Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 14/2019. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 6. júní 2019
í máli nr. 14/2019:
Aflvélar ehf.
gegn
Vegagerðinni,
Ríkiskaupum og
Nortek ehf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 13. maí 2019 kæra Aflvélar ehf. útboð Ríkiskaupa f.h. Vegagerðarinnar (hér eftir vísað til sameiginlega sem varnaraðila) nr. 20931 auðkennt „Öryggisvottaðir vegriðsendar fyrir Vegagerðina.“ Kærandi krefst þess aðallega að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila um að velja tilboð Nortek ehf. í hinu kærða útboði og að lagt verði fyrir þá „að velja tilboð að nýju.“ Til vara gerir kærandi þá kröfu að hið kærða útboð verði ógilt og lagt verði fyrir varnaraðila að bjóða út innkaupin að nýju. Þá er þess einnig krafist að kærunefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Jafnframt er krafist málskostnaðar. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu varnaraðila um að aflétta sjálfkrafa stöðvun sem komst á með kæru í þessu máli.

Í mars 2019 óskaði Ríkiskaup f.h. Vegagerðarinnar eftir tilboðum í öryggisvottaða vegriðsenda fyrir Vegagerðina. Að sögn varnaraðila kom fram í auglýsingu útboðs að tilboðum skyldi skilað fyrir kl. 10 hinn 23. apríl 2019. Í útboðsgögnum sem lögð hafa fyrir nefndina kemur hins vegar fram að tilboðum skyldi skilað fyrir kl. 12:00 þennan sama dag. Útboðið fór fram í rafrænu innkaupakerfi Ríkiskaupa, svokölluðu tendsign kerfi, en varnaraðili hefur upplýst að um sé að ræða nýtt kerfi sem tekið hafi verið í notkun í nóvember 2018. Í greinum 1.1.4 og 1.2.3 í útboðsgögnum kom fram að tilboðum skyldi skilað með rafrænum hætti í gegnum kerfi þetta og á því formi sem kerfið gerði ráð fyrir. Samkvæmt grein 1.4.2 skyldi valið á milli tilboða eingöngu á grundvelli fjárhæðar þeirra. Af greinargerðum Nortek ehf. og varnaraðila verður ráðið að Nortek ehf. hafi rétt fyrir hádegi 23. apríl 2019 freistað þess að skila tilboði í gegnum innkaupakerfið en ekki getað það. Þá hafi fyrirtækið haft samband við Ríkiskaup sem hafi heimilað fyrirtækinu að skila tilboði með tölvupósti, sem fyrirtækið hafi gert laust eftir kl. 12:00 þennan sama dag. Af þessum sömu gögnum verður ráðið að ástæða þess að Nortek ehf. hafi ekki getað skilað tilboði í gegnum innkaupakerfið hafi verið tæknilegir ágallar á kerfinu. Í skýrslu um opnun tilboða kom fram að lok tilboðsfrests væri 23. apríl 2019 kl. 10 og að tilboð hefðu verið opnuð sama dag klukkutíma síðar. Ber skýrsla þessi með sér að þrjú tilboð hafi borist; tilboð frá Vik Orsta AS, sem hafi borist 18. apríl 2019 kl. 16:53, tilboð kæranda sem hafi borist 23. apríl sama ár kl. 9:46 og tilboð frá Nortek ehf., en ekki kemur fram hvenær tilboði fyrirtækisins hafi verið skilað. Með tölvubréfi 2. maí 2019 var bjóðendum tilkynnt að varnaraðili hefði ákveðið að velja tilboð Nortek ehf. í útboðinu og kveður varnaraðili það hafa verið lægst gilda tilboðið sem barst. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi gert athugasemdir við þessa niðurstöðu með tölvubréfum 3. og 6. maí sl.

Málatilbúnaður kæranda byggir að meginstefnu á því að útboðskilmálar hafi gert ráð fyrir að tilboðum yrði skilað rafrænt í gegnum innkaupakerfi Ríkiskaupa. Óheimilt hafi verið að velja tilboð sem ekki hafi verið skilað inn með þeim hætti sem útboðsgögn áskildu, en slíkt tilboð sé ógilt samkvæmt 82. gr., sbr. a. lið 1. mgr. 66. gr., laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Niðurstaða

Af greinargerðum Nortek ehf. og varnaraðila verður ráðið að ástæða þess að Nortek ehf. hafi ekki getað skilað tilboði sínu í gegnum rafrænt innkaupakerfi Ríkiskaupa hafi verið villa í kerfinu. Tæknileg vandkvæði tengd kerfinu hafi gert það að verkum að auglýstir tilboðsfrestir hafi breyst frá því sem skráð hafi verið í kerfið á þann hátt að sumir bjóðendur sáu sænskan tíma í stað íslensks tíma, en upplýst er að kerfi þetta var keypt frá sænsku fyrirtæki. Hafi villan áður komið í ljós og verið leiðrétt, en leiðréttingin virðist ekki hafa náð til þeirra fyrirtækja sem hefðu áður skráð sig inn í kerfið, þ.á m. Nortek ehf. Fyrirtækið hafi því verið skráður sem sænskur bjóðandi og þar af leiðandi séð sænskan tíma í kerfinu. Kerfið hafi því hafnað að taka við tilboði Nortek ehf. þegar það hugðist skila tilboði rétt fyrir hádegi 23. apríl 2019. Þá er upplýst í málinu að Nortek ehf. var heimilað að skila tilboði sínu með tölvubréfi skömmu eftir hádegið þennan dag.

Með hliðsjón af framangreindu verður að leggja til grundvallar, eins og mál þetta liggur fyrir nú, að ástæða þess að Nortek ehf. skilaði ekki tilboði sínu í gegnum rafrænt innkaupakerfi Ríkiskaupa innan þeirra tímamarka sem útboðsgögn áskildu hafi verið tæknileg ágallar á kerfinu. Ekki verður séð að við Nortek ehf. sé að sakast í því efni. Við slíkar aðstæður verður að telja að varnaraðilum hafi verið rétt að heimila Nortek ehf. að skila tilboði með þeim hætti sem gert var, en ella hefði fyrirtækið ekki setið við sama borð og aðrir bjóðendur í útboðinu og verður ekki séð að jafnræði bjóðenda hafi verið raskað með þessu, sbr. 15. gr. og 1. mgr. 22. gr. i.f. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Kærandi hefur því ekki leitt verulegar líkur að því að varnaraðili hafi brotið gegn lögum um opinber innkaup í hinu kærða útboði, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 1. mgr. 110. gr. laganna. Verður því að fallast á kröfu varnaraðila um að sjálfkrafa stöðvun sem komst á með kæru í máli þessu verði aflétt.

 
Ákvörðunarorð:

Stöðvun útboðs varnaraðila, Ríkiskaupa f.h. Vegagerðarinnar, nr. 20931 auðkennt „Öryggisvottaðir vegriðsendar fyrir Vegagerðina“, er aflétt.

Reykjavík, 7. júní 2019

Ásgerður Ragnarsdóttir

Eiríkur Jónsson


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum