Hoppa yfir valmynd
2. janúar 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Yfirstjórn málefna aldraðra og almannatrygginga í nýju félags- og tryggingamálaráðuneyti

Yfirstjórn málefna aldraðra og almannatrygginga færist frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytisins samkvæmt laga- og reglugerðarbreytingum sem gengu í gildi 1. janúar 2008.

Lög um málefni aldraðra, yfirstjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra og lífeyrishluti almannatrygginga og yfirstjórn Tryggingastofnunar ríkisins færist til félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Úrskurðarnefnd almannatrygginga færist jafnframt undir félags- og tryggingamálaráðherra.

Félags- og tryggingamálaráðherra mun leggja fram frumvarp á vorþingi þar sem nánar verður gerð grein fyrir framtíðarhlutverki og skipulagi Tryggingastofnunar, en hún verður rekin með óbreyttu sniði til 1. september 2008. Lögð verður áhersla á að tryggja réttindi starfsmanna Tryggingastofnunar ríkisins við þær breytingar sem kveðið er á um í frumvarpinu.

Félags- og tryggingamálaráðherra hefur auglýst embætti forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins laust til umsóknar. Umsóknarfrestur er til 15. janúar nk.

Nýtt skipurit félags- og tryggingamálaráðuneytisins

Félagsmálaráðuneytið hefur jafnframt auglýst eftir fjórum stjórnendum samkvæmt nýju skipuriti félags- og tryggingamálaráðuneytisins sem öðlaðist gildi þann 1. janúar nk.  

Félags- og tryggingamálaráðuneytið skiptist samkvæmt hinu nýja skipuriti í þrjú fagsvið; velferðarsvið, tryggingasvið og jafnréttis- og vinnumálasvið og þrjú stoðsvið; stjórnsýslu- og stefnumótunarsvið, fjármálasvið og þjónustu- og mannauðssvið. Hið breytta skipulag endurspeglar nýja málaflokka, breytta forgangsröðun og nýjar áherslur í vinnubrögðum ráðuneytisins.

Málefni aldraðra verða meðal verkefna á velferðarsviði og nýtt tryggingasvið verður sett á fót. Þá verða starfrækt stjórnsýslu- og stefnumótunarsvið og þjónustu- og mannauðssvið auk sérstaks fjármálasviðs. Markmið með breytingunum er meðal annars að auka áherslu á stefnumótun innan ráðuneytisins og samskipti á því sviði við stofnanir þess og að efla innri starfsemi ráðuneytisins og starfsmannamál.

Auglýst hefur verið eftir stjórnendum á nýjum sviðum á starfatorgi.

Tenging frá vef ráðuneytisinsNýtt skipurit félags- og tryggingamálaráðuneytisins frá 1. janúar 2008

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum