Hoppa yfir valmynd
14. júní 2017 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Nýjar gerðir ESB vegna niðurfellingar reikigjalda innleiddar

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur nú innleitt nýjar gerðir Evrópusambandsins á sviði fjarskiptaþjónustu er lúta að því að fella niður reikigjöld innan Evrópska efnahagssvæðisins. Frá og með 15. júní 2017 falla reikigjöld niður innan EES. Í því felst að neytendur EES-ríkja munu greiða sama gjald fyrir farsímanotkun á ferðalögum innan EES og þeir greiða heima.

Reikigjöld vegna farsímanotkunar innan EES hafa verið lækkuð í nokkrum áföngum en er með þessari breytingu stigið stærsta skrefið hingað til í því skyni að afnema reikigjöldin, neytendum innan EES til hagsbóta.

Heimagjaldskrá notenda gildir um alla notkun varðandi símtöl og smáskilaboð. Hvað varðar gagnamagn þá gilda reglur um sanngjörn not þar sem fjarskiptafyrirtækin hafa heimild til þess að setja mörk á hve mikið gagnamagn má nota samkvæmt innanlandskjörum. Setji fjarskiptafyrirtæki slík mörk skulu þau upplýsa notendur sína um þau.

Þá skal bent á að í reglugerðinni eru ákvæði um sanngjarna hámarksnotkun á reikiþjónustu miðað við venjuleg ferðalög og heimila þau að lagt sé álag á notkun sem er umfram það sem telst sanngjörn notkun, svo sem þegar dvalið er langdvölum eða flust til annars ríkis á svæðinu.

Einnig skal bent á að reikireglurnar gildi eingöngu um notkun innan EES og því þurfa farsímanotendur áfram að hafa í huga að farsímanotkun erlendis utan EES fer samkvæmt gjaldskrá fjarskiptafyrirtækjanna.

Fyrir hefur legið um langt skeið að umræddar breytingar stæðu til og myndu taka gildi þann 15. júní 2017 í ríkjum Evrópusambandsins. EFTA ríkin sem eiga aðild að EES-samningnum þurfa hins vegar að innleiða sérstaklega í landsrétt löggjöf Evrópusambandsins svo hún taki gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fagnar þessum breytingum og telur þær til mikilla hagsbóta fyrir íslenska neytendur sem hyggja á ferðalög innan EES.

Reglur sem gilda nú um reiki innan EES eru eftirfarandi:

  1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) 531/2012 frá 13. júní 2012 um reiki á almennumfarsímanetum innan Bandalagsins
  2. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2120 frá 25. nóvember 2015
  3. Nýju gerðirnar þrjár hér að neðan eru aðgengilegar sem fylgiskjöl við innleiðingarreglugerðina sem sjá má á vef Stjórnartíðinda.
  4. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/920 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 531/2012 að því er varðar heildsölumarkaði fyrir reiki frá 17. maí 2017.
  5. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/2286 frá 15. desember 2016 um ítarlegar reglur um beitingu viðmiðunarreglna um eðlilega notkun og um aðferðafræði til að meta sjálfbærni afnáms aukagjalds á reiki í smásölu og um umsóknina sem veitandi reiki­þjónustu þarf að leggja fram vegna þess mats.
  6. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/2292 um vegið meðaltal hæsta verðs fyrir lúkningu símtala í farsíma í Sambandinu og um niðurfellingu á fram­kvæmdarreglugerð (ESB) 2015/2352, frá 16. desember 2016.

Sjá einnig vef Póst- og fjarskiptastofnunar

Ríki sem eiga aðild að EES-samningnum eru Ísland, Noregur og Liechtenstein og alls 28 ríki ESB.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira