaxtagjöldum ríkissjóðs sem skýrist nær alfarið af umtalsvert hærri verðbólgu á þessu ári sem aftur leiðir til mun hærri gjaldfærslu á verðbótum verðtryggðra lána en áður var gert ráð fyrir. Verðbætur eru reiknaðar af höfuðstól verðtryggðra lána og færðar sem vaxtagjöld á því ári sem þær myndast eins og tilgreint er í alþjóðlegum hagskýrslustaðli. Þær hafa takmörkuð áhrif á greiðsluflæði ríkissjóðs fyrr en við endurgreiðslu lánsins þar sem verðbætur leggjast við höfuðstól. Í áætlunum er gert ráð fyrir að verðbætur lækki strax á næsta ári og árin þar á eftir samhliða lækkandi verðbólgu.

Að teknu tilliti til vaxtajafnaðarins er heildarafkoman engu að síður að batna umtalsvert frá áætlun fjárlaga eða um rúmlega 60 ma.kr. Þannig er gert ráð fyrir að halli á afkomu ríkissjóðs verði 126 ma.kr. eða 3,4% af VLF á árinu í stað 186 ma.kr. eða 5,2% af VLF skv. áætlun fjárlaga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum