Hoppa yfir valmynd
15. maí 2012 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 1/2012

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ráðning í starf. Hæfnismat.

 

Tryggingastofnun ríkisins auglýsti í október 2011 laust starf tryggingafulltrúa á réttindasviði. Kærandi, sem er karl, taldi að brotið hafi verið gegn jafnréttislögum þar sem hann taldi sig vera hæfari eða jafn hæfan þeirri konu sem ráðin var, á grundvelli menntunar sinnar, hæfni og reynslu. Tryggingastofnun ríkisins taldi hins vegar að konan hefði verið hæfasti umsækjandinn um starfið af þeim umsækjendum sem boðaðir voru í viðtal, höfðu stúdentspróf og reynslu af skrifstofu- og ritarastörfum. Kærunefnd jafnréttismála taldi að ekki hafi verið leiddar líkur að því að kynferði hafi legið til grundvallar ráðningu í starf tryggingafulltrúa, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga, nr. 10/2008. Bæði kærandi og aðrir umsækjendur með háskólapróf voru útilokaðir í ráðningarferlinu, óháð kyni. Var því ekki talið að Tryggingastofnun ríkisins hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, þegar ákvörðun var tekin um að ráða konu í starf tryggingafulltrúa.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 15. maí 2012 er tekið fyrir mál nr. 1/2012 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með kæru dagsettri 17. janúar 2012, móttekinni 20. janúar 2012, krefst kærandi, A, viðurkenningar á því að kærði, Tryggingastofnun ríkisins, hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ráðningu tryggingafulltrúa á réttindasviði stofnunarinnar þann 1. janúar 2012.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 27. janúar 2012 og var í kjölfarið veittur frestur til 21. febrúar 2012 til andsvara. Greinargerð frá kærða barst með bréfi 20. febrúar og var send kæranda til kynningar degi síðar.
 4. Frekari athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dagsettu 24. febrúar 2012 og var kærða gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við greinargerðina á framfæri, sem kærði gerði með bréfi, dagsettu 8. mars 2012.
 5. Nefndin óskaði eftir frekari upplýsingum og gögnum frá kærða 15. mars 2012. Kærði sendi nefndinni umbeðin gögn og upplýsingar með bréfi, dagsettu 20. mars. Nefndin óskaði enn frekar eftir upplýsingum frá kærða 3. apríl og 9. maí og bárust upplýsingarnar nefndinni 10. apríl og 7. maí.
 6. Kæranda voru send afrit af framangreindum bréfum nefndarinnar. Lokaathugasemdir kæranda bárust með tölvubréfi 12. apríl 2012.
 7. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

  MÁLAVEXTIR
 8. Kærði auglýsti starf tryggingafulltrúa á réttindasviði laust til umsóknar 12. október 2011 og sótti kærandi um starfið 18. október 2011. Umsækjendur um starfið voru 48 en af þeim voru sjö einstaklingar kallaðir í viðtal en kærandi var ekki einn af þeim. Að loknum viðtölum var kona ráðin í starfið.
 9. Kærði tilkynnti kæranda með tölvubréfi, 22. nóvember 2011, að annar umsækjandi hefði verið ráðinn. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi með tölvubréfi sem sent var sama dag. Sá rökstuðningur var látinn í té með tölvubréfi samdægurs og kærandi upplýstur um að sú sem ráðin var hafi uppfyllt öll skilyrði um menntun og hæfi, og hafi verið talin hæfust. Kærandi krafðist frekari rökstuðnings og bað um upplýsingar um hvaða menntun sú sem ráðin var hefði með tölvubréfi 23. nóvember. Kærði svaraði með tölvubréfi 24. nóvember að hún hefði stúdentspróf.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA
 10. Kærandi krefst þess að viðurkennt verði að kærði hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ráðningu tryggingarfulltrúa á réttindasviði. Jafnframt krefst kærandi greiðslu lögmannskostnaðar.
 11. Í kjölfar þess að kæranda var tilkynnt að hann hafi ekki verið ráðinn í starfið heldur kona óskaði kærandi eftir rökstuðningi. Í þeim rökstuðningi hafi verið greint frá því að sú sem ráðin var hafi uppfyllt öll skilyrði menntunar og hæfis, og verið talin hæfust. Frá því hefði verið greint að upplýsingar sem aflað hafði verið í viðtali og frá umsagnaraðilum styrktu þá ákvörðun og hún talin falla best inn í starfshópinn og styrkja hann. Frá því hafi verið greint í kjölfar frekari fyrirspurnar að hún hefði stúdentspróf. Í rökstuðningi kærða kom ekkert fram um hvers vegna kærandi var ekki boðaður í viðtal eða hvers vegna hann hafi ekki komið til greina.
 12. Kærandi álítur að í ljósi þess að á réttindasviði kærða starfi 33 konur en einungis fjórir karlmenn hafi verið í fyrsta lagi brotið á jafnréttislögum og rannsóknarreglu stjórnvalda þar sem kærandi hafi hvorki verið boðaður í viðtal né leitað til umsóknaraðila. Í öðru lagi hafi verið brotið gegn jafnréttislögum þar sem kærandi var ekki ráðinn í starfið þrátt fyrir að vera hið minnsta jafnhæfur þeirri sem ráðin var.
 13. Kærandi byggir á því að samkvæmt 5. gr. jafnréttislaga skuli atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og að í 6. gr. sömu laga komi fram að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildi það m.a. um ráðningu, setningu eða skipun í starf. Þessar reglur verði að skýra svo að aðila skuli veitt starf ef að hann er að minnsta kosti jafnt að því kominn að því er varðar menntun, reynslu og annað sem máli skiptir og einstaklingur af gagnstæðu kyni, sem við hann keppi, ef fáir af kyni þess fyrrnefnda eru á starfsviðinu. Á réttindasviði kærða starfa fleiri konur en karlar.
 14. Kærandi vekur athygli á því að hann hafi útskrifast með M.L. gráðu í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri vorið 2011 og sé með stúdentspróf frá Verkmenntaskólanum á Akureyri þar sem hann hafi m.a. verið við nám í tölvunarfræði. Kærandi hafi auk þess starfað sem þjónustufulltrúi hjá Símanum á árunum 2006-2011 bæði í hlutastarfi og í fullu starfi. Starf hans þar hafi falist í að þjónusta viðskiptavini Símans en stór þáttur af þeirri þjónustu hafi falið í sér að reyna að greina þarfir viðskiptavinarins auk þess að leysa úr þeim vandamálum sem upp geta komið m.a. vegna reikninga og vankanta á þjónustu. Einnig hafi falist í starfinu að leysa ýmis verkefni í tölvu svo og með skriflegum og munnlegum samskiptum við viðskiptavini og aðra starfsmenn Símans. Starfið hafi veitt mikla reynslu í mannlegum samskiptum og krafist mikillar þolinmæði gagnvart viðskiptavinum fyrirtækisins.
 15. Í auglýsingu kærða um starfið var stúdentspróf skilyrði en frekari menntun talinn kostur. Að mati kæranda verður almennt að telja að þegar störf séu auglýst séu þær kröfur sem tilgreindar eru lágmarkskröfur. Efni auglýsingar og þær kröfur sem í henni eru gerðar veita ákveðna vísbendingu um hvernig umsóknir verða metnar. Þegar tiltekið er að frekari menntun er talin kostur, megi ætla að verið sé að ýta undir að háskólamenntaðir einstaklingar sæki um starfið og að menntun skipti máli við ráðningaferlið.
 16. Að mati kæranda er ljóst að menntun hans sé mun meiri en menntun þeirrar sem ráðin var. Lögfræðimenntun hans sé vel til þess fallin að fjölga þeim verkefnum sem hann geti unnið og létt á öðrum starfsmönnum. Ljóst er að lögfræðiþekking komi sér mjög vel í samskiptum við annað starfsfólk kærða og í samskiptum við þá sem leita til kærða um réttindi sín.
 17. Kærði krafðist reynslu af ritarastörfum í auglýsingunni. Kærandi bendir á að þrátt fyrir að starfstitill hans hafi ekki verið ritari þá fólst í starfi hans hjá Símanum margir af þeim sömu þáttum og felast í almennu ritarastarfi. Kærandi hafi því um fimm ára reynslu af sambærilegu starfi og auglýst var. Auk þess hafi falist í lögfræðimenntun hans nám í framsetningu, úrlausn deiluefna og rituðu máli. Til viðbótar við ofantalda hæfni hafi kærandi verið við nám í tölvunarfræði við Verkmenntaskólann á Akureyri og hafi því mikla þekkingu á allri tölvuvinnslu. Kærandi hefur notað bæði forritin Microsoft Word og Microsoft Excel við nám og leik. Kærandi hafi við háskólanám sitt skrifað lærðar ritgerðir bæði á íslensku og ensku. Kærandi svari því öllum hæfiskilyrðum sem fram koma í auglýsingu, auk þess sem hann hafi sérþekkingu sem gæti nýst honum í starfi.
 18. Kærði boðaði kæranda ekki í viðtal, þrátt fyrir hæfni hans og óskaði ekki eftir frekari upplýsingum um starfsreynslu hans eða hvers eðlis starf hans hjá Símanum hafi verið. Enn fremur hafi ekki verið leitað til umsagnaraðila. Kærði hafi því brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Að mati kæranda er ljóst að samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, hafi borið að ráða karlmann í starfið hafi hann hið minnsta verið jafnhæfur, þar sem á réttindasviði kærða starfi mun fleiri konur en karlar. Kærandi telur því að hann sé hið minnsta jafnhæfur þeirri sem ráðin var.

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA
 19. Kærði getur þess að starf tryggingafulltrúa á réttindasviði hafi verið auglýst laust til umsóknar á Starfatorgi þann 12. október 2011 og umsóknarfrestur verið til 30. október sama ár. Í auglýsingunni hafi komið fram að stúdentsprófs hafi verið krafist en að frekari menntun væri kostur. Þá hafi verið gerð krafa um reynslu af ritarastörfum sem og um góða kunnáttu í Word og Excel, góða íslenskukunnáttu og færni í rituðu máli. Einnig hafi verið gerð krafa um vönduð og áreiðanleg vinnubrögð og um jákvætt viðhorf og góða samskiptafærni.
 20. Í starfi tryggingafulltrúa á réttindasviði felist ritun endurhæfingar- og örorkumata, ritun greinargerða, bréfa og úrskurða, svara fyrirspurnum í síma og tölvupósti, skanna gögn og ganga frá málum í skjalasafn, senda mál í mat til lækna utan Tryggingastofnunar og til endurhæfingarmatsteymis og sinna öðrum þeim verkefnum sem tryggingafulltrúa eru falin.
 21. Hjá kærða starfa 21 tryggingafulltrúi. Starfsheitið hefur beina skírskotun í stofnanasamning kærða við SFR, Stéttarfélag í almannaþjónustu. Laun tryggingafulltrúa fara samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðuneytis og SFR. Í því félagi eru þeir opinberu starfsmenn sem ekki hafa lokið háskólaprófi. Umsækjendur um starfið voru 48, þar af voru 38 konur og tíu karlar. Á grundvelli starfslýsingar hafi enginn umsækjenda með háskólapróf verið kallaður í viðtal vegna starfsins. Í viðtal voru kallaðir fimm einstaklingar, allir með stúdentspróf og reynslu af ritarastörfum. Af þeim mættu þrír. Var þá tekin ákvörðun um að kalla til tvo aðra umsækjendur með langa reynslu af ritarastörfum og menntun sem jafna má til stúdentsprófs. Sá einstaklingar sem var ráðinn er með stúdentspróf og reynslu af ritarastörfum.
 22. Með því að tilgreina í auglýsingu að frekari menntun væri kostur hafi kærði ekki verið að sækjast eftir starfsmanni með háskólapróf, eins og fullyrt er í kæru. Tilgangurinn hafi einungis verið sá, að geta þess að litið yrði til þess sem sérstakrar hæfni ef umsækjandi hefði t.d. góða þekkingu á erlendu tungumáli eða hefði lokið ritara- eða tölvunámi.
 23. Í 5. mgr. 26. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, segir að við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. hafi verið brotið skuli taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi, samkvæmt lögum eða reglugerðum, eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Af úrskurðum kærunefndar jafnréttismála megi ráða að málefnalegt geti verið að líta fram hjá meiri menntun umsækjanda ef menntunin nýtist ekki í starfi, sbr. t.d. mál kærunefndar nr. 4/2010 og 8/2009.
 24. Það var mat kærða að menntun kæranda væri þess eðlis að hún nýttist ekki í umræddu starfi. Starfið felur í sér aðstoð við sérfræðinga sem eru félagsráðgjafar, læknar og sálfræðingur á réttindasviði en ekki starf þar sem sérfræðiþekkingar er krafist. Þá beri einnig að líta til þess að um launakjör fer samkvæmt kjarasamningi við starfsmannafélag ríkisstofnana en ekki við stéttarfélag háskólamenntaðra starfsmanna. Þegar kærði hefur auglýst laus störf þar sem háskólamenntunar er krafist, sé það skýrt tekið fram í auglýsingu. Einungis hafi verið horft til þeirra sem höfðu stúdentspróf og eftir atvikum aðra menntun sem nýtist í starfinu. Kærði álítur það fyllilega málefnalegt að líta framhjá kæranda og öðrum þeim umsækjendum sem lokið höfðu háskólanámi.
 25. Í umsókn kæranda um starf tryggingafulltrúa, kemur fram að hann hafi frá árinu 2006 starfað sem þjónustufulltrúi í verslun Símans á Akureyri. Í kærunni er fullyrt án frekari skýringa að það starf feli í sér marga af þeim sömu þáttum sem felast í almennu ritarastarfi. Þessu er alfarið mótmælt. Með því að gera kröfu um reynslu af ritarastörfum er verið að gera kröfu um að umsækjandi hafi starfað sem ritari um einhvern tíma. Sú sem ráðin var vann við sölu- og skrifstofustörf um þriggja ára skeið.
 26. Starf hennar hafi falist m.a. í að svara tölvupóstum viðskiptavina og ritun bréfa fyrir hönd sölustjóra, án þess að undirrita þau. Auk þess hafi hún reynslu frá starfi sínu sumarið 2006 á heimili fyrir fötluð börn sem voru í skammtímavistun á vegum Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra, þar hafi hún ritað umsagnir í lok hvers dags um börn sem dvöldu þar. Enn fremur hafði hún á árunum 2001-2005 unnið yfir sumarmánuðina við sölu- og skrifstofustörf. Hún hafi því uppfyllt þetta skilyrði en kærandi ekki.
 27. Kærði dragi ekki í efa þekkingu kæranda á að vinna í Word og Exel, né þekkingu hans og færni í íslensku máli. Á þessa hæfni sem og þeirrar annarrar sem gerð var krafa um í starfsauglýsingu reyndi ekki þar sem hann að mati kærða uppfyllti ekki skilyrði um starfsreynslu.
 28. Eins og fram kemur í kæru starfa 33 konur og fjórir karlar á réttindasviði kærða. Af þeim 33 konum sem þar starfa eru 15 tryggingafulltrúar. Í jafnréttisáætlun kærða segir að jafnréttissjónarmið skuli metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið þegar ákveðið er hvern skuli ráða í starf. Hefði jafnhæfur karl sótt um starfið hefði því að öðru jöfnu borið að ráða hann en ekki konu. Á þetta sjónarmið reyndi ekki þar sem enginn þeirra karla sem sóttu um, þar  með talið kærandi, voru jafnhæfir eða hæfari þeirri sem ráðin var.
 29. Það er meginregla í íslenskum vinnurétti að ráðningaraðili ákveði hvaða sjónarmið skuli lögð til grundvallar við ákvörðun um ráðningu í starf, sé ekki gerð krafa um tiltekna menntun, starfsreynslu eða aðra eiginleika í lögum eða reglugerðum. Þau sjónarmið þurfa þó að vera málefnaleg. Það er mat kærða að þessari meginreglu hafi verið fylgt í hvívetna við ráðningu í starf tryggingafulltrúa. Ekki hafi verið leitað eftir háskólamenntuðum einstaklingi í umrætt starf enda um starf ritara að ræða.
 30. Kærði telur því að það hafi verið fyllilega málefnalegt að líta fram hjá öllum þeim umsækjendum sem lokið höfðu háskólanámi og líta þess í stað til þeirra umsækjenda sem höfðu stúdentspróf eða sambærilega menntun og reynslu af skrifstofu- eða ritarastörfum. Þeir einstaklingar sem hafi verið kallaðir í viðtal hafi allir uppfyllt þau skilyrði sem og skilyrðin um kunnáttu í Word og Excel, góða íslenskukunnáttu og færni í rituðu máli. Í viðtölunum hafi verið lagt mat á hæfni þeirra til vandaðra og áreiðanlegra vinnubragða sem og um jákvætt viðhorf og góðrar samskiptafærni. Í því sambandi hafi jafnframt verið litið til umsagna meðmælenda. Að öllu þessu virtu hafi niðurstaðan verið að sú sem ráðin var væri hæfust til að gegna umræddu starfi.
 31. Kærði hafnar því alfarið að stofnunin hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, með því að kalla ekki kæranda í viðtal. Málefnaleg sjónarmið hafi legið þar að baki eins og hefur verið rakið. Með því að ákveða fyrirfram þau viðmið sem lögð skyldu til grundvallar mati á hæfni umsækjenda og kalla síðan alla þá sem uppfylltu þau viðmið í viðtal, var jafnframt öllum umsækjendum gert jafn hátt undir höfði.
 32. Með vísan til framangreinds hafnar kærði því alfarið að umrædd ráðning hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008.

  ATHUGASEMDIR KÆRANDA
 33. Að mati kæranda má ekki túlka áskilnað í auglýsingu um að frekari menntun sé kostur, sem ósk um sérstaka hæfni eins og tungumálakunnáttu, líkt og kærði haldi fram. Slíkt falli ekki að beitingu orðsins menntun í þessu samhengi heldur falli það innan hæfni eða reynslu sem síðar var krafist í auglýsingu. Í því ljósi sé rétt að benda á það að B.A. nám hans hafi verið að miklu leyti á ensku og hafi það verið krafa um það í námi hans að hann tali, lesi og skrifi mjög góða ensku. Kærandi hafi skrifað B.A. ritgerð sína á ensku og hafi því fullt vald á tungumálinu. Hvað ritara- eða tölvunám snerti sem kærði bendi, þá sé ekki um eiginlega menntun eða nám að ræða heldur sérstaka hæfni eða reynslu. Í því ljósi bendi kærandi á að hann hafi sótt tölvunám við Verkmenntaskólann á Akureyri áður en hann hafi tekið stúdentspróf.
 34. Þegar einungis er gerður áskilnaður um að frekari menntun sé kostur er ekki vísað til ákveðins náms. Slíkt þyrfti að koma skýrlega fram í auglýsingu. Jafnvel þótt reynt sé að leggja þann skilning í hugtakið menntun, sem kærði geri í sínum rökstuðningi, útiloki það ekki háskólamenntun kæranda. Háskólamenntun gerir umsækjanda hæfari til starfans þótt hennar sé ekki krafist í auglýsingu. Sú fullyrðing kærða að menntun kæranda sé þess eðlis að hún nýtist ekki í starfi er haldlaus og órökstudd.
 35. Kærandi hafi við nám í lögfræði ritað fjölda lærðra ritgerða sem eiga að stuðla að því að auka færni. Að auki lærði kærandi t.d. skaðabótarétt og stjórnskipunarrétt, sem myndi nýtast í starfi. Nám kæranda sé því ákjósanlegt og auki mjög hæfi til þeirra verka sem í starfinu felist.
 36. Kærði hafni því að starfsreynslu kæranda megi jafna við ritarastörf eða starfsreynslu þeirrar sem ráðin var. Sú höfnun komi þó spánskt fyrir sjónir í ljósi þess að sú sem ráðin var hafði ekki reynslu við ritarastörf heldur einungis starfsreynslu við sölu- og skrifstofustörf sem og á heimili fyrir fötluð börn. Að mati kæranda sé ljóst af umfjöllun kærða að við hvorugt starfið hafi reynt sérstaklega á ritarareynslu.
 37. Kærandi sé hið minnsta jafnhæfur með sambærilega reynslu og sú sem ráðin var. Hann hafi fimm ára starfsreynslu hjá Símanum, þar sem samskipti hans við aðrar deildir hafi verið skriflegar. Þá hafi hann þurft að skrifa skýrslur um hvert tilvik sem upp kom í samskiptum við viðskiptavini. Þar að auki hafi kærandi starfað á sumrin við bókhald og almenn skrifstofustörf. Miðað við upplýsingar um starfsreynslu þeirrar sem ráðin var, telji kærandi sig hafa sambærilega starfsreynslu og miklu meiri reynslu við skrif ritgerða í háskólanám sitt. Hann sé því hið minnsta jafnhæfur þeirri sem ráðin var.
 38. Kærandi bendir á að kærði hafi ekki boðað þá umsækjendur í viðtal sem voru með háskólapróf. Á hinn bóginn voru boðaðir einstaklingar í viðtal sem ekki uppfylltu lágmarkskröfur um menntun og þeir því teknir fram fyrir þá sem höfðu háskólamenntun. Að mati kæranda geti aldrei verið málefnalegt að boða ekki umsækjanda í viðtal og hafna því að ráða hann á þeim grundvelli að hann sé með háskólapróf. Háskólamenntun sé í öllum tilfellum kostur og telst til reynslu og menntunar sem gerir umsækjanda hæfari til starfs. Að mismuna einstaklingi vegna þess að hann hafi ákveðna framhaldsmenntun er brot á meginreglunni að stjórnvaldi ber að ráða hæfasta einstaklinginn til starfa og má velta fyrir sér hvort einnig sé brotið á VII. kafla Stjórnarskrá Íslands.
 39. Kærandi álítur að engin málefnaleg rök séu fyrir því að kærandi hafi ekki verið boðaður í viðtal eða ráðinn. Kærandi sé með meiri menntun, sambærilega starfsreynslu og þar að auki með sérstaka reynslu sem falist hafi í tölvunámi hans. Kærandi sé augljóslega hæfari en sú sem ráðin var.

  ATHUGASEMDIR KÆRÐA
 40. Kærði leyfir sér að ítreka að umrætt starf þarfnist þekkingar og reynslu af ritara eða skrifstofustörfum. Það sé mat kærða að hæfasti einstaklingurinn hafi verið ráðinn. Því er mótmælt að kærandi hafi meiri menntun eða reynslu á umræddu starfsviði en sú sem ráðin var. Í auglýsingu hafi komið fram að í starfinu fælist m.a. ritun bréfa en sérfræðingar hjá kærða sjái hins vegar um að semja bréfin. Það myndi því ekki reyna á háskólamenntun kæranda í umræddu starfi. Hjá kærða séu öll lögfræðileg viðfangsefni, sem varða starfsemi réttindasviðs, unnin á stjórnsýslusviði af löglærðum starfsmönnum.

  NIÐURSTAÐA
 41. Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. 26. gr. laganna hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
 42. Starf tryggingafulltrúa á réttindasviði kærða var auglýst laust til umsóknar á Starfatorgi þann 12. október 2011 og var umsóknarfrestur til 30. október sama ár. Umsækjendur um starfið voru 48, þar af voru 38 konur og tíu karlar.
 43. Í auglýsingu kom fram að stúdentsprófs væri krafist og að frekari menntun væri kostur. Gerð var krafa um reynslu af ritarastörfum sem og um góða kunnáttu í Word og Excel. Góða kunnáttu í íslensku og færni í rituðu máli. Einnig var áskilin krafa um vönduð og áreiðanleg vinnubrögð og um jákvætt viðhorf og góða samskiptafærni.
 44. Kærði hefur greint frá því að í starfi tryggingafulltrúa á réttindasviði felist ritun endurhæfingar- og örorkumata sem sérfræðingar semja, ritun greinargerða, bréfa og úrskurða, svara fyrirspurnum í síma og tölvupósti, skanna gögn og ganga frá málum í skjalasafn. Sending gagna í málum einstaklinga í mat til lækna utan Tryggingastofnunar og til endurhæfingarmatsteymis sem og að sinna öðrum þeim verkefnum sem tryggingafulltrúa eru falin.
 45. Umsækjendur um starfið munu hafa verið 48 og þar af 30 sem voru með háskólapróf. Kærði hefur greint frá því að tekin hafi verið ákvörðun um að kalla fólk með háskólapróf ekki til viðtals. Það hafi verið gert þar sem starfið útheimti ekki slíka menntun með hliðsjón af starfslýsingu auk þess sem launakjör þau sem væru í boði veittu ekki svigrúm til þess að ráða svo menntaða einstaklinga. Upplýst er að í þeim hópi voru 22 konur og átta karlar.
 46. Nú munu vera í starfi hjá kærða 21 tryggingafulltrúi en starfsheitið mun hafa beina skírskotun í stofnanasamning kærða við SFR, Stéttarfélag í almannaþjónustu. Laun tryggingafulltrúa eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðuneytis og þess stéttarfélags. Í því félagi munu vera þeir opinberu starfsmenn sem ekki hafa lokið háskólaprófi. Í viðtal voru boðaðir sjö einstaklingar sem allir voru annað hvort með stúdentspróf og eða langa reynslu af ritarastörfum og menntun sem jafna má til stúdentsprófs. Sá einstaklingur sem var ráðinn er með stúdentspróf og reynslu af ritarastörfum.
 47. Fyrir liggur að kærandi hefur meistarapróf í lögfræði sem leiddi til þess að hann var ekki boðaður í viðtal og þannig útilokaður frá því að koma til greina í starfið, með sama hætti og aðrir háskólamenntaðir umsækjendur.
 48. Kærði hefur fært fyrir því rök á hvaða forsendum sú ákvörðun var tekin að boða háskólamenntað fólk ekki í viðtal. Óháð því hvort sú ákvörðun hafi almennt séð verið málefnanleg eða ekki, verður ekki séð að þeirri ákvörðun hafi verið beint að öðru kyninu frekar en hinu þar sem konur voru í miklum meirihluta háskólamenntaðra umsækjenda.
 49. Áréttað skal að samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, er verkefni kærunefndarinnar að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin. Hugsanlegur ágreiningur um réttmæti þessarar ákvörðunar kærða, svo sem varðandi stjórnsýslulega meðferð málsins, er laut að afmörkun hóps þeirra umsækjenda sem kallaðir voru í viðtal, fellur ekki undir verksvið nefndarinnar. Verður enda ekki ráðið af málavöxtu að undirbúningi ákvörðunar um ráðningu í starf tryggingarfulltrúa hafi verið háttað þannig að ekki hafi verið gætt að ákvæðum laga, nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
 50. Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar jafnréttismála að ekki hafi verið leiddar líkur að því að kynferði hafi legið til grundvallar ráðningu í starf tryggingafulltrúa, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga, nr. 10/2008. Verður ekki talið að Tryggingastofnun hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, þegar ákvörðun var tekin um að ráða konu í starf tryggingafulltrúa.

 Ú r s k u r ð a r o r ð

Tryggingastofnun ríkisins braut ekki gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 við ráðningu í starf tryggingafulltrúa á réttindasviði.

 

Björn L. Bergsson

Guðrún Björg Birgisdóttir

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira