Hoppa yfir valmynd
13. ágúst 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Öldrunarlæknirinn doktor Samir Sinha gestafyrirlesari á heilbrigðisþinginu 20. ágúst

Minnt er á heilbrigðisþing 2021 sem heilbrigðisráðherra hefur boðað til 20. ágúst og fjallar um framtíðarsýn í heilbrigðisþjónustu við aldraða. Meðal fyrirlesara á þinginu verður Dr. Samir Sinha frá Kanada. Auk læknismenntunar er Sinha með doktorsgráðu í félagsfræði, hann hefur víðtæka reynslu og þekkingu á heilbrigðisþjónustu við aldraða, er eftirsóttur stefnumótandi á því sviði og hefur veitt ráðgjöf til spítala og heilbrigðisyfirvalda víða um lönd. Á þinginu verður m.a. fjallað um drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu til ársins 2030 sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar í byrjun júlí síðastliðinn.

Þetta er fjórða heilbrigðisþingið sem ráðherra efnir til í þeim tilgangi að styrkja stoðir heilbrigðiskerfisins og efla heilbrigðisþjónustu við landsmenn. Bætt heilbrigðisþjónusta við aldraða hefur verið eitt af helstu forgangsmálum heilbrigðisráðherra á kjörtímabilinu. Áhersla hefur verið lögð á að efla þjónustu við aldraða í heimahúsum, fjölga úrræðum og auka sveigjanleika þjónustunnar, samhliða átaki í uppbyggingu hjúkrunarheimila. Ákvörðun um að helga heilbrigðisþing 2021 heilbrigðisþjónustu aldraðra er í samræmi við þetta átak.

Drög að stefnu til umfjöllunar

Fyrr á þessu ári fól heilbrigðisráðherra Halldóri Sigurði Guðmundssyni, fyrrum framkvæmdastjóra Öldrunarheimila Akureyrar, að móta drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030. Í henni er dregin upp sýn að æskilegu heildarskipulagi þjónustu við aldraða, samþættingu milli heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu og þverfaglegs samstarfs milli þessara þjónustustiga. Einnig er horft til nýrra áskorana og fjallað um mögulegar breytingar á framkvæmd og skipulagi þjónustunnar með hliðsjón af nýsköpun og þróun hérlendis og hjá nágrannaþjóðum. Á þinginu mun Halldór flytja fyrirlestur um efni skýrslunnar. Hún hefur verið birt til umsagnar á www.samradsgatt.is og lýkur umsagnarfresti ekki fyrr en nokkru eftir þingið. Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér hana.

Vegna Covid-19 er gert ráð fyrir að gestir þingsins taki þátt í því með rafrænum hætti, streymt verður beint frá þinginu og notast við forritið Slido fyrir virka þátttöku gesta.

Heilbrigðisþing 2021

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum