Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma

Frá ársfundinum: Birgir Jakobsson landlæknir, Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Páll Matthíasson forstjóri Landspítala
Frá ársfundinum: Birgir Jakobsson landlæknir, Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Páll Matthíasson forstjóri Landspítala

Gera má ráð fyrir að á næstu 5 – 6 árum þurfi að bæta við um 500 nýjum hjúkrunarrýmum, flestum á höfuðborgarsvæðinu, til að mæta aukinni þörf vegna fjölgunar aldraðra. Heilbrigðisráðherra stefnir að því að kynna nýja framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma um mitt ár 2015.

Þetta kom fram í máli Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra þegar hann flutti ávarp við upphaf ársfundar Landspítala í dag. Umtalsverð fjölgun hjúkrunarrýma er óhjákvæmileg, sagði ráðherra en lagði jafnramt áherslu á að úrbætur í öldrunarþjónustu þurfi að hafa mun víðari skýrskotun þar sem samhliða er lögð áhersla á að efla þjónustu við fólk í heimahúsum, sinna forvörnum og endurhæfingu:

„Öldruðum fjölgar ört og verða æ hærra hlutfall af þjóðinni. Þetta gerir auknar kröfur til heilbrigðiskerfisins og öldrunarþjónustu. Núna, árið 2015, telja þeir sem eru 67 ára og eldri um 38.000 manns. Árið 2020 verða þeir um 45.300 sem er tæplega 19% fjölgun á fimm árum. Á sama tímabili fjölgar landsmönnum sem yngri eru um tæp 4%. Tölurnar tala sínu máli – hlutfall aldraðra í þjóðfélaginu er að hækka - og við verðum að takast á við staðreyndirnar sem að baki liggja“ sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra: „Ég hef því látið vinna í ráðuneytinu drög að framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarheimila á næstu árum sem ég vonast til að geta kynnt um mitt þetta ár.“

Stofnkostnaður vegna 500 nýrra hjúkrunarrýma nemur um 12 – 15 milljörðum króna, þar sem hlutur ríkisins og Framkvæmdasjóðs aldraðra er 85% á móti 15% hlut sveitarfélaga samkvæmt hefðbundinni kostnaðarskiptingu. Árlegur rekstrarkostnaður 500 hjúkrunarrýma er um 4,8 milljarðar króna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira